11.02.1988
Sameinað þing: 47. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4530 í B-deild Alþingistíðinda. (3138)

257. mál, stefnumörkun í raforkumálum

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Þetta er eitt af þeim málum sem við höfum verið að stagast á á undanförnum mörgum árum, sem m.a. leiðir til þess að öll lífsaðstaða á landsbyggðinni, þar sem köldu svæðin eru, er allt önnur heldur en víðast hvar annars staðar. Það eru að vísu til hitaveitur sem eru dýrar, en þar hefur líka verið hlaupið undir bagga.

En nú geta þeir hv. þm., sem fylgja stjórnarflokkunum og hér hafa komið upp, hlaupið undir bagga með okkur hinum til þess að knýja stjórnvöld til aðgerða í þessu máli. Ég hygg að ef strjálbýlismennirnir yfirleitt og þeir sem á annað borð hafa réttlætistilfinningu, og sem betur fer eru það ýmsir hér á þessu svæði, stæðu saman mundi það duga til þess að knýja þetta mál og mörg önnur fram til réttlætisáttar. Það eru ekki mörg ár síðan að allir þáverandi formenn stjórnmálaflokkanna lýstu því hér yfir að þeir mundu vinna að því að minnka aðstöðumuninn í landinu. En þá var verið að breyta vægi atkvæða í þjóðfélaginu. Þá stóð ekki á loforðunum, en það hefur staðið á efndunum. Og nú skora ég á þm., það er ekki nóg að tala og segja: ég vil, ég vil, ef athafnir fylgja ekki orðunum.

Það var hringt í mig fyrir einum tveimur dögum. Það var ekki frá Hofsósi. Það var annar staður, því það eru víða svona staðir eins og hv. þm. Karvel Pálmason kom inn á, og viðmælandi minn tjáði mér að miðað við það húsnæði sem hann er í þá borgaði hann rúmlega fjórum sinnum meira en ég fyrir hitun á þeirri íbúð hér í Reykjavík sem er sambærileg að stærð. Og það er mín reynsla að norður í Hörgárdal verð ég að borga svipað, þ.e. fjórum sinnum meira, en sú íbúð er rafkynt.

Auðvitað getur komið fleira inn í þetta. Inn í þetta getur komið ástand húsanna, þ.e. hvernig einangrun er og þess háttar. En þegar maður fær víða svipaðar niðurstöður þá sjáum við hvernig við stöndum í þessum málum. Og svo eru menn hissa á því að unga fólkið, sem vill þó vera úti á landi, fari ekki að fjárfesta þar, þegar svona er búið að því. En, hæstv. iðnrh., það verður þröngt fyrir dyrum Reykvíkinga ef meginhlutinn af landsbyggðinni flytur hingað suður. Og það þarf að athuga þá hlið líka á þessu máli.