11.02.1988
Sameinað þing: 47. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4541 í B-deild Alþingistíðinda. (3145)

257. mál, stefnumörkun í raforkumálum

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Ég held að það væri hollt fyrir hæstv. iðnrh. að líta út um gluggann til þeirra landshluta sem búa við allt annað ástand í orkumálum en fólk hér í Reykjavík sem sem betur fer býr við þolanleg kjör í þessum efnum. Hæstv. ráðherra er að senda mér einhvern reikning í sambandi við kostnað við orkuverð, útgjöld vegna orku á árunum 1980–1983. Á þessum árum stóð deilan um það, og var hér inni í sölum Alþingis líka, að leiðrétta hlutaskiptin í sambandi við orkukaup í landinu, annars vegar þann auðhring sem fékk orkuna á gjafverði, á útsöluverði, og sem Sjálfstfl. í minni hl., sá hluti hans sem var í stjórnarandstöðu á þessum árum, hélt uppi opnum vörnum fyrir hér á Alþingi gegn stjórnvöldum sem vildu leiðrétta þennan reikning.

Ég er alveg til umræðu um það að bera saman stöðuna þá og nú, virðulegur forseti, í sambandi við orkukostnað og hvernig staðan var til að leiðrétta þann mismun sem þá var, þann mismun sem núv. ríkisstjórn virðist ekki einu sinni hafa vilja til að horfa framan í, hvað þá að standa fyrir aðgerðum sem geta leitt til einhverra varanlegra úrbóta.

Ég bið hæstv. ráðherra um að opna gluggann og líta til annarra landshluta í sambandi við þá reikninga sem þar liggja á borðum, ekki aðeins hjá mér, heldur hjá þúsundum og tugþúsundum manna sem hann ætti að telja sig í forsvari fyrir og ég vænti þess að hæstv. ráðherra geri það af fulli sanngirni. Til þess er þetta mál flutt, sem hér er, að menn leiti úrlausna í þeim efnum.