11.02.1988
Sameinað þing: 47. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4531 í B-deild Alþingistíðinda. (3139)

257. mál, stefnumörkun í raforkumálum

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Hér liggur fyrir tillaga um stefnumörkun í raforkumálum. Ég hygg að sú hugmynd sem þar kemur fram, að þetta verði leyst með því að kjósa nefnd með fulltrúa frá hverjum þingflokki, grípi ekki á kjarna þessa máls. Það slái málinu fyrst og fremst á frest þangað til í október. Og alvara þessa máls er meiri en svo að það sé hægt að slá því á frest svo lengi.

Mér er ljóst að ég sjálfur ber nokkra ábyrgð á því hvernig þróast hefur í orkumálum. Og það er mikil og löng saga að greina frá þeim mistökum sem orðið hafa í virkjunarmálum dreifbýlisins og leitt til þess að Landsvirkjun hefur fengið sjálfdæmi um verðlagningu á raforku til byggðanna úti á landi. Þar má minna á Laxárvirkjun, þar má minna á Kröflu og þar má minna á ákvörðun um það að Blanda skyldi færð til Landsvirkjunar. Og seinast þennan stórkostlega draum Jóhannesar Nordals: að Landsvirkjun skuli vera skuldlaus um næstu aldamót. Nú fer iðnrh. að skrifa. (Iðnrh.: Til að leiðrétta vitleysuna.) Um aldamót skal Landsvirkjun skuldlaus. Það er stefnan. Og það er glæfraleg stefna. Ég minni á það að ef það eru kostirnir sem á að bjóða landsbyggðinni þá er ég ekki í nokkrum vafa um það að hv. 4. þm. Vestf. var með betri hugmynd þegar hann vildi að menn færu að nýta surtarbrandinn og nota hann til upphitunar, heldur en að kaupa raforku af Landsvirkjun á því verði sem þeir eru að bjóða upp á. Kannski væri það það nærtækasta sem að köldu svæðin ættu að gera þar sem að byggð er þétt, þ.e. að koma upp hitaveitum og kynda þá með kolum og hætta að kaupa raforku á þessu verði því að munurinn á milli þess verðs sem verið er að bjóða raforkuna á og þess verðs sem er talið eðlilegt, svokallaður jaðarkostnaður, sá munur er orðinn svo mikill að hann nær engri átt.

Ekkert fyrirtæki á Íslandi hefur ætlað sér á jafnstuttum tíma að safna jafnmiklum auði og Landsvirkjun. Við höfum ekki boðið sjávarútvegi, iðnaði eða nokkrum öðrum upp á slíka möguleika. Það er óhemjuauður sem á að verða til á örstuttum tíma.

Norðlendingar minnast þess kannski, og m.a. sá sem hér talaði áðan, að það var ekki fyrr búið að afgreiða Laxárvirkjun inn til Landsvirkjunar en að menn fölnuðu norður í Eyjafirði yfir því að innstæðurnar, gróðinn af rekstri þessarar virkjunar sem var geymdur þar í Landsbankanum skyldi fluttur suður yfir heiðar. Að hann skyldi fluttur suður yfir heiðar. Því um leið og viðspyrnan var brotin niður úti á landi hækkuðu þeir verðið.

Ég segi það hér og nú: Það verður aldrei friður í þessari ríkisstjórn ef ekki fæst einhver ákvörðun um leiðréttingu á því orkuverði sem nú er verið að bjóða.