15.02.1988
Sameinað þing: 48. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4565 í B-deild Alþingistíðinda. (3160)

16. mál, kostnaður við byggingu Flugstöðvar Leifs Eiríksson

Júlíus Sólnes:

Herra forseti. Mig langar til að taka sérstaklega fyrir og fjalla lítillega um einn þátt þessa máls, þ.e. þann lærdóm sem við getum dregið af undirbúningi framkvæmda flugstöðvarbyggingarinnar. Ég kom ekki í flugstöðvarbygginguna nýju fyrr en síðla árs 1987, stóð þannig á að ég átti ekkert erindi til útlanda fyrr en löngu eftir að flugstöðin hafði verið tekin í notkun. Ég var þá búinn að lesa margt um hana í blöðunum og sérstaklega var áberandi hvað allir voru eða a.m.k. virtust vera sammála um það að hér væri hið glæsilegasta mannvirki. Áttu menn varla nógu sterk orð til að lýsa því yfir hvað þetta væri allt stórkostlegt.

Þegar ég nálgaðist bygginguna var ég sammála því að þarna var að því er virtist mjög fallegt hús og í alla staði mjög glæsilegt á að líta, en glansinn fór fljótlega af þegar komið var inn fyrir dyr þarna. Ég hef haft töluverða reynslu af byggingu húsa og er mjög kunnugur öllum þáttum húsbygginga og það fór því ekki á milli mála að ég var fljótur að sjá að þetta var ákaflega illa hannað mannvirki þegar inn var komið. Burðarvirki eru alveg fáránleg í þessu mannvirki, skipulag hæðarinnar þar sem farþegar bíða eftir að ganga út í flugvélarnar er ákaflega illa leyst að mínum dómi þannig að það er illa nýtt pláss þarna. Verð ég að segja eins og er sem fagmaður að mér finnst við fá ansi lítið fyrir þessa miklu fjármuni sem þarna hafa farið.

Auðvitað má alltaf um það deila hvað er gott og hvað er vont og menn eru aldrei sammála um slíkt, þannig að ég verð að standa hér ábyrgur fyrir þessum ummælum sjálfur. Ég get ekki mælt fyrir munn fleiri en fyrir mig sjálfan hér. En þetta leiðir hugann að því hvernig undirbúningi framkvæmda er hagað og hvernig hönnun bygginga yfirleitt fer fram á Íslandi.

Það er alveg ljóst að sá þáttur mála er í miklum ólestri hér. Nægir að minna á mikla umræðu sem fór fram sl. vor þegar fjallað var um stöðugleika íslenskra bygginga gagnvart jarðskjálftaálagi. Það var gengið svo langt að halda því fram að mjög mörg hús hér á Reykjavíkursvæðinu þyldu alls ekki það jarðskjálftaálag sem þeim bæri samkvæmt gildandi lögum og reglugerðum. Þróun mála undanfarin ár sýnir að hönnun mannvirkja er miklum mun lakari hér á Íslandi en gerist t.d. meðal nágrannaþjóða okkar. Sérstaklega er eftirlit með hönnuninni sjálfri og með byggingarframkvæmdum mjög slæmt þannig að það er mesta furða að það skuli ekki hreinlega hafa hrunið hér hús, einkum ef hugað er að þeim þætti sem eru burðarvirki sem slík.

Allir þekkja vandamal sem kom upp í sambandi við loftræstikerfi, en það er eiginleiki þeirra kerfa að vera bilaður. Það má segja að loftræstikerfi sem er í lagi sé undantekningarástand og vari sjaldnast mjög lengi.

Ég minnist þess einu sinni er ég dvaldist í Þýskalandi um nokkurt skeið að ég fór í ferð með eftirlitsverkfræðingi fyrirtækis sem hafði með höndum eftirlit með byggingarframkvæmdum. Þar er málum þannig háttað að opinberir aðilar annast ekki eftirlit með byggingarframkvæmdum né hönnuninni sem slíkri einfaldlega vegna þess að þar gera menn sér grein fyrir því að opinberir aðilar hafa ekki mannskap eða getu til þess að sinna þessum þætti mála. Þess vegna er málum þar þannig háttað að starfandi eru þar sérstök fyrirtæki sem taka þennan eftirlitsþátt að sér, fara yfir allar hönnunarforsendur og útreikninga og ganga úr skugga um það að bæði burðarvirki og lagnakerfi sé hannað eins og vera ber.

Í þessu tilviki sem ég ætlaði að fara að segja frá var um að ræða brúarmannvirki sem var í smíðum á vegum eins þýska ríkisins, þ.e. Baden Würtenberg. Þetta var stór vegbrú og átti að fara að steypa gólfið í brúnni. Þegar við komum þarna á staðinn var búið að ganga frá öllum járnbindingum og járnalögn, steypubílarnir voru komnir á staðinn og það var bara beðið eftir því að þetta væri tekið út. Síðan átti að hefja steypuna. Eftirlitsmaðurinn komst að því að járn höfðu verið lögð vitlaust þannig að það nam líklega svo sem eins og 1–2 cm sem þau voru á röngum stað í steypunni. Hann var ekkert að ræða það frekar, hann stoppaði allar framkvæmdir og sagði að hér yrði ekkert steypt fyrr en búið væri að laga þetta. á Íslandi hefði verið samið um það að þetta gerði nú ekkert svo mikið til og úr því að bílarnir væru komnir á staðinn þá væri sjálfsagt að steypa. Það væri ekkert vit í því að fara að afturkalla steypuna og svo biði allur mannskapurinn þarna. En mér er þetta mjög minnisstætt vegna þess að það kom mér svo spánskt fyrir sjónir að þetta skyldi gert. Þarna var um gífurlega mikið mannvirki að ræða og þessar tafir kostuðu án efa alveg mikla fjármuni. Verktakinn á staðnum tók þessu ákaflega létt og bauð okkur í ágætis hádegisverð og sagði að það eina sem hann gæti gert væri að reka verkstjóra járnabindingaflokksins - sem hann sagðist svo síðar mundu gera.

