28.10.1987
Neðri deild: 7. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 467 í B-deild Alþingistíðinda. (320)

47. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Guðmundur G. Þórarinsson:

Herra forseti. Ég verð að játa að ég varð mjög undrandi þegar ég heyrði hæstv. félmrh. mæla fyrir þessu frv. til laga um breytingar á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins. Ég held að ég verði að taka undir með hv. 1. þm. Norðurl. v. að mér þótti ráðherrann ekki fara vel af stað. Umræður hafa orðið miklar að undanförnu, á undanförnum mánuðum og jafnvel missirum, um þessa nýju húsnæðislöggjöf sem nú er við lýði. Flestir hafa verið þeirrar skoðunar að hana þyrfti að laga, það þyrfti að endurskoða hana og það þyrfti að gera það í ljósi einhverrar reynslu eftir ákveðinn tíma.

Ég held að hægt hefði verið að ná víðtækri samstöðu um slíka endurskoðun. Frv. sem lagt er fram er í rauninni um atriði sem líklega ílestir eru að talsverðu leyti sammála um. Það er hins vegar komið fram að Framsfl. hefur að talsverðu leyti fyrirvara við framlagningu frv. Sjálfstæðismenn hafa fyrirvara. Forustumenn Alþýðusambandsins eru mjög óánægðir með frv. Forustumenn lífeyrissjóðanna eru óánægðir. Þá hlýtur maður að spyrja sig hvers vegna hæstv. félmrh. hefur ekki leitað víðtækara samstarfs áður en frv. var lagt fram. Lögin sem nú eru í gildi voru unnin í víðtæku samstarfi. Um er að ræða viðkvæmt mál og veruleg hætta er á að tafið sé fyrir nauðsynlegum endurbótum ef þannig er að máli staðið.

Ég er einn af þeim sem höfðu fyrirvara í þingflokki Framsfl. við framlagningu frv. Ekki vegna þess að ég væri ekki sammála flestum efnisatriðum þess, hafi ég skilið það rétt, heldur fyrst og fremst vegna þess að ég var engan veginn viss um að ég skildi þetta frv. rétt. Mér fannst það flausturslega unnið og illa unnið. Þess vegna hélt ég að eðlilegt væri að reyna að vinna þetta svolítið betur og sjálfsagt verður að gera það í nefnd.

Mig langar að fara fáeinum orðum um frv. sjálft. Ég er sammála því sem stendur í 1. gr., að það sé eðlilegt að með lögum verði aflað heimildar til að skerða eða synja um lán ef ákveðnar ástæður eru fyrir hendi. Það er auðvitað ekkert vit í að við niðurgreiðum stórlega vexti til aðila sem ekki þurfa á því að halda á sama tíma og fjármagn til þessara lána er af svo skornum skammti. Það nær ekki nokkurri átt. Vandinn er hins vegar hvernig koma á þessum málum fram. Ég verð að taka undir með þeim sem segja að eignaviðmiðunin í þessari grein sé mjög vafasöm. Eins og forseti Alþýðusambandsins hefur réttilega bent á geta menn jafnvel átt togara þó að þeir skuldi mikið í íbúðinni sinni. Það er ekki óalgengt að menn fái lán út á sín atvinnufyrirtæki með því að veðsetja sín íbúðarhús eða íbúðir þannig að fyrirvararnir, sem þarna eru, eru tæplega nægilega vel hugsaðir. Ég hefði haldið að ef menn vildu ganga þessa braut hefði a-liðurinn átt fremur að vera svo: ef umsækjandi á fullnægjandi íbúðarhúsnæði — fremur en: eina íbúð og geti keypt aðra.

