15.02.1988
Sameinað þing: 48. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4582 í B-deild Alþingistíðinda. (3171)

Reglur LÍN um barnsmeðlög

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Eins og hér hefur þegar komið fram er sú heildarupphæð sem hér um ræðir ekki há miðað við allt umfang Lánasjóðs ísl. námsmanna og munar reyndar sáralitlu í því heildardæmi. Hins vegar munar viðkomandi aðila mikið um hverja einustu krónu. Það er viðurkennt að þetta fólk hefur orðið að þola órétt og það ber að leiðrétta.

Tilgangur Lánasjóðsins er að tryggja öllum jafnrétti til náms, m.a. óháð efnahag. Þetta mál er því grundvallarmál. Það snýst um það að nokkrum námsmönnum hefur í rauninni verið refsað fyrir það að vera skrifaðir fyrir lögmætum tekjum barna sinna. Hæstv. ráðherra hefur fallist á það að þetta fólk hafi verið órétti beitt og hann hefur gefið fyrirmæli um að leiðrétta það í framtíðinni. En það er ekki að fullu leiðrétt fyrr en fortíðin hefur verið gerð upp. Það verður að bæta fyrir þetta óréttlæti sem þegar hefur verið framið.

Hæstv. ráðherra sagði hér áðan að hann vildi ekki taka fram fyrir hendurnar á stjórnarmönnum Lánasjóðsins og sagði eitthvað á þá leið að ráðherrar ættu ekki að vera of ráðríkir á þeim bæ. Vafalaust hefur hann í huga ráðsmennsku hæstv. forvera síns, en fyrr má nú vera.

Ég skora á hæstv. ráðherra að tryggja réttlætið ekki bara í framtíð heldur einnig í nútíð og helst af öllu í fortíð.