11.02.1988
Sameinað þing: 47. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4534 í B-deild Alþingistíðinda. (3141)

257. mál, stefnumörkun í raforkumálum

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Ég harma það að ég gat ekki verið viðstaddur þessa umræðu frá byrjun, en ég er einn af flm. þessa máls sem hér er til umræðu um stefnumörkun í raforkumálum.

Ég vil nefna það að ég reiknaði ekki með því að þingfundir hér almennt í Sþ. stæðu fram yfir kl. 14 og hafði því farið til fundar frá þeim tíma og frétti það fyrst seinna að hér stæðu yfir umræður lengur. Ég held að það sé þýðingarmikið fyrir þingið að átta sig á því með hvaða hætti staðið verður að fundahaldi, en mér hafði verið kynnt það að meiningin væri sú að almennt væru fundir á fimmtudögum ekki lengur en til kl. 14 þannig að menn gætu ráðstafað sér til annarra verka. En það er önnur saga.

Ég vil vegna þessarar umræðu sem hér stendur yfir, og ég hef aðeins heyrt hér í fyrsta flm. þessa máls, gera nokkrar athugasemdir og þá sérstaklega að því er snertir stefnu og störf núv. ríkisstjórnar í sambandi við raforkumálin og verðákvarðanir þar að lútandi. Ég vakti athygli á því við umræðu um fjárlög fyrir 1988 að þar væri af ríkisstjórnarinnar hálfu greinilega stefnt í vaxandi ójöfnuð frá því sem verið hefur og að gjaldskrár fyrir raforku til húshitunar stefndu mjög upp á við, jafnvel upp í 40%.

Hæstv. iðnrh. gerði sérstaka athugasemd við þetta á sínum tíma. Nú liggur það hins vegar fyrir að frá og með 1. des. sl. hækkuðu gjaldskrár fyrir húshitun með raforku um 34% og er þó haldið við það niðurgreiðslustig sem hafði verið, þ.e. 63 aura á kwst., en fjárlögin gera ekki ráð fyrir því að unnt sé að halda því stigi uppi. Jafnframt liggur það fyrir að verðmismunur til almennra nota, til ljósa og eldunar, hefur vaxið milli þéttbýlissvæðisins hér og gjaldskrársvæða Rafmagnsveitna ríkisins og Orkubús Vestfjarða þannig að munurinn á taxta A-1 er nú u.þ.b. 36% miðað við 4000 kwst. notkun á ári. Ég var að fletta upp í þessari gráu bók hér sem heitir „Stefnuyfirlýsing og starfsáætlun ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar“ og það þarf að leita lengi þangað til maður finnur eitthvað sem snertir raforkumál og verðlag á raforku í landinu. Þó stendur þar á bls. 7:

„Skipulag orkumála verði endurskoðað, þar með hlutverk Orkustofnunar og Orkusjóðs.“

Ég veit ekki hvort hæstv. ráðherra hefur gert grein fyrir því hér í umræðunni, en ég geri frekar ráð fyrir því að hann hafi gert grein fyrir því hvaða hugmyndir hann hefur í sambandi við skipulag orkumálanna í landinu sem hér er flutt þáltill. um af Alþb. Ég tel að hér sé verið að taka á einu brýnasta máli sem varðar aðstöðu landsmanna, búsetuskilyrði, þ.e. orkumálin.

