28.10.1987
Neðri deild: 7. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 460 í B-deild Alþingistíðinda. (318)

47. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Geir H. Haarde:

Herra forseti. Ég kemst ekki hjá því í byrjun að lýsa furðu minni á málflutningi hæstv. félmrh. við upphaf 1. umr. um þetta mál hér í hv. þingdeild sl. mánudag. Því fer að sjálfsögðu víðs fjarri að þingflokkur sjálfstæðismanna hafi gert sig sekan um einhver óeðlileg vinnubrögð í þessu máli heldur hefur eingöngu verið gerð sú krafa að vinnslu þessa máls yrði lengra komið en raun ber vitni áður en það yrði lagt fram hér í deildinni. Þau vinnubrögð hefðu að sjálfsögðu verið affarasælli þó svo þingflokkurinn hafi heimilað framlagningu frv. með þeim fyrirvörum sem hæstv. félmrh. las úr bréfi þingflokksins sem er dagsett 20. þ.m. Og mér þykir einsýnt, herra forseti, að það hefði mjög greitt fyrir afgreiðslu málsins ef hæstv. ráðherra hefði farið sér ofurlítið hægar í máli þessu.

En úr því sem komið er eru þetta allt aukaatriði. Nú er málið komið fram og þingleg meðferð þess hafin og ég get fullvissað þingheim um að framlagning þessa frv. hefði aldrei verið heimiluð af hálfu þingflokks sjálfstæðismanna nema af því að menn voru þar vissir um að unnt mundi að ná samkomulagi um málið í þingnefnd. Ég vildi svo gjarnan mega láta útrætt um aukaatriði þessa máls og tilgangslausan ágreining um undirbúning þess en snúa mér að aðalatriðunum, þ.e. efni frv. og því hvernig best er að leysa úr þeim vandamálum sem menn telja vera fyrir hendi á þessu sviði.

Ég tel nauðsynlegt í því skyni að rifja örlítið upp aðdraganda hins nýja húsnæðislánakerfis og nokkrar upplýsingar um þá reynslu sem þegar er af því fengin.

Nýju húsnæðislögin voru samþykkt á Alþingi vorið 1986 í kjölfar samkomulags sem aðilar vinnumarkaðarins gerðu sín í milli um þessi mál og grundvallaðist á frjálsu samkomulagi þeirra um að ráðstafa fjármagni lífeyrissjóðanna í landinu, sem þessir aðilar eiga að miklu leyti, í verulega auknum mæli til húsnæðismála. Hið nýja húsnæðiskerfi grundvallaðist á því að félagar í lífeyrissjóðunum, en þar eiga allir launþegar lögum samkvæmt nú að eiga aðild, fái framvegis lán til húsbygginga í gegnum hið opinbera húsnæðiskerfi í stað þess að fá þau beint frá lífeyrissjóðunum eins og áður var.

Kerfið byggir því á þeirri forsendu að með því að greiða í lífeyrissjóði, sem gert hafa samkomulag við Húsnæðisstofnun um að verja 55% af ráðstöfunarfé sínu til kaupa á skuldabréfum stofnunarinnar, séu menn sjálfkrafa að öðlast lánsrétt hjá Húsnæðisstofnun og afsala sér þar með að mestu eða öllu lánamöguleikum hjá sjóðunum sjálfum. Þennan rétt eiga allir sjóðfélagar eðli málsins samkvæmt. Mér finnst augljóst mál að einhliða skerðing á rétti manna að þessu leyti geti ekki komið til álita af hálfu stjórnvalda nema að baki liggi samkomulag við sjóðina og eigendur þeirra um hvernig skuli með fara, t.d. um það hvort þeim sem verður fyrir skerðingu skuli veittur aukinn lánaréttur í sjóðunum í staðinn. Eða vilja menn kannski taka áhættuna af því að einstakir sjóðir, fleiri eða færri, dragi sig út úr þessu kerfi og byrji á nýjan leik að lána félögum sínum beint? Það kann vel að vera að einhverjum sjóðfélaga þyki betra að fá einhver lán með hærri vöxtum en fá engin lán með þeim vöxtum sem tíðkast í Húsnæðisstofnun.

