11.02.1988
Sameinað þing: 47. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4497 í B-deild Alþingistíðinda. (3122)

227. mál, íslenskur gjaldmiðill

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa langt mál um þetta, enda hef ég rætt um suma þætti þessa máls að undanförnu, en ég vil lýsa ánægju minni yfir ýmsu sem kom fram hjá frsm. þó ég sé honum aftur á móti ekki sammála um allt.

Ég var sérstaklega ánægður yfir þeirri yfirlýsingu, þar sem hann er formaður utanrmn., að hann lýsti yfir andstöðu sinni við að við Íslendingar göngum í Efnahagsbandalagið. Í hans flokki hefur bryddað á þeim skoðunum í blöðum og annars staðar að það væri það sem við ættum þó að gera.

Ég er líka ánægður með ýmislegt sem hann sagði í sambandi við bindinguna, vextina, en ég ætla ekki að fara að þessu sinni út í þau mál nánar nema ég ætla að minna á að þegar bindingin var 28% og lækkaði ofan í 18% losnaði Seðlabankinn samtímis við afurðalánin og afurðalánin fóru alfarið til viðskiptabankanna í sömu andrá. Ég var einn af þeim sem voru á móti þessari breytingu af þeim ástæðum að Seðlabankinn var sú eina stofnun sem gat lánað þetta fé með öðrum vöxtum en viðskiptabankarnir geta, enda hefur það komið á daginn. Það var sagt áður, á meðan Seðlabankinn hafði afurðalánin, að bindingin væri eingöngu til að mæta þessari kvöð á Seðlabankanum. Síðan lækkar þetta um 5%, eins og hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson gat um, en er í raun og veru vegna framkvæmdarinnar hærra, eins og ég kom inn á í ræðu minni í gær eða fyrradag. Bindingin fer í sumum tilvikum upp í um 15%. Síðan var sett kvöð um lausafjárskyldu sem ég tel að sé ekki rétt að segja að sé 8% vegna þess að það er tekið mið af fleiri þáttum, a.m.k. miðað við það sem er hjá okkur í Búnaðarbankanum. Ég spurði minn hagfræðing að því síðast í gær hvort það væri ekki rétt hjá mér að það væru 10%, ef einn mælikvarði væri hafður, af heildarinnlánum bankans. Hann sagði það væri rétt niðurstaða. Þannig er þessi binding orðin í raun og veru 23–25% eftir því hvenær á árinu þetta er. Ég veit ekki hvort hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson var hér inni þegar ég ræddi þessi mál, en t.d. Búnaðarbankinn fékk rúmlega 110 millj. til baka vegna þess að hann bar búinn að binda í árslok það mikið meira en 13%, en fékk enga vexti af því.

Ég stóð raunar ekki upp til að ræða þetta þó að ég vildi koma þessu að í leiðinni heldur til að segja að ég er nokkuð myrkfælinn yfir þessari hugmynd en viðurkenni að ég hef ekki haft tíma eða tækifæri til að hugleiða allar hliðar á þessu máli og ég mundi ekki treysta mér til að greiða þessari tillögu atkvæði eins og hún er. Það er nefnilega ekki alveg sama hverjir eru í nefndinni sem fjallar um þetta mál. Ef þar væru eingöngu menn sem hefðu lítið kynnt sér eða kunna á rekstur gæti komið annað út úr því en ef þar væru menn sem stæðu í framleiðslunni, a.m.k. einhver hluti af mönnum, sem þekkja slagæðar þjóðfélagins. Ég fyrir mitt leyti mundi því hafa allan fyrirvara á því ef slík nefnd yrði kosin á þann hátt að það væru tómir skrifstofumenn, hagfræðingar og fjármálaspekingar. Það þyrftu að vera í nefndinni menn sem sæju a.m.k. í fleiri áttir en að taka mið alltaf af fjármagninu einu saman.

Að öðru leyti ætla ég að láta þetta mál bíða betri tíma til að ræða um það þegar ég er búinn að átta mig nánar á hvað þetta mundi þýða ef til þess yrði gripið og það er kannski erfitt að átta sig á því fyrr en nefndin er búin að skila frá sér. Ég geri ráð fyrir að þetta verði samþykkt þótt ég sé með þennan fyrirvara. En ég skora á hv. frsm. þessa máls að hugleiða um nefndarskipunina. Það er stóra málið í þessu.