11.02.1988
Sameinað þing: 47. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4509 í B-deild Alþingistíðinda. (3127)

227. mál, íslenskur gjaldmiðill

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Herra forseti. Mig langar að þakka öllum ræðumönnum fyrir bæði skemmtilegar og málefnalegar umræður og skal reyna að víkja að einstökum ræðum.

Þá er það fyrst að sjálfsögðu að ég var í flestu efni mjög sammála meðflm. að þessari till., hv. þm. Guðna Ágústssyni, en mér fannst alveg ótækt að fara að skjóta eitthvað á stjórnvöld í Reykjavík eða borgarstjóra út af skiptimynt í stöðumæla. Reykjavík er vel rekin borg eins og allir vita. Hún er efnuð borg líka og gott að fimmtíukallinn eða tíkallinn fer í stöðumælinn. Tíkallinn hefur minnkað ansi mikið síðan hann byrjaði að vera í stöðumælunum og menn þekkja það nú. En það finnst mér ekki skipta neinu meginmáli. En að sjálfsögðu var ég að öðru leyti sammála hans ræðu.

Hv. þm. Stefán Valgeirsson gat þess að hin raunverulega bindiskylda í Seðlabanka mundi vera hærri en ég tilgreindi og ég hygg að hann hafi líklega rétt fyrir sér. Þetta nálgist 1/4 af sparifé þjóðarinnar. Hann er bankaráðsformaður eins og menn vita og kvaðst hafa þessar upplýsingar eftir áreiðanlegum heimildum og ég er ekkert að draga það í efa. En því verra er þá ástandið og gersamlega útilokað annað en gera á því breytingu áður en við förum að tala í mikilli alvöru um að tengjast endilega erlendu myntinni eða myntkerfi og kem ég betur að því síðar. Auðvitað eigum við fyrst að nota okkar eigin peninga og ávísanir á þann gífurlega ríkisauð í okkar eigin mynt áður en við förum að tengjast annarri. Það er mergurinn málsins og það er það sem er nú aðalinnlegg mitt í þessa umræðu eins og svo oft áður að það gengur ekki upp að frysta peninga á frjálsa vexti. Auðvitað á peningaframboðið að vera ótakmarkað, ávísunin á þjóðarauðinn á að vera ótakmörkuð, en Seðlabankinn á að hafa það vald, það hagstjórnartæki, að ákveða sína eigin forvexti. Á þeim vöxtum geti allir viðskiptabankar fengið lán, að því tilskildu að sjálfsögðu að þeir séu góðar stofnanir og eigi fyrir skuldum, séu ekki gjaldþrota, og síðan ákvarðast svo vextirnir af því hver kostnaður bankanna er og hvaða hagnað þeir ætla að hafa, viðskiptabankarnir. Þetta er svona einfalt í öllum löndum, en hérna eru búin til þessi ósköp sem við búum við. Það eru að vísu örlitlar leifar af því að menn þykjast vera að stjórna einhverju peningamagni í umferð, jafnvel í Bandaríkjunum, en það hefur auðvitað ekki nokkur minnstu áhrif, enda eru peningar varla til orðið í umferð. Þetta er allt komið í tölvur og fjarskipti og menn hafa plastpeninga til að fara í strætó en kaupa síðan með eintómum kortum. Það getur enginn mælt peningamagn í þessum stóru ríkjum og þar að auki fara öll alþjóðaviðskiptin núna eftir fjölmiðlaleiðum.

Hv. þm. Stefán Valgeirsson vék einnig að því hverjir ættu að vera í þessari nefnd. Ég gleymdi því satt að segja í framsöguræðunni að ég ætlaði einmitt að leggja það til að sú nefnd sem fær væntanlega þessa þáltill. til meðferðar athugaði rækilega hvernig ætti að tilnefna í nefndina, jafnvel einstaklinga, en alla vega hverjir skyldu gera það þó að forminu til mundi ríkisstjórnin svo skipa nefndina. Ég er innilega sammála þessu og að þessu kom reyndar hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson líka og þarf ég ekki að hafa um það fleiri orð.

