11.02.1988
Sameinað þing: 47. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4513 í B-deild Alþingistíðinda. (3128)

227. mál, íslenskur gjaldmiðill

Dómsmálaráðherra (Jón Sigurðsson):

Hæstv. forseti. Örfá orð við lok þessarar umræðu. Ég held að hv. 2. þm. Vestf. hafi snert meginstreng í málinu þegar hann sagði að gengiskjörin væru okkur sköpuð á hverfanda hveli eins og svo margt í tilverunni. Það er alveg rétt. Og eins og hinir gömlu Grikkir sagði hann líka að allt flyti og væri erfitt að höndla það í andránni. En það er einmitt verkefni stjórnvalda, það er einmitt verkefni þingsins að skilgreina einhverja stefnu í þessum hverfulleik tilverunnar. Mér fannst næstum því felast í þessum orðum hv. 2. þm. Vestf. að menn ættu að gefast upp við það. Ég er ekki sammála honum um það og veit reyndar að hann meinar þetta ekki. Mér fannst hann í senn segja: Gengið er ekki rétt skráð, en gengistilhögunin sem við höfum er í sæmilegu lagi og engin ástæða til að ræða till. sem býr að baki þáltill. Þarna vildi ég líka beina því til hans og þeirra annarra þm. sem hér hafa talað að við verðum að reyna að halda aðgreindu, þótt erfitt sé, gengistilhöguninni og genginu sem er. Hvort gengið er rétt, hvort það er of hátt eða lágt, um það greinir menn jafnan á og hefur greint á um síðan 1920; þegar íslenska krónan fæddist og náttúrlega með gengisfalli því það var ekki fyrr að ekki reyndist unnt að halda gengi hennar jöfnu dönsku krónunni að hún varð til. Það gerðist hægt og sígandi en ekki með beinni ákvörðun, en þannig var nú samt upphafið. Þetta er ákaflega mikilvægt að menn geri sér ljóst og ég tel einmitt þáltill. þakkarverða fyrir það að hún beinist að því að kanna hvernig tilhögunin á gengisskráningunni og gengisákvörðuninni á að vera fremur en einblína á hvort gengið sé nú nákvæmlega það sem menn vildu hafa það. Þetta held ég að sé kjarnaatriði og full ástæða til þess að þingið ræði.

Það kom nú reyndar fram í máli hv. 2. þm. Vestf. og reyndar fleiri, m.a. hjá hv. 5. þm. Suðurl., að kannski væri best að gefa viðskiptin með gjaldmiðilinn frjáls, þ.e. að láta gengið ráðast á markaði að mestu eða öllu leyti því að þarna er enginn millivegur. Ég held að þetta sé till. sem sé mjög vel þess verð að hún sé rædd. En það er athyglisvert að það skiptir mjög í tvö horn með gengistilhögun í heiminum. Annars vegar eru 8 eða 9 ríki, þau eru áreiðanlega teljandi á fingrum sér, öflug iðnríki með þróaða fjármagnsmarkaði, þar sem eftirspurn er eftir gjaldmiðlinum utan þjóðlandanna vegna alheimsviðskipta. Gengi þessara gjaldmiðla ræðst af markaðsöflum á hverjum degi, flýtur eins og kallað er. Hins vegar eru af einhverjum ástæðum hin 150 ríkin eða svo sem binda gengi gjaldmiðla einhverri meginmynt eða einhvers konar meðaltali helstu mynta. Ef menn ekki treysta sér til að láta gengið fljóta, og ég tel fá rök mæla með því að íslenska krónan geri það, verða stjórnvöld, víðast hvar þjóðbankarnir, að koma í markaðs stað og freista þess að ákveða verð á erlendum gjaldeyri. Viðfangsefni gengisstefnunnar er því einfaldlega að ákvarða jafnvægisverð á gjaldeyrinum, að finna leiðir til að nálgast það og viðhalda því með sem minnstum skaðlegum áhrifum og með sem mestu gagni fyrir efnahagslífið í þjóðfélaginu.

Það er alveg rétt, sem kom fram hjá hv. 2. þm. Vestf., að ytri skilyrði þjóðarbúsins, hið efnahagslega umhverfi okkar, hefur orðið ótryggara, óstöðugra. Við verðum að reyna að skilja það, reyna að bregðast við því, finna okkur sjálfum stefnu í þessu ölduróti gengismarkaðanna. Ég vildi þess vegna enda á því að segja að mér fannst afstaða hans til þessa máls ekki mótast af þeirri skynsemi sem venjulega gætir auk skemmtilegheitanna í hans ræðuflutningi hér í þinginu.