11.02.1988
Sameinað þing: 47. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4536 í B-deild Alþingistíðinda. (3142)

257. mál, stefnumörkun í raforkumálum

Iðnaðarráðherra (Friðrik Sophusson):

Herra forseti. Ég efast um að mér vinnist tími hér í stuttum ræðutíma að gera öllu því skil sem fram hefur komið í þessum umræðum og verða þm. að virða mér það til vorkunnar, enda gefst eflaust tækifæri til þess síðar að ræða þessi mál í einstökum atriðum. Ég vil þó freista þess að nefna nokkur atriði sem hafa komið fram í þessum ágætu umræðum.

Í fyrsta lagi vil ég taka það fram að þeim starfshópi sem hefur starfað á vegum iðnrn. og nokkurra stofnana er ekki ætlað að móta stefnu heldur að leggja grundvöll fyrst og fremst með reiknilíkani að því að hægt sé að breyta um skipulag í raforkugeiranum og koma þá ýmsar leiðir til greina sem ég hef fyrr nefnt hér í umræðunni í dag, en ein þeirra er nefnd í grg. með þessari þáltill. Það er ekki verk embættismanna að móta þessa stefnu, en þeir verða og hafa unnið að því að samræma útreikninga og bókhald til þess að hægt sé að bera saman orkuverð í landinu, en það er afskaplega erfitt eins og flestallir hv. þm. vita.

Varðandi Hofsós vil ég segja þetta: Reikningar, sem sendir voru út, voru sendir út fyrir 73 daga en það er stefna Rafmagnsveitna ríkisins að orkureikningar séu fyrir síðustu 60 daga en ekki 73 daga og það skýrir á vissan hátt hvers vegna reikningarnir voru heldur hærri en ella hefði orðið. Á móti þessu hafa Rafmagnsveiturnar hins vegar lengt gjaldfrestinn þannig að það á að greiða þennan reikning fyrir 2. mars en ekki eins snemma og ella hefði verið.

Varðandi húshitunarkostnaðartölur, sem þar hafa komið fram, eru þær að mínu mati furðulega háar þegar þess er gætt að það eru til allgóðar upplýsingar í landinu um það hve margar kwst. fara í að hita upp meðalhúsnæði og einmitt í fskj. með þessari till. er bent á að meðaleyðslan er 33 þús. kwst. og þá er miðað við 400 m3 íbúð eða u.þ.b. 150 m2 íbúð. Og ef menn lesa nú það sem fram kemur á bls. 4 í þáltill., þá kemur þar fram að meðalkostnaður á mánuði — og þá eru teknir allir mánuðir ársins, jafnt þeir heitu sem þeir köldu — er u.þ.b. 5000 kr. miðað við verðlagið núna. Þetta þýðir að það eru um 60 þús. kr. á ári sem það kostar að kynda upp hús með rafmagni á svæðum RARIK.

Þess vegna er dálítið misvísandi að tala um upphæðina sem kemur fram á reikningi núna og þá vil ég skýra það sem ekki hefur komið fram í þessum umræðum og það er að í Reykjavík og á ýmsum hitaveitusvæðum er aðeins lesið á mælinn einu sinni á ári og síðan er þessu dreift yfir allt árið þannig að Reykvíkingar borga jafnmikið á sumri sem á vetri. Annars staðar er lesið oftar og þegar það gerist hljóta vetrarmánuðirnir að vera dýrari en sumarmánuðirnir og það skýrir auðvitað hluta af þessu dæmi sem hér er verið að nefna.

Mér er jafnframt kunnugt um það að sveitarstjórinn á Hofsósi hefur haft samband við þann aðila á Blönduósi sem fjallar um þessi mál og sér um innheimtuna og þar standa yfir umræður um það hvort hægt er eitthvað að gera í málum þeirra sem þar eru sem ég held að séu þó ekki öðruvísi en víðast hvar er á landinu þegar orkuverð hefur hækkað jafnmikið og það gerði 1. des. en ekki 1. jan. eins og einhver sagði. En þá verður enn að taka með í reikninginn að sú hækkun er miðuð við það að haldast út árið að óbreyttum aðstæðum en þó miðað við 25% verðbólgu frá áramótum til áramóta.

Þegar skoðuð er sú tafla sem kemur hér fram og er birt á bls. 4, þá kemur líka í ljós að orkuverðið í dag til húshitunar er lægra en það var þegar hv. síðasti ræðumaður var iðnrh. og ekki nóg með að það sé lægra miðað við byggingarvísitölu heldur hefur það gerst síðan að launavísitalan hefur hækkað meira en byggingarvísitalan þannig að það er rangt sem verið er að reyna að halda fram, að orkuverð hafi farið upp úr öllu valdi miðað við annað verðlag í landinu. Það sem er hins vegar rétt er það að hitaveiturnar eru ódýrar og halda áfram að vera ódýrar á mörgum svæðum og olían hefur lækkað stórkostlega á undanförnum árum. Það er sannleikurinn í þessu máli.

Ég vil líka nefna það, af því að það lýtur að samanburði við Sauðárkrók, að Sauðárkrókur er með hitaveitu sem er ein sú alhagstæðasta í landinu og verð á orku frá Hitaveitu Sauðárkróks er lægra en í Reykjavík. Það er lægra en í Reykjavík.