Hv. þm. Steingrímur Sigfússon gat um að það ætti að gjalda varhug við því að við legðum niður okkar mynt eða tengdumst svo föstum böndum við einhverja erlenda mynt. Ég er auðvitað alveg sammála honum um það. Það sem meira er: Ef við ætlum að halda okkar mynt væri skemmtilegra, og ég hef vikið að því oftar en einu sinni áður og gerði það þegar peningaskipti voru hér, að taka upp íslenskt heiti á myntinni, vera ekki með kórónu. Við erum ekki konungsríki og höfum ekkert við kórónur að gera. Við eigum að kalla þetta auðvitað eyri og mörk eða merkur og aura þegar þar að kemur. Þegar krónan er orðin svo lítil að það þarf hvort sem er að fara að skipta, þá gerum við það.

Öll umræða um peningamálin er með þeim hætti, sem menn hafa fylgst með úti í hinum stóra heimi, að menn eru að spá fyrir um gengi, eru að spá fyrir um hvað muni gerast ef seðlabankar kaupa þessa mynt en ekki hina. Oftast hefur þetta sáralítil áhrif. Þetta er komið svo mikið í alþjóðatölvukerfi, eins og ég vék að áðan, að menn hafa takmarkaða stjórn á þessu. En engu að síður verðum við að fylgjast með því sem er að gerast og einmitt að ræða það og setja fram sjónarmið þó maður viti kannski ekki hvort þau eru endilega rétt, en til þess þó að gera sjálfum sér betri grein fyrir hlutunum. Það er það sem gerst hefur í þessari umræðu mér til mikillar ánægju að allir hafa rætt þetta málefnalega.

Aftur á móti með erlent fé og erlenda banka sem þm. vék að. Ég er ekki svo óskaplega hræddur við erlent fé ef það er vel notað. Þetta kallaði nú Einar Benediktsson, ekki ómerkari maður, á sínum tíma starfsfé fyrir Íslendinga. Það var auðvitað erlent fé. Hann var að reyna að safna því erlendis. (AG: Hann dó blankur.) Hann var ekki að safna bara fé fyrir sjálfan sig. Hann var að safna fé fyrir Íslendinga. Og við getum tekið Íslandsbanka. Hann fór að vísu á hausinn. Hann var erlendur banki. Ég held að við höfum grætt á honum. Hann lagði mikið fé í mörg merkileg verkefni. Togaraflotinn okkar, togarabyltingin var auðvitað öll fyrir erlent fé. Við áttum enga peninga þá. Ef féð er nógu vel notað er ekkert úr vegi að taka erlent fé og jafnvel hafa stofnanir hér innan lands. Ef menn ætla að halda sig við það að neita að gefa út íslenska peninga, hvað gerum við þá? Þá förum við á erlendan markað og svo gerum við það sem auðvitað allir gera eru með tóma víxla sem ganga manna á meðal. Í Írlandi var þriggja mánaða bankaverkfall einu sinni. Það gerðist ekki neitt. Fólkið gaf út sína eigin peninga. Og ef allir gefa út peninga þyrftum við ekkert að vera að hafa neinn seðlabanka eða ríkisstjórn.

En mergurinn málsins er sá að fólkið þarf að ráða yfir fjármununum. Ég gleðst yfir því að ríkið tekur skuldabréfalán. Þá er nefnilega ekki verið að ganga á lánamarkaðinn heldur eykst fé í umferð af því að skuldabréfin eru peningar í umferð. Ríkið gefur út peninga með þeim hætti. Síðan á ríkið að losa sig við eignir. T.d. dettur mér í hug að Jónas Haralz gat þess einhvern tíma fyrir meira en áratug að eðlilegast væri að gera Landsbankann að almenningshlutafélagi. Það væri sterkasti bankinn og ætti að vera þjóðbanki. Það væri mjög þægilegt að gera það, t.d. að senda öllum fjárráða mönnum eða hverju einasta mannsbarni eitt lítið hlutabréf með rétti til að kaupa 5 eða 10 og að bankinn yrði þar með almenningseign. Þar getum við skapað peninga líka. Fólkið á þá hlutabréfin í bankanum og notar þau til að versla í nógu smáum einingum til að fara með f búðir. Það er hægt að búa til peninga með öllum mögulegum hætti.

