15.02.1988
Sameinað þing: 48. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4578 í B-deild Alþingistíðinda. (3166)

Reglur LÍN um barnsmeðlög

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég verð að segja það að ég er nokkuð undrandi á því hvernig hæstv. ráðherra hagar máli sínu. Það vill nú svo til að það er verið að spyrja hæstv. ráðherra hér á þingi, ekki stjórn Lánasjóðsins. Þess vegna var það nokkuð sérkennilegt að hæstv, ráðherra skyldi verja svo til öllum ræðutíma sínum í að rökstyðja eða réttlæta afstöðu meiri hluta stjórnar Lánasjóðsins. Það var verið að spyrja um stefnu hæstv. ráðherra eins og ég skildi málshefjanda og afstöðu í þessu máli og ráðherra hefur að sjálfsögðu vald til þess að koma vilja sínum fram. Stjórn Lánasjóðsins situr ekki á Alþingi og stendur ekki til að ræða við hana hér í gegnum þennan ræðustól.

Ég vil þakka málshefjanda fyrir að taka þetta mál upp og ég skora á hæstv. ráðherra að sýna nú af sér myndugleik og breyta þessu strax. Það er ósköp einfalt mál að það liggur fyrir nokkurn veginn borðleggjandi og óyggjandi úrskurður um það hvernig fara skuli með þetta mál lagalega séð og ég held að hæstv. ráðherra eigi ekki að vera að draga úr þeim tilmælum sem hann sendi stjórn Lánasjóðsins með bréfi dags. 21. des., þar sem bréfið hefst á því að vísað er í álitsgerð Lagastofnunar og síðan er farið fram á það að þetta verði þegar í stað endurskoðað.

Það liggur fyrir að lagalega séð eru barnsmeðlög eign barns. Bæði í skattalögum eins og þau leggja sig og í barnalögunum er þetta alveg ljóst þannig að úrskurður Lagastofnunar gat varla orðið nema á þennan eina veg, enda vafðist það ekki fyrir þeirri stofnun að fella þennan úrskurð. Ég verð að segja alveg eins og er við hæstv. ráðherra að það er auðvitað slík niðurlæging ef menn ætla með svona lögfræðilegt álit í höndunum að ákveða það að t.d. frá og með næsta hausti skuli lögunum framfylgt. Ef þetta eru lög þá ber að fara eftir þeim og það strax í dag. Við getum þá alveg eins tekið til að ákveða það að ýmislegt annað sem að vísu eru lög í landinu þurfi menn ekki að virða fyrr en t.d. 15. maí. Það er e.t.v. hægt að setja reglugerð um það að við megum keyra full fram að 15. maí, en frá og með þeim degi skulum við uppfylla landslög í þessum efnum. Þetta er auðvitað til skammar, hæstv. ráðherra, ef menn ætla að standa svona að hlutunum.

Ég hvet hæstv. ráðherra til þess að aflétta þessu misrétti nú þegar. Nógu þungbær er sú skerðing á námslánunum sem allir búa við og þrír hæstv. ráðherrar Sjálfstfl. hafa komið á.

Að lokum þetta, hæstv. ráðherra. Ég tel að fulltrúar ríkisvaldsins í stjórn Lánasjóðsins eigi tafarlaust að hlýða fyrirmælum, og þeir hljóta auðvitað að gera það ef þau verða send, um að leiðrétta þetta þegar í stað. Það þarf ekki að vera um afturvirkni að ræða. Það væri t.d. hægt að ákveða að frá og með morgundeginum skyldi þetta viðhaft með þessum hætti með því að gefa út bréf 16. febr. Og ef þessir ágætu fulltrúar ríkisvaldsins í stjórn Lánasjóðs ekki hlýða slíkum tilmælum þá verður einfaldlega að skipta um fulltrúa og mér segir svo hugur um að það yrði ekki harmað ákaflega af sumum þó það yrði gert.