11.02.1988
Sameinað þing: 47. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4507 í B-deild Alþingistíðinda. (3126)

227. mál, íslenskur gjaldmiðill

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Fyrir liggur till. til þál. um íslenskan gjaldmiðil og þar er sett fram sú hugmynd að æskilegt geti verið að tengja íslenskt myntkerfi við annað stærra myntkerfi þannig að íslenskur gjaldmiðill njóti alþjóðlegrar viðurkenningar og varanlegur stöðugleiki verði í gengismálum hér á landi. Það sem fyrst hlýtur að koma upp í huga manna er að þeir fjórmenningar sem að þessari till. standa eru jafnframt að lýsa því yfir að þeir telji að það ástand sem er sé ófullnægjandi, það sé ekki viðunandi. Og hvaða ástand er í landinu í dag? Samkvæmt þeirri stefnu sem núverandi ríkisstjórn hefur eru þeir einmitt búnir að setja fast. Fastgengisstefna heitir það. Þeir eru búnir að setja fast að manni skilst við alla gjaldmiðla heimsins hvernig sem þeir reikna þetta út. Og við fylgjum eftir. Það hefur enginn orðið var við það mér vitanlega að þetta hafi orðið til að auka viðurkenningu á íslensku krónunni nema síður sé. Og í framkvæmd hefur þetta skilað okkur viðskiptahalla við útlönd á síðasta ári upp á 6-7 milljarða. Eru hærri tölur í boði? Það má vera. (Dómsmrh.: Lægri.) Lægri einnig. Eitt get ég tekið undir með flm. Ástandið er óþolandi eins og það er. Það er óþolandi vegna þess að þeir aðilar sem í dag með lögum hafa fengið það vald að eiga að gera tillögur til íslenskrar ríkisstjórnar um eðlilega skráningu krónunnar sitja með hendur í skauti og hafa í staðinn fallist á ný trúarbrögð, sem boðuð hafa verið, að hér skuli ríkja fastgengisstefna þrátt fyrir lagaákvæði og fyrirmæli sem eru í seðlabankalögunum um að þeir geri tillögur um skráningu hverju sinni.

Að mínu viti er það grundvallaratriði að menn átti sig á því að á hverfanda hveli og í veröld sem snýst, þar sem allt annað er á hreyfingu, er ákaflega erfitt að gera ráð fyrir því að það sem er gjörsamlega kyrrstætt geti táknað annað en ímynd dauðans. Og svo er í reynd. Við þurfum að gera okkur grein fyrir því að gengisskráningin er raunverulega fjöregg íslensku þjóðarinnar eins og allra annarra þjóða. Það er það sem ræður úrslitum hvort við komumst á það stig að eyða í samræmi við það sem við öflum eða hvort við höldum þeirri stefnu, sem nú virðist hafa verið tekin upp sem trúaratriði, að hafa fast gengi þó að útflutningsgreinar Íslands þoli ekki skráninguna og hvert fyrirtækið eftir annað gefist upp í iðnaði og í sjávarútvegi blasi við stöðnun með sömu stefnu.

Ég vil halda því fram að ef þær hugmyndir um frelsi skuli viðgangast, sem hér hafa tröllriðið íslenskri þjóð, frelsi á öllum sviðum, þá verði að vera samræmi í hlutunum, það verði að vera eitthvert réttlæti í þeim leikreglum sem upp eru settar.