Að því er varðar Evrópubandalagið, sem ræðumaður einnig gat um, þá hefur t.d. Sjálfstfl. ályktað um það einróma á fundi á Selfossi í haust að það sé ekki á dagskrá. Ég hef engan þm. heyrt mæla með því að við gengjum í Evrópubandalagið. Ég vona að hann sé ekki til.

Þá er það hæstv. viðskrh. Ég þakka honum fyrir hans ágætu ræðu. Ég er ekkert á móti aga, en ég vil helst að það sé sjálfsagi. Ég vil nefnilega að fólkið í landinu fái að ráða sér en ekki stofnanirnar, t.d. eins og Seðlabankinn, Þjóðhagsstofnun og aðrar stofnanir. En það er sjálfsagt að hafa ráðgjafarstofnanir, en sjálfsaginn er bestur og frelsið. Til þess að það sé hægt að hafa sjálfsaga verða menn að hafa frelsi. Ef menn skipa fyrir um alla hluti þarf maður engan aga hjá sjálfum sér. Ég hef haldið því fram að allt megi skammta frekar en peninga. Þá verði óréttlætið algjört ef peningar eru skammtaðir. Þá verða auðvitað þeir sem minnst mega sín undir. Þeir fá ekki gjafapeninga eins og þeir voru á einni tíð. Það eru þó vextir núna sem koma nokkuð jafnt niður á fólk, auðvitað allt of háir. En ég hef sagt að það mætti gjarnan skammta t.d. kaffi og sykur. Við getum alveg lifað á því þó við fengjum ekki neitt. Ef allir fengju jafnt og jafnvel þó að enginn fengi neitt, þá er það í lagi. En peninga má ekki skammta. Það verður óréttlæti úr því. Það getur ekkert annað orðið.

Það var spurt hvort við værum reiðbúnir til að binda okkur og þá sagði hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson að við værum búin að setja fast. Það má til sanns vegar færa. Tillagan er ekki hættulegri en svo að jafnvel þó hún væri framkvæmd og við byndum okkur eitthvað erlendri mynt mundum við væntanlega ekki gera það nema með lögum. Alþingi mundi væntanlega geta breytt þeim lögum ef allt væri komið á hausinn og getur breytt lögum sem eru um gengisskráningu núna. Auðvitað getur Alþingi strax á morgun ef því sýnist ákveðið nýja gengisskráningu. Það er ekki hægt að kenna einhverjum einstökum um það ef við erum sammála um að gengið sé fallið. Og sumir hafa, m.a.s. ráðherrar, á undanförnum vikum ýjað að því eða sagt berum orðum að gengið væri fallið. Ef við erum sammála um það getum við ákveðið gengið með einfaldri lagasetningu. Það er ekki verið að leysa lífsgátuna með þessari till. okkar. Við erum bara að vekja athygli á mögulegum leiðum og fá umræður í gang.

Þá man ég ekki eftir fleiru sem ég þyrfti beinlínis að svara og skal ekki vera að lengja þessa umræðu. Það er óþarfi.

Uppboðsmarkaðurinn sem hv. þm. Ólafur Þórðarson gat um er ekkert fjarstætt. Við höfðum uppboðsmarkað lengi á peningum. Það var bara svartur markaður. Gengið var kannski skráð þannig að dollarinn var á 16 kr. lengi og svarti markaður 30 eða eitthvað svoleiðis. Mönnum var ekki leyft að fá neinn gjaldeyri, kannski 10 eða 20 pund ef þeir fóru til útlanda. Hver einasti maður varð að ná sér í gjaldeyri af því að krónan seldist ekki erlendis eins og allir vita. Þar var uppboðsmarkaður. Ég held að við mundum ekki deyja þó að það yrði hreinn uppboðsmarkaður á öllum gjaldeyri, að útgerðarmennirnir seldu sinn gjaldeyri á því verði sem þeir gætu fengið hann á. Ég gæti haldið að það væri alveg eins gott ástand og er í dag ef það yrði gert. Ég hlæ ekkert að þeirri hugmynd þm., hvort sem hann hafði sett hana fram í gamni eða ekki. (ÓÞÞ: Nei.) Ég held ekki, svo að við getum skoðað það líka.

Ég endurtek þakkir fyrir þessa umræðu og legg til að till. verði vísað til allshn. að lokinni þessari umræðu.