Það var vitað mál á sínum tíma, þegar mál þetta var undirbúið í samstarfsnefnd aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda vorið 1986, að við kerfisbreytinguna mundi eftirspurn eftir lánum húsnæðismálastjórnar aukast verulega sakir þess að hér er á boðstólum verulega niðurgreitt lánsfé. Auðvitað má alltaf búast við mikilli eftirspurn eftir niðurgreiddu fé. Ég geri raunar ráð fyrir að slík eftirspurn geti í eðli sínu verið óseðjandi eða endalaus, sbr. það sem hv. 4. þm. Norðurl. e. sagði áðan, fyrir utan það að kerfið býður upp á að menn sæki án alls kostnaðar um lán til vonar og vara og það hafa auðvitað margir gert þannig að það kom engum á óvart að biðraðir skyldu myndast. Kerfi niðurgreiddra vaxta gerir beinlínis ráð fyrir þeim. En kerfið gerði líka ráð fyrir því að lengd biðraðarinnar hverju sinni takmarkaðist af því ráðstöfunarfé sem fyrir hendi væri. M.ö.o.: það færi eftir ráðstöfunarfénu hversu margir fengju lán á hverju ári en ekki eftir því hversu margir væru í biðröðinni. Þannig var þetta kerfi hugsað.

Spurningin núna er sú, Hvernig hefur þetta reynst í framkvæmd? Hvað er hæft í þeim fullyrðingum að þetta kerfi hafi þegar gengið sér til húðar, sé sprungið eða eitthvað þaðan af verra? Því miður verður að segjast að hæstv. núv. félmrh. og raunar ýmsir aðrir hafa ekki dregið af sér hvorki fyrir né eftir kosningar við að fullyrða að kerfið sé sprungið og neyðarástand nánast að skapast. Vitanlega hafa slíkar fullyrðingar ekki önnur áhrif en þau að ala á óvissunni og hvetja enn fleiri en ella til að senda inn lánsumsóknir, tryggja sér númer í biðröðinni þótt aðstæður knýi viðkomandi kannski ekki sérstaklega til að sækja um lán. Slíkir spádómar hafa tilhneigingu til að ýta sjálfkrafa undir að þeir rætist óháð raunverulegum aðstæðum.

En lítum aðeins á hvernig hin raunverulega staða er. Frá því að nýju húsnæðislögin tóku gildi 1. september í fyrra hafa borist um það bil 10 þúsund lánsumsóknir og enn berast um það bil 400–500 umsóknir á mánuði. Gera má ráð fyrir allt að 20% afföllum í þessum hópi. Af umsækjendum höfðu 6100 þegar fengið lánsloforð sín í hendur þegar afgreiðslu lánsloforða var hætt í mars sl. Í þeim hópi voru þó nokkrir sem ekki voru tilbúnir til að taka við lánum sínum þegar að þeim kom. En af þessum 6100 aðilum munu milli 3200 og 3500 fá lán sín að hluta eða að öllu leyti útborguð í ár en aðrir síðar. Um helmingur þessara aðila mun vera að byggja eða kaupa íbúð í fyrsta sinn. Þetta er nú öll hryllingsmyndin þegar grannt er skoðað.

Víst er biðröðin lengri en ráð var fyrir gert og sjálfsagt miklu lengri en verið hefði ef fyrstu mánuðir hins nýja húsnæðiskerfis hefðu ekki lent í miðri kosningabaráttu þar sem reynt var að gera þetta fyrirkomulag að skotspæni og menn máluðu skrattann á vegginn hverjir um aðra þvera. En því fer fjarri að ástandið sé þannig núna að það þurfi að valda þeim óróa og þeim æsingi sem orðinn er, enda hefur alltaf verið talið að það muni taka nokkur ár fyrir þetta kerfi að leita jafnvægis, ná jafnvægi með minnkandi eftirspurn eftir lánum. Það sem hins vegar ber að tryggja og það rækilega og til frambúðar er sjálf fjárhagsstaða Byggingarsjóðs ríkisins nú þegar sýnt er að vaxtamunur milli tekinna og veittra lána stefnir fram úr þeim mörkum sem kerfið þolir, sbr. þær forsendur sem menn gáfu sér þegar frv. um þetta mál var lagt fram í þinginu vorið 1986.