Ágætur hafnarverkamaður orðaði það svo í sjónvarpinu að hann væri starfsmaður hjá einhverju best rekna fyrirtæki landsins, Eimskip, og þeir gætu borgað hærra kaup. Það væri ekki sanngjarnt að hans laun yrðu miðuð við eitthvert illa rekið frystihús austur á landi. Og hvaðan kemur svo Eimskip það fé sem þeir fá til að greiða með laun og annað? Jú, ætli það komi ekki m.a. í gegnum flutningsgjöldin á fiskinum frá þessu illa rekna fyrirtæki austur á fjörðum og einnig fyrir innflutning á varningi handa starfsfólkinu sem vinnur hjá því fyrirtæki og mörgum öðrum. Þarna er í sjálfu sér dregin upp einföld mynd. Hugsunin aftur á móti, eins og hún er sett fram, miðar að því að það sé ekki sanngjarnt að ef sum fyrirtæki beiti launaskriði til að hækka laun hjá sínum starfsmönnum af því að þar vegnar vel sé eitthvað sanngjarnt, af því að hann sé starfsmaður í verkamannastétt, að hann eigi að standa fyrir utan þetta launaskrið. Hvað það snertir er hans hugsun í alla staði rökrétt. En hitt gengur einfaldlega ekki upp að binda annars vegar frystihúsið fast með fastgengisstefnu með tekjur en láta hina hafa frelsi til að hafa farmgjöldin eins og þeir vilja. Þetta er stefna sem ekki gengur upp. (SJS: Niður með stjórnina.) Niður með stjórnina, segir einn af hörðustu baráttumönnum þess að ekki verði kosið strax því flokkurinn yrði ekki nógu stór ef það yrði farið í það að kjósa eins og skot.

En svo við höldum okkur við efnið. Hverjar væru þá hinar sanngjörnu leikreglur þannig að allir aðilar gætu hagnýtt sér lögmál framboðs og eftirspurnar sem mjög er lofað og m.a. áhugamál margra að ekki falli nú úr gildi í hænsnarækt? Hvaða leikreglur ætti þá að taka upp varðandi gengismálin? Það liggur alveg ljóst fyrir. Þá á ekki bara að hafa fiskmarkað í Reykjavík. Þá á að hafa gjaldeyrismarkað, frjálst uppboð. Hvort þeir mundu bjóða upp einu sinni í viku eins og þeir gera hjá fiskmarkaðnum, það er svo spurning um verklag.

Vafalaust mundi ríkisstjórn Íslands gefa Seðlabankanum fyrirmæli um að hann skyldi kaupa allan þann gjaldeyri sem til félli á einhverju ákveðnu verði sem hún vildi reyna að halda sem réttu verði á gjaldmiðli. En ef svo færi að þeir fengju ekki eina einustu krónu með því að bjóða þetta dag eftir dag yrði trúlega reglan sú að þeir mundu hækka verðið og hið illa rekna fyrirtæki austur á fjörðum (Dómsmrh.: Það var mikið lán að það var ekki fyrir vestan. Það er mikið lán að það er ekki á Súgandafirði.) fengi kannski hækkun. Ég vil ekki fara að ræða um bakarí á Ísafirði í þessari stöðu, en við skulum halda okkur við gjaldeyrismálin.

Ég held að það sé mikil nauðsyn að menn ruglist ekki í rökfræðinni hvað þetta snertir. Ef það gerðist aftur á móti að með þessu fasta verði, sem ríkisstjórn gæfi Seðlabanka fyrirmæli um að bjóða í gjaldeyrinn, mundu safnast upp óhemju gjaldeyrisbirgðir í landinu, þá mundu þeir náttúrlega lækka verðið. Japanar láta það gerast ár eftir ár að skrá viljandi jafnlágt og hugsanlegt er sinn gjaldmiðil til að eiga afgang í viðskiptum við útlönd. Þeir hafa staðið upp frá spilaborðinu ár eftir ár með 25% fram yfir. Þeir gera allt sem þeir geta til að halda yeninu niðri til þess að atvinnuvegirnir haldi velli. Og þeir ganga svo langt að reyna að halda uppi gjaldmiðlinum hjá hinum eins og dollarnum.

Nei, ég held að það sé fyllilega tímabært að við setjumst niður og ræðum hvað það er raunverulega sem ekki gengur upp í því kerfi sem við erum með. Og það blasir alveg við. Það er beinlínis þjóhættulegt að láta sér detta það í hug að taka ekkert tillit til markaðslögmála þegar gjaldmiðill er verðlagður.

Herra forseti. Ég þarf ekki að segja meira.