En ég vildi sérstaklega vekja athygli á þessum þætti vegna þess að mér finnst einmitt að bygging flugstöðvarinnar hafi liðið fyrir það að undirbúningur og hönnun byggingarinnar hafi alls ekki verið með þeim hætti sem hefði þurft að vera. Það er augljóst að þessi bygging er á mörgum sviðum mjög illa hönnuð. Sérstaklega er áberandi að sjá fáránlegt burðarvirki byggingarinnar, en ég veit ekki hvaða tilgangi það eiginlega þjónar. Það þjónar ekki þeim tilgangi að bera uppi þak byggingarinnar, því það er greinilega eitthvað annað sem hefur vakað þar fyrir.

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar um einmitt þennan þátt mála, svo ég taki bara eitt lítið dæmi, er talað um gífurlegar járnabindingar og styrkingar sem voru því samfara að það var bætt við skriðkjallara undir húsið. Var þá talið að það þyrfti að auka járnamagn og steypumagn vegna jarðskálftaþols, sem þá þyrfti að reikna meira en ella. Mér er spurn: Liggja nokkur rök fyrir því að þetta hafi verið nauðsynlegt? Ég sem sérfræðingur á þessu sviði get ekki séð neitt sem réttlætir það að það hafi þurft að eyða einu kg eða einum kúbikmetra af steypu til viðbótar þó svo að þessum skriðkjallara hafi verið bætt við. Ef þetta er dæmi um það hvernig hönnunin öll hefur verið, þá er ekki nema von að þetta mannvirki hafi orðið svona dýrt.

Mér er tjáð af þeim sem komu þarna nálægt að það hafi verið hent fleiri tugum ef ekki hundruðum teikninga þar sem búið var að fullhanna loftræstikerfið fyrir allt húsið, þegar það svo kom í ljós að þessi hönnun gagnaði ekki, hún dugði ekki og það þurfti að endurskoða hana alveg frá grunni. Þannig að það er ekki nema von að þetta hafi kostað mikla peninga.

Ég ætla ekki að fara að ásaka hér einn eða neinn. Þetta er því miður svona hjá okkur og það sem við gætum best gert með þessari umræðu er að reyna að draga þann lærdóm sem við getum af þessari framkvæmd og athuga hvort við getum ekki komið því til leiðar að þessi mál verði færð til betri vegar í framtíðinni. Ég held að við þurfum að taka okkur tak og jafnvel breyta löggjöf ef með þarf til þess að gera undirbúning framkvæmda og hönnun þeirra miklu betri. Leggja miklu, miklu meiri ábyrgð á herðar þeim sem annast slíka hönnun og draga þá líka til ábyrgðar ef illa fer.

Erlendis er hönnuður, sem stendur að hönnun mannvirkis eins og flugstöðvarbyggingarinnar, gerður ábyrgur fyrir öllum þeim mistökum sem honum kunna á að verða, enda er það algengt að ráðgjafarfyrirtæki sem vinna slík verkefni erlendis þurfi að kaupa miklar og dýrar tryggingar til þess einmitt að geta greitt skaðabætur ef til kemur. Ef einhver mistök verða vegna rangrar hönnunar er hönnuðurinn dreginn til ábyrgðar og hann verður hreinlega að borga þann kostnað sem af því hlýst að hönnunin var ekki sem skyldi.

Hér er enginn ábyrgur. Þannig hefur það alla tíð verið svo lengi sem ég man eftir, frá því að ég fór að skipta mér af húsbyggingum á Íslandi, að það er yfirleitt enginn ábyrgur. Húsbyggjandinn situr bara uppi með tjónið og skaðann, vont hús. Hann getur reynt að leita á hönnuðinn, hann getur reynt að leita á byggingameistarana, hann getur reynt að leita á opinbera aðila sem áttu að taka út framkvæmdina og lýsa því þar með yfir að hún væri í samræmi við öll lög og allar reglugerðir. Það er yfirleitt enginn sem ber nokkurn tíma ábyrgð þannig að það er alltaf að lokum eigandinn sem situr uppi með allt tjónið.

Þess vegna óska ég þess að það yrði fyrst og fremst niðurstaðan eftir þessa umræðu að við tækjum okkur tak og reyndum að kippa í liðinn, bæta úr þar sem aflaga fer og reyna með bættri löggjöf að styrkja undirbúning allra framkvæmda og koma því til leiðar að hönnun þeirra verði miklu fullkomnari og betri en verið hefur.