16.02.1988
Efri deild: 56. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4601 í B-deild Alþingistíðinda. (3186)

60. mál, iðnaðarlög

Guðmundur H. Garðarsson:

Herra forseti. Vegna ummæla hv. þm. Svavars Gestssonar rétt áðan um hvernig beri að skilgreina fiskiðnað og hvað flokkist undir fiskiðnað vil ég taka fram eftirfarandi:

Eins og hæstv. ráðherra sagði áðan í ræðu sinni tók hann fram að þessi lög og sú lagabreyting sem hér er til umræðu ætti við þann hluta iðnaðar sem er háður leyfisveitingum á grundvelli laga um iðnað. Í þessu tilviki er um að ræða, svo sem fram hefur komið í umræðunum, lýsi. Það má auðvitað segja, eins og hv. þm. sagði, að lýsi sé í ákveðinni merkingu þess orðs hluti af fiskiðnaði, en þó er það nokkuð langt sótt.

Hin hefðbundna skilgreining á fiskiðnaði hefur verið á Íslandi í gegnum árin, áratugina þannig að fiskiðnaður hefur flokkast undir sjávarútveg og við þá skilgreiningu held ég mig, enda hefur komið fram í umræðunum að svo gera aðrir hv. þm. og m.a. einnig hæstv. ráðherra. Þannig er það útúrsnúningur og langt sótt hjá hv. þm. Svavari Gestssyni að segja að með því að taka afstöðu með þessari breytingu séum við að opna möguleika fyrir útlendinga til að fara inn í aðrar greinar, ef ég skilgreini lýsi sem fiskiðnað, með því að samþykkja þá lagabreytingu sem hér um ræðir. Þetta vil ég láta koma fram og undirstrika að lýsisvinnsla og lagmeti er háð leyfisveitingum á grundvelli ákvæða iðnaðarlaga, en svo er ekki um aðrar greinar íslensks fiskiðnaðar.