15.02.1988
Sameinað þing: 48. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4584 í B-deild Alþingistíðinda. (3174)

Reglur LÍN um barnsmeðlög

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég þakka fyrir að fá að gera örstutta athugasemd. Það varðar ummæli hv. 3. þm. Reykv. Það er greinilega viðkvæmt mál að rifja upp feril þriggja hæstv. ráðherra Sjálfstfl. í menntmrn. Staðreyndir málsins liggja hins vegar ljósar fyrir. Þær eru að í tíð Alþb. í ríkisstjórn voru lögin um Lánasjóðinn endurskoðuð og þá komu inn ákvæði um hækkanir námslána í 100% í áföngum. Það var hins vegar eitt af fyrstu embættisverkum hv. 3. þm. Reykv. í menntmrn. að fresta um eitt ár síðustu áfangahækkuninni í full 100%. Staðreyndin er sú að lánin voru ekki 100% nema eitt einasta ár, árið 1984. Þegar á árinu 1985 breytti hæstv. ráðherra framreikningi lána og hætti að miða við framfærsluvísitölu og fór að miða við aðra mælikvarða sem leiddi til skerðingar á námslánum. Á árinu 1986 gaf hæstv. menntmrh. Sverrir Hermannsson út sínar frægu reglugerðir, 3. jan. og 2. apríl 1986. Og hæstv. núv. menntmrh. hefur viðhaldið þessum skerðingum. Þannig að það sem ég sagði var rétt, herra forseti. Hér er um að ræða skerðingar þriggja ráðherra Sjálfstfl. í menntmrn.