Í b-lið 1. gr. verð ég að segja að mér er alls ekki ljóst hvað átt er við með „mikil íbúðareign“. Ég er líka ansi hræddur um að þó að menn eigi mikla íbúðareign, mikið einbýlishús og á því hvíli talsvert, geti menn verið glettilega miklir eignamenn þrátt fyrir það. Þessi lagagrein nái því alls ekki því markmiði sem hæstv. félmrh. er að reyna að ná. (Félmrh.: Það stendur „skuldlitla eða skuldlausa.“) Það stendur „skuldlitla eða skuldlausa“, félmrh. En maður, sem á kannski, við skulum segja eitthvert glæsilegasta einbýlishús landsins, getur hæglega átt útgerðarfyrirtæki jafnframt og skuldað mikið í húsinu. Húsið getur verið veðsett upp í topp. Þess vegna getur hann fengið lán þar eð hann fellur ekki undir það að eiga skuldlitla eða skuldlausa mikla íbúðareign. Þetta er hreinlega vanhugsað ef á að ná þessum markmiðum fram. Ég satt að segja spyr mig að því hvort c-liðurinn sé ekki í rauninni innifalinn í b-liðnum. Ég geri mér alls ekki grein fyrir því. Ég hefði haldið það. Í c-lið segir: „Fyrri íbúðareign umsækjanda er skuldlítil og stærri en 180 m2“, þ.e. um er að ræða skuldlitla mikla íbúðareign. (Félmrh.: Og viðkomandi er að minnka við sig.) Og viðkomandi er að minnka við sig. Það er sem sagt alveg skýrt að ef hann er að stækka við sig má ekki skerða lánið eða synja honum.

Ég varpa þeirri spurningu fram hvort c-liðurinn er ekki innifalinn í b-liðnum vegna þess að b-liðurinn veitir heimild til að skerða lánið eða synja um það hvort sem um er að ræða minnkun eða ekki. Það getur vel verið að félmrh. hristi höfuðið, en ég bendi ykkur á að mörg vandamál í þessu þjóðfélagi okkar eru tilkomin vegna þess hve lög eru óskýr, hve þau eru illa unnin og það verður endalaus vinna fyrir lögfræðinga að skera úr því hvað löggjafarvaldið í rauninni hafi meint. Það er svo með okkur þm. að við treystum um of á stjfrv. og höldum að þau séu unnin af sérfræðingum, lesum þau kannski ekki nægilega nákvæmlega og fáum svo upp alla vega flækjur á eftir. Mér virðist þetta frv. vera illa unnið. Mér sýnist samkvæmt þessum skilgreiningum að við gætum hæglega fengið þá stöðu að aðili sem ætti 178 m2 íbúð, skuldlausa eða skuldlitla, gæti skv. a-lið 1. gr. fengið lán þótt hann ætlaði að eiga hina íbúðina og þyrfti í rauninni ekki á þessari íbúð að halda. En samkvæmt c-liðnum gæti aðili sem ætti 182 m2 íbúð og ætlaði að fá sér minni íbúð og selja þá sem hann ætti fyrir lent í skerðingu eða synjun. Jafnvel þó að það væri ellilífeyrisþegi sem þyrfti virkilega á því að halda að minnka við sig og hefði úr litlu að spila þegar fram í sækti væri hægt að skerða hans lán samkvæmt þessari heimild, en hinn sem ætti íbúðina fyrir og ætlaði að eiga hana áfram gæti fengið lán og engin heimild væri til að skerða hans lán.