Ég mun nú snúa mér að efni frv. sem hér liggur fyrir. Meginmarkmið þess mun vera að draga úr eftirspurn eftir lánum með því að draga úr sjálfvirkni og tryggja að lánsféð renni sem mest þangað sem þess er mest þörf. Einnig að treysta fjárhagsstöðu Byggingarsjóðsins. Auðvitað þarf enginn ágreiningur að vera um þessi markmið. En ég tel ekki augljóst að til þess að ná þessum markmiðum þurfi nauðsynlega allar þær lagabreytingar sem frv. gerir ráð fyrir. Ég tel að það megi einnig skoða í þessu sambandi hvort ekki megi breyta reglugerðinni um Byggingarsjóðinn og þeirri framkvæmd sem gilt hefur hjá húsnæðismálastjórn varðandi biðtíma annars vegar þeirra sem byggja eða kaupa í fyrsta sinn og hins vegar þeirra sem sækja um lán en eiga íbúð fyrir. Það eru ákvæði í reglugerðinni þess efnis að það megi taka í forgangshópinn með þeim sem eru að kaupa sína fyrstu íbúð tiltekna aðila og ég vildi gjarnan fá það upplýst þegar að störfum þingnefndar kemur hvort þarna er ekki svigrúm til að rýmka heimildir án þess að breyta þessum lögum.

Sama er að segja um hitt atriðið. Það er í hendi stjórnar Húsnæðisstofnunar að skilgreina þann mun á afgreiðslutíma sem er gagnvart þeim sem eru að fá úthlutun í fyrsta sinn og þeim sem eiga íbúð fyrir. Þarna er um framkvæmdaratriði að ræða sem ég tel að gjarnan mætti skoða betur og hefði viljað fá skýringar á, ef ekki hjá ráðherra núna í umræðum þá í þingnefndinni.

En mig langar að gera frekar að umtalsefni þær leiðir sem frv. gerir ráð fyrir og sem þingflokkur Sjálfstfl. hefur leyft sér að gera athugasemdir við og fyrirvara um.

Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir því að unnt verði að skerða eða synja um lán þegar tilteknar aðstæður eru fyrir hendi, sbr. 1. gr. frv. Ýmsir aðilar hafa þegar bent á, nú síðast forseti Alþýðusambands Íslands í fjölmiðlum í dag og í gær, að hægur vandi yrði fyrir fólk að fara í kringum þessi ákvæði ef menn hefðu áhuga á slíku og þess vegna væri vafasamt hvort ákvæði greinarinnar næðu tilgangi sínum jafnvel þótt þau væru samþykkt. En það sem ég tel vera meginatriðið í þessu efni er sá réttur sem menn hafa skapað sér með lífeyrissjóðsgreiðslum sínum. Ég lét þess getið áðan að þann rétt væri óeðlilegt að skerða án samráðs við eigendur lífeyrissjóðanna, en ég get tekið undir það almenna sjónarmið hjá hæstv. félmrh. og fleirum sem hér hafa talað að það er óeðlilegt að menn sem eiga miklar eignir og búa að öðru leyti við góðan efnahag njóti niðurgreiddra húsnæðislána frá ríkinu um aldur og ævi. Ég tel líklegt og raunar víst að unnt sé að finna samkomulagsleið varðandi þetta atriði, en um þetta verður auðvitað líka að leita samkomulags við sjóðina. Samanburður ráðherra hins vegar um þetta atriði við þá sem synjað er um lán vegna ónógrar greiðslugetu er út í hött því slíkir aðilar eiga að sjálfsögðu aðgang að lánum hjá Byggingarsjóði verkamanna á mun hagstæðari kjörum en almennt gerist. Ákvæðið um þá er til þess ætlað að forða fólki frá því að steypa sér í óviðráðanlegar skuldir og reyna að stuðla að því að sem flestir geti staðið í skilum við sjóðinn.

