11.02.1988
Sameinað þing: 47. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4488 í B-deild Alþingistíðinda. (3117)

242. mál, innflutningur loðdýra til kynbóta

Landbúnaðarráðherra (Jón Helgason):

Herra forseti. Ég þakka fyrir að þetta mál er flutt á Alþingi og þær undirtektir sem loðdýraræktin hefur fengið í þeim umræðum sem fram hafa farið. Jafnframt vil ég taka undir hversu mikilvægt er að sú vara sem við framleiðum sé í besta gæðaflokki. Til þess þurfum við að sjálfsögðu að leita allra færra leiða. Það mun hafa verið fyrir tveimur árum sem ég skipaði nefnd hagsmunaaðila til að fjalla um innflutning á loðdýrum og þá til þess að leggja til hvernig skipulega skyldi að því staðið. En innflutningur er að sjálfsögðu ekki neitt nýr af nálinni þannig að allur okkar stofn er tiltölulega nýkominn inn í landið. Það hefur verið rakið hvernig minkastofninn var endurnýjaður þannig að hann er allur tiltölulega nýinnfluttur. Sama er að sjálfsögðu að segja um refastofninn. Þar hafa á síðustu árum verið flutt inn nokkrum sinnum bestu dýr sem völ hefur verið að fá og þá á bú einstakra bænda og verið þar í einangrun. Það var seinast fyrir ári flutt inn mjög fjölbreytt úrval af litarafbrigðum á eitt býli norður í Skagafirði sem að sjálfsögðu er þá einangrun á.

En hins vegar var það niðurstaðan að stofna einangrunarbú til að flytja inn minkastofn. Hann er nú búinn að vera á því búi nærri því eitt ár. Það var lögð mikil áhersla á að fá það þá flutt inn í landið því að af hálfu Sambands loðdýrabænda var talið að það gæti verið erfitt að fá nægjanlega heilbrigð dýr ef því tækifæri sem þá var um að ræða væri sleppt. En það er e.t.v. dæmi um hversu hér þarf að fara með mikilli gát og undirstrikar orð hv. 2. þm. Norðurl. v. að það mun hafa komið upp veiki í öðrum stofni þar sem þau dýr voru tekin, en sem betur fer ekki í þeim stofni sem inn var fluttur. Þar er fylgst rækilega með heilbrigði dýranna af hálfu dýralæknis og sýni tekin reglulega. Sem betur fer hefur ekkert komið hættulegt upp. En þetta sýnir hversu gífurlega mikla gát þarf að hafa á þessum hlutum til þess að ekki hljótist af slys. Ég held að það sé ekki eingöngu mikilvægt fyrir okkar búrekstur á þessu sviði að heilbrigði sé í stofninum eins og reynslan var búin að kenna okkur allt of vel heldur geti líka verið ávinningur að því og þá möguleikar á útflutningi ef við eigum heilbrigðan stofn svipað og gerist nú í sambandi við seiðaeldi þar sem við njótum þess að geta flutt út af því að hér er heilbrigði og eftirlit í mjög góðu lagi.