Það er eðlilegt að menn velti þessum spurningum upp. Ég tek það skýrt fram að þetta er ekki bara orðaleikur, heldur er það meginmál hvernig á að skilja lög sem sett eru á Alþingi. Og það er auðvitað meginmál að þau búi ekki til fleiri vandamál en þeim er ætlað að leysa. (Gripið fram í.) Þetta er heimild, já. Og við vitum ekki hvernig þeim er beitt. Ég segi þess vegna að það er mjög mikið atriði að lög á borð við þessi séu vandlega unnin. Ef við förum yfir í 2. gr. verð ég að taka undir með hv. 1. þm. Norðurl. v. að ég skil ekki síðustu setninguna: „Endanleg svör um afgreiðslutíma láns og lánsupphæð berist eigi síðar en einu ári áður en fyrsti hluti láns kemur til afgreiðslu.“ Þýðir þetta í reynd að alls ekki megi úthluta neinum lánum nema ári eftir að svar hefur borist? (Félmrh.: Útúrsnúningur eins og annað hjá þér.) Þetta er ekki útúrsnúningur. Því miður er ég hræddur um að ráðherrann hafi hugsað þetta illa. Ég óska eftir nánari skýringum á þessu. Það kann að vera að síðar, þegar fram í sækir, komi byggingarsjóðurinn til með að standa betur en hann gerir núna. Það getur vel verið að það verði hægt að úthluta mönnum láni kannski tveimur, þremur mánuðum eftir að þeir fá endanlegt svar. Ég hef tilhneigingu til að skilja þessa setningu þannig að það yrði bara bundið í lög að það mætti ekki. (Félmrh.: Hvað þýðir „eigi síðar“?) Ja, hvað þýðir „eigi síðar“. Það þýðir að það verður að líða a.m.k. ár frá því að lokasvar berst þar til 1. hluti lánsins kemur til afgreiðslu. Mér virðist sem sagt þetta frv. vera illa hugsað og illa unnið.

Varðandi 3. gr. segi ég það: Þar er heimild til þess að úthlutun lána til þeirra sem byggja eða kaupa í fyrsta sinn geti gengið á undan öðrum. Nú er það svo í okkar þjóðfélagi að mörg ung hjón sem eru að byrja að búa byrja á því að kaupa sér litla tveggja herbergja íbúð vegna þess að það hentar þeirra fjölskyldustærð og það hentar þeirra fjárhag. Það er hagur allra, þeirra og þjóðfélagsins líka. Ef þau síðan, eins og þau hugsa sér, ætla sér að stækka við sig þá fara þau væntanlega aftur fyrir vegna þess að þau eiga íbúð fyrir. Ég þekki dæmi um ungt fólk sem veltir því fyrir sér hvort það verði ekki, fyrst svona er, að reyna að sprengja sig í það að kaupa fjögurra herbergja íbúð strax, jafnvel þó það ráði ekki við það, til þess að nýta möguleikann meðan það er í forgangsröð. Allt sýnir þetta vandann sem við er að glíma þegar svona lög eru sett. Til þeirra verður að vanda og því miður virðist vera sem félmrh. hafi farið mjög einförum við þetta og ekki haft samráð við þá sem áttu aðild að fyrri löggjöfinni.

Varðandi 4. gr. vil ég segja að ég er sammála því ef unnt er að koma því við að vextir verði mismunandi, en hvernig á að gera það er nokkurt vandamál. Og það er vandamál fyrir þm. að setja lög og samþykkja lög sem þeir vita ekkert hvernig verða í útfærslu. Ég hefði haldið að það væri einnig með tilliti til tíma sem heimildin þyrfti að vera, því um er að ræða niðurgreidda vexti, og ég nefni dæmi: Aðili sem fær lán, við skulum segja til þess að gera dæmið skýrara úr Byggingarsjóði verkamanna, til kannski 42 ára með 1% vöxtum og þarf virkilega á því að halda, hann gæti hæglega eftir fimm ár verið kominn í tölu vel efnaðra manna með góða stöðu en samt heldur þjóðfélagið áfram með takmörkuðu fjármagni að greiða niður fyrir hann vexti í ein 30 eða 35 ár í viðbót. Það hlýtur að vera umhugsunarefni hvort þannig á að halda á málum. Hvernig þessu er best komið skal ég ekki segja. Það kann að vera að þessu sé betur komið í skattalöggjöf.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta frv. en vegna upphafsorða hæstv. félmrh. þegar mælt var fyrir frv. taldi ég nauðsynlegt að láta koma fram hvers vegna ég hafði fyrirvara við framlagningu þess, að hluta vegna þess að ég skildi það illa og tel að ef ég skil það illa þá muni vera margir fleiri sem skilja það illa og vegna þess að ég tel það vera illa unnið. Ég óttast dálítið að félmrh. hafi með því að fara einförum í þessu máli að hluta klúðrað því, þ.e. seinkað meðförum þess í gegnum þingið.