16.02.1988
Efri deild: 56. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4602 í B-deild Alþingistíðinda. (3188)

60. mál, iðnaðarlög

Guðmundur Ágústsson:

Herra forseti. Mig langar til að koma upp og ítreka það, sem hv. 7. þm. Reykn. Júlíus Sólnes sagði áðan, að við þm. Borgarafl. styðjum frv. Það byggist ekki á því hvort við erum að hlaupa í faðm ríkisstjórnarinnar eða ekki. Við teljum að þetta sé mál sem geti komið íslenskum iðnfyrirtækjum til góða miðað við það ástand sem nú er. Það hefur verið, því miður, mjög erfitt fyrir íslensk fyrirtæki í iðnaði að hasla sér völl á erlendri grund, m.a. út af mjög veikum ytri aðstæðum hér. Iðnfyrirtæki hafa átt í erfiðleikum með að útvega sér fjármagn til rekstrar og einnig vegna múra erlendis þar sem þau hafa átt í erfiðleikum með að koma sínum iðnvörum á markað. Með því að opna þessa leið teljum við að erlent áhættufé geti borist hingað til lands og jafnframt bæði þekking á markaðsmálum og þekking að því er varðar uppfinningar o.fl.

Ég hef þá trú á íslenskum aðilum í atvinnurekstri að þeir vegi og meti, þegar þeir fara til samstarfs við erlend fyrirtæki, hvaða áhrif það hefur fyrir fyrirtækið sem slíkt og hvaða áhrif það hefur fyrir þjóðarbúið íslenska. Ég óttast í sjálfu sér ekki þetta ákveðna frv. Þarna er aðeins átt við iðnaðarfyrirtæki, en kemur ekki inn á það sem mestu máli skiptir, fiskvinnslu og útgerð. Ég óttast ekki að þessi lög, út af þeim skýringum sem hér hafa komið fram, verði heimfærð á fiskvinnsluna.

Þetta vil ég að komi skýrt fram sem afstaða Borgarafl. til þessa máls. Því var varpað upp áðan að við séum að fara yfir á væng ríkisstjórnarinnar. Ég sé ekki, þó við séum í stjórnarandstöðu, að við þurfum að vera á móti öllu því sem kemur frá ríkisstjórninni. Við verðum að meta það á þeirri forsendu hvort það sé til hagsbóta fyrir þjóðfélagið eða ekki. Ég tel að þetta mál geti flokkast undir það.