15.02.1988
Sameinað þing: 48. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4576 í B-deild Alþingistíðinda. (3164)

Reglur LÍN um barnsmeðlög

Kristín Einarsdóttir:

Herra forseti. Sl. haust var úthlutunarreglum Lánasjóðs ísl. námsmanna breytt á þann veg að barnsmeðlag til einstæðra foreldra, eða í flestum tilvikum einstæðra mæðra, var talið námsmanni til tekna. Fulltrúar námsmanna í stjórn Lánasjóðsins mótmæltu þessu ákvæði í reglunum á sínum tíma en ekki var tekið tillit til mótmæla þeirra.

Skv. 23. gr. barnalaga nr. 9 frá 1981 tilheyrir barnsmeðlag barni sjálfu en ekki foreldri og ætti því ekki að vera talið til tekna þess. Stúdentaráð Háskóla Íslands fór þess á leit við Lagastofnun Háskólans að hún segði álit sitt á því hvort það sé eðlilegt og í samræmi við ákvæði íslenskra réttarreglna að telja meðlög greidd með barni einstæðs foreldris með tekjum foreldris við afgreiðslu lánaumsókna hjá Lánasjóði ísl. námsmanna.

Þann 30. nóv. skilaði Lagastofnun álitsgerð sem er undirrituð af þeim Sigurði Líndal og Þorgeiri Örlygssyni. Í lok álitsgerðarinnar stendur, með leyfi forseta:

„Samkvæmt þessu teljum við að stjórn Lánasjóðs ísl. námsmanna skorti að óbreyttum lögum heimild til þess að setja slíkt skerðingarákvæði í úthlutunarreglur sjóðsins.“

Þann 21. des. sl. ritaði menntmrh. stjórn Lánasjóðsins bréf þar sem hann mælist eindregið til þess að við næstu endurskoðun úthlutunarreglna verði fallið frá því að líta á barnsmeðlög sem tekjur lánþega og reglum breytt í samræmi við það. Í Morgunblaðinu laugardaginn 13. febr., þ.e. í fyrradag, var viðtal við Sigurbjörn Magnússon, nýskipaðan formann stjórnar Lánasjóðsins, en þar segir, með leyfi forseta:

„Á fundi stjórnar LÍN í dag var tekin sú ákvörðun að hætta að flokka meðlög sem tekjur og tekur sú ákvörðun gildi frá og með 1. júní þegar nýjar úthlutunarreglur taka gildi.“

Það virðist því vera að stjórn Lánasjóðsins sé sammála áliti Lagastofnunar, þ.e. að ekki beri að telja barnsmeðlag til tekna námsmanns en hins vegar er ekki hægt að skilja annað en að stjórnin ætli sér ekki að leiðrétta þau mistök eða misskilning sem þarna er á ferðinni.

Auðvitað verða þeir einstæðu foreldrar sem jafnframt eru námsmenn og hafa orðið fyrir skerðingu námslána í vetur vegna þessara ólöglegu reglna að fá leiðréttingu nú þegar. Ég vil því beina þeirri spurningu til hæstv. menntmrh. hvort hann muni ekki beita sér sérstaklega fyrir því að þessi hópur námsmanna fái leiðréttingu á upphæð námslána strax. Það er alls ekki hægt að sætta sig við að opinberir lánasjóðir fari ekki að lögum.

Herra forseti. Sú upphæð er ekki há sem þarf til þess að leiðrétta lán til einstæðra mæðra en hún getur skipt verulegu máli fyrir þá einstaklinga sem þarna er um að ræða. En peningarnir verða að koma strax. Það getur verið of seint að bíða til haustsins. Ég legg því mikla áherslu á það, herra forseti, að þetta mál þolir enga bið.