15.02.1988
Sameinað þing: 48. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4584 í B-deild Alþingistíðinda. (3175)

Reglur LÍN um barnsmeðlög

Kristín Einarsdóttir:

Herra forseti. Eins og fram hefur komið hér í umræðunni er þetta ekki bara spurning um hvort þetta sé löglegt heldur er þetta fyrst og fremst spurning um réttlæti, hvort einstæðir foreldrar fái þarna leiðréttingu mála sinna. Það hefur einnig komið fram að þessi upphæð sem um er að ræða er alls ekki há. Hv. 3. þm. Reykv. talaði um að þetta væru óverulegar upphæðir sem væri þarna um að ræða. Nefndar hafa verið 13–15 millj. Ég held að það sé kannski ekki miklu hærri upphæð en blómin kostuðu í flugstöðina sem við vorum að ræða um áðan, þannig að þarna getur varla verið spurning um peninga. Ef það er ástæðan fyrir því að stjórn Lánasjóðsins treystir sér ekki til að leiðrétta þessi mistök þá vonast ég til þess að ríkisstjórnin sjái þá til þess að þeir fái þá þetta smáræði, litla aukafjárveitingu fyrir þessum milljónum til þess að hægt sé að koma til móts við þetta fólk sem þarna hefur orðið fyrir skerðingu. Og ég tel ekki koma neitt annað til greina en að leiðréttingin verði gerð fyrir allt þetta ár, það sé ekki nóg að gera það frá og með deginum í dag, þó það mundi vissulega vera til bóta.

Ég skora því á hæstv. menntmrh., eins og raunar allir sem hér hafa tekið til máls, að hann beiti sér fyrir því að þetta skerðingarákvæði verði afnumið nú þegar.