Hv. 3. þm. Vestf. ræddi um húshitunarkostnað þar og ef þetta er rétt sem hann segir, þá er eitthvað að því húsnæði sem hann er að tala um, annaðhvort opnir gluggar eða illa einangrað eða eitthvað þess háttar, nema þetta sé einhver höll sem hann er að miða við, því ef þetta eru réttar tölur, sem ég efast ekkert um, og þetta eru meðaltölur yfir árið, ef það er rétt, þá er það u.þ.b. helmingi meiri eyðsla en meðalhúsnæðið eða 150 m2 húsnæði segir til um. Um það get ég ekkert sagt. Ég hef ekki séð þennan reikning og ekki heldur skoðað það húsnæði sem um er að ræða og hef ég þó séð mörg hús og kynnst á Vestfjörðum.

Varðandi orkujöfnunargjaldið ætla ég að taka það fram að þegar það var fellt niður var gert ráð fyrir því að fyrirtækin Orkubú Vestfjarða og Rafmagnsveitur ríkisins stæðu rekstrarlega nánast jafnt eftir sem áður. Það var ekkert minnst á orkuverðið í sjálfu sér í því sambandi. Um þetta er deilt, ég hef farið í gegnum það hér og þarf ekki að endurtaka það sem ég sagði, en það er þó ljóst, að ríkisvaldið yfirtók verulegar skuldir af raforkugeiranum um leið og orkujöfnunargjaldið var lagt af. Það skiptir milljörðum kr. þannig að ég þarf ekki að rifja upp Kröflu og fleira í þeim dúr.

Ég veit ekki, herra forseti, hvort hér gefst tækifæri til að ræða mörg fleiri mál. Þó vil ég minnast á það að hv. 2. þm. Vestf. minntist á Landsvirkjun og hélt því fram að gert væri ráð fyrir því að Landsvirkjun yrði skuldlaus um aldamót. Þessu hefur hæstv. utanrrh. líka haldið fram, en þetta er rangt. Hið rétta er, og hefur komið fram í svari Landsvirkjunar, að miðað við útreikninga Landsvirkjunar og verðákvörðun þeirra munu þeir skulda u.þ.b. 70% af núverandi skuldum um næstu aldamót. Ég hygg að menn verði að hafa það sem er satt í þessum málum jafnvel þótt það hafi verið stefna Landsvirkjunar að reyna að greiða niður skuldir af ákveðnum fjárfestingum á 20 árum. En það er það sem hv. þm. hefur eflaust haft í huga þegar hann ákvað það hvað Landsvirkjun hefði í huga en komst að rangri niðurstöðu.

Ég ætla ekki að hafa mörg orð um það sem hv. síðasti ræðumaður sagði. Hann hafði auðheyrilega ekki fylgst með þessum umræðum, enda sagði hann það sjálfur að hann hefði ekki búist við fundi á þessum tíma. Hann hélt því fram í umræðum um fjárlög að það að dregið yrði úr niðurgreiðslum leiddi til, eins og það er orðað, ég er með það hérna: að ef sú upphæð til niðurgreiðslu á rafhitun sem stendur í fjárlagafrv., 200 millj. kr., verði óbreytt muni það að mati Rafmagnsveitna ríkisins leiða til 40% hækkunar á rafhitunarkostnaði. Þetta sagði hann og endurtók síðan aftur. Þetta leiðrétti RARIK, en hv. þm. hafði ekki tíma til að lesa þá leiðréttingu svo að hann var leiðréttur hérna í umræðunum því að þetta er rangt. Þessi niðurfærsla á niðurgreiðslunum leiðir ekki til 40% rafhitunar. Það veit hv. þm.

Ég held, herra forseti, að þessar umræður hafi út af fyrir sig verið ágætar. Það er mín ætlan að halda því starfi áfram sem nú er hafið. Annars vegar það sem snýr að því að endurskipuleggja raforkudreifinguna, raforkukerfið. Það getur tekið einhvern tíma og í því starfi er ekki enn farið að taka ákvarðanir um það hvort einhver jöfnun eigi að eiga sér stað, eins og t.d. gerðist þegar Orkubú Vestfjarða var sett á laggirnar, en þar er orkuverð jafnað. Hitt sem unnið er að í ráðuneytinu er að taka upp viðræður, sem ekki eru hafnar, því miður, við fjmrn. um það hvernig eigi að bregðast við þeim vanda sem Rafmagnsveitur ríkisins og Orkubú Vestfjarða standa frammi fyrir vegna þess að að bestu manna yfirsýn, og vitna ég þá til hv. þm. Kjartans Jóhannssonar, virðist vanta verulegar upphæðir upp á það að þessi fyrirtæki standi rekstrarlega með svipuðum hætti og þau stóðu fyrir daga afnáms verðjöfnunargjaldsins. En eitt vil ég láta verða alveg skýrt og það þarf að koma fram. Menn skulu lesa það sem kemur fram á bls. 4 einmitt í þessari þáltill. og átta sig á því hvort verðið á orkunni hefur hækkað verulega miðað við aðrar verðhækkanir í landinu því að það er alveg rétt sem kemur fram þar í fskj. með þessari þáltill. Þá geta menn séð svart á hvítu hvort þetta verð hefur farið lækkandi eða hækkandi.