Herra forseti. Ég sakna þess mjög að í grg. með frv. ráðherra skuli ekki koma fram hve mikið gera megi ráð fyrir að biðtími styttist í kerfinu og hvenær, komi ákvæði 1. gr. til framkvæmda. Þær upplýsingar hljóta að sjálfsögðu að skipta miklu máli. Ég hef heyrt menn sem þekkja til þessara mála tala um að biðtími muni styttast um nokkrar klukkustundir, svo léttvægar séu þessar breytingar. Það kemur raunar heim og saman við það sem hv. 4. þm. Norðurl. e. var að segja í lok sinnar ræðu. En það vantar einnig allar upplýsingar um hve margir detti út úr biðröðinni, hve margir færist framar í henni og hve margir aftar. Ég vænti þess að upplýsingar um þetta geti legið fyrir í nefndarstarfinu.

Um 2. gr. frv. vil ég segja að ég tel að hún sé til bóta frá því sem nú er. Þessi grein snýr hins vegar að afgreiðsluskipan hjá húsnæðismálastjórn og ekki að raunverulegum kjarna þessa máls.

Ákvæði 3. gr. eru að mínum dómi að ýmsu leyti vafasöm, en þar er gert ráð fyrir þeim möguleika að láta fjölskyldustærð og skuldlausan eignarhluta í fyrri íbúð hafa áhrif á biðtíma eftir lánum. Þetta mál er að sjálfsögð náskylt efni 1. gr. Um það eiga við sömu athugasemdir og við þá grein.

Ég tel að þetta ákvæði geti líka verið erfitt í framkvæmd ef ekki óframkvæmanlegt og kalla á mjög víðtækt eftirlit Húsnæðisstofnunar með skattframtölum manna sem þó getur vart hafa verið hugmynd þeirra sem þetta frv. sömdu. Menn hafa sömuleiðis bent á þá möguleika sem kunna að vera fyrir hendi hjá fólki til að fara fram hjá ákvæðum sem þessu. — Og ég vil bæta því við í sambandi við þetta að staða manna breytist í tímans rás. Aðstaða manna sem búa við tiltekna stöðu þegar lánið er veitt eða þegar lánsloforð er gefið getur batnað eða versnað eftir atvikum á þeim tíma sem síðan líður, jafnvel á tímanum sem líður frá því að menn fá lánsloforð þar til þeir fá lánin útgreidd. Mér finnst því vanta að það komi fram nægilega skýrt hvernig þessu ákvæði ætti að beita og hvort það muni virkilega þjóna þeim tilgangi sem ráðherrann ætlast til.

Ég vík loks að ákvæði 4. gr. um breytilega vexti innan hvers lánaflokks. Ég vek athygli á að auðveldasta leiðin til að hafa áhrif á fjárstreymi innan þessa kerfis og eftirspurn eftir lánum er sú að breyta útlánsvöxtunum. En ákvæðið eins og það er núna er marklaust að mínum dómi eins og því er fyrir komið í frv., enda á samkvæmt frv. að ákveða þetta eins og fjöldamargt annað í frv. í reglugerð sem engar upplýsingar liggja fyrir um hvernig muni líta út. Ég tel raunar álitamál hvort nokkurrar lagabreytingar sé þörf vilji menn fara inn á þessa braut þar sem mjög rúmar heimildir til vaxtaákvarðana eru fyrir hendi í lögunum eins og þau eru núna. Hæstv. ráðherra hefur hins vegar lýst því yfir að hann sé reiðubúinn að falla frá þessu ákvæði og semja um það með öðrum hætti. Þetta ætti þess vegna ekki að verða til þess að tefja þetta mál að öðru leyti.

Ég vil að endingu aðeins segja það, herra forseti, að ég mun beita mér fyrir því í hv. félmn. að viðunandi samkomulag náist um þetta mál og það þurfi ekki að verða tilefni frekari ýfinga manna á meðal, kannski þeirra sem síst skyldi, og ég vænti þess að aðrir aðilar þessa máls leggi sitt af mörkum í því skyni sömuleiðis.