Á þeim tíma sem ég hafði áhrif á þessi efni 1978–1983 voru stigin ákveðin skref til þess að jafna þann mismun sem verið hafði á raforkuverði í landinu. Þegar komið var að þeim málum 1978 var mismunurinn á almennum taxta raforku u.þ.b. 90%. Það tókst með sameiginlegu átaki og ákvörðunum sem teknar voru hér á Alþingi að færa þann mismun niður undir 20% hvað snerti almennan taxta raforku í landinu. Þetta tókst m.a. vegna þess að alþm. lögðust á árar sameiginlega, að meiri hluta til, að hækka verðjöfnunargjald á raforku í landinu frá 16% upp í 19%. Síðan gerðist það í tíð fyrrv. ríkisstjórnar að þetta verðjöfnunargjald á raforku var afnumið með samkomulagi í tengslum við kjarasamninga og það voru gefin ákveðin fyrirheit af stjórnvöldum um að það leiddi ekki til aukinnar mismununar á raforkuverði í landinu. Við þessi fyrirheit hefur ekki verið staðið. Þessi fyrirheit voru svikin og þess vegna er staða Rafmagnsveitna ríkisins sú sem við þekkjum að hér við afgreiðslu fjárlaga var dæmi Rafmagnsveitna ríkisins afgreitt með 400 millj. kr. halla og þrátt fyrir það skrifað upp á þær verðhækkanir og gjaldskrárbreytingar sem leiða til aukinnar mismununar á raforkuverði.

Ég hygg að hér við umræðuna hafi verið rifjað upp að árið 1980 hafi verið leitast við að gera átak til þess að jafna þann mun sem var á verði orku í landinu á þeim tíma. Ég átti þátt í þeim ákvörðunum sem þá voru teknar og þær lutu að því að taka ákveðinn hluta af söluskatti til þess að jafna verðmun á orku í landinu, bæði að því er snerti hitaveitur í landinu og að því er snerti almennt verð til húshitunar. Það var öllum alþm. ljóst þegar þessi ákvörðun var tekin að það 1,5%, sem var kallað verðjöfnunargjald eða orkujöfnunargjald á þeim tíma, var ekki sérmerkt til þess að þjóna þeim tilgangi sem heitið á þessum gjaldalið gaf tilefni til. Það vissu allir sem að þeirri ákvörðun stóðu. Því miður varð þetta að ráði. Ég hafði barist fyrir því í ríkisstjórn á þeim tíma að tekið yrði upp sérstakt orkujöfnunargjald sem legðist á selda orku í landinu, hitaveitur og raforku í þessu skyni. Það varð ekki niðurstaðan í þeirri ríkisstjórn, því miður, og innleidd var þar sú hækkun á söluskatti sem bar nafnið orkujöfnunargjald.

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa mörg orð til viðbótar, en nefni það að hæstv. forseti Sþ. átti sæti í stjórnskipaðri nefnd á þessum tíma til að bregðast við þeim mikla mun sem þá var og vaxandi í sambandi við orkuverð í landinu vegna þess sérstaklega að stóriðjan á þeim tíma bar sílækkandi heildarkostnað af raforkuverði í landinu. Við stóðum saman að því, núv. forseti Sþ. og fleiri ágætir alþm. sem voru þá í stjórnskipaðri nefnd, að leita leiða til að jafna þennan mun og sú stefnumörkun lá fyrir haustið 1982. Þá var tekin upp niðurgreiðsla á raforku til húshitunar. Sú niðurgreiðsla er enn í dag en henni hefur ekki verið viðhaldið í því hlutfalli sem þá var lagt upp með. Hún hefur farið sílækkandi sem hluti af húshitunarkostnaði í landinu og það er mjög miður.

Ég tel að það mál sem hér er flutt sé liður í því að endurskoða þessi efni, endurskoða það óréttlæti sem við búum við í þessum efnum. En það virðist sem núv. ríkisstjórn sofi algjörlega á verðinum í þessum málum, hún hafi ekki áhuga á því að taka á þessum málum og hún ætli að láta markaðinn, eins og á fleiri sviðum, stjórna þessu, hún ætli að láta dreifbýlið standa undir vaxandi kostnaði við orkudreifingu og standa fyrir því að landsmenn búi í þessum undirstöðuþætti við vaxandi óréttlæti.

Ég vænti þess að hæstv. iðnrh. segi eitthvað um sinn hug ef hann er annar en ég hef lagt hér út af.