16.02.1988
Efri deild: 57. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4608 í B-deild Alþingistíðinda. (3200)

231. mál, aðför

Dómsmálaráðherra (Jón Sigurðsson):

Hæstv. forseti. Ég fylgi úr hlaði frv. til l. um breytingu á lögum nr. 19 frá 4. nóv. 1887, um aðför. Það eru tildrög þessa máls að í október sl. flutti hv. þm. Jón Magnússon frv. í Nd. um þetta efni sem prentað er á þskj. 34. Í umræðum um málið í Nd. mælti ég með því að frv. yrði samþykkt að teknu tilliti til þeirra breytinga á því sem réttarfarsnefnd lagði til í umsögn sinni um fyrra frv. hv. þm. Jóns Magnússonar um sama efni sem flutt var á 109. þingi.

Tilgangur frv. Jóns og þess frv. sem hv. allshn. í Nd. flytur nú er að draga úr kostnaði og tímasóun við aðfararaðgerðir og laga þær að öðru leyti að nútímaaðstæðum. Hv. allshn. Nd. gerði á þskj. 522 tillögur og ábendingar réttarfarsnefndar um breytingar á hinu upphaflega frv. að sínum og flutti svo nýtt frv. um efnið á þskj. 523. Ég mælti með samþykkt þessa frv. nefndarinnar í Nd. Ég tel að þótt nú standi fyrir dyrum heildarendurskoðun á hinum aldargömlu aðfararlögum sé ástæðulaust að tefja þess vegna einfaldar breytingar af því tagi sem nú eru lagðar til af allshn. Ég mæli fyrir þessu frv. í samráði við hv. formann allshn. Nd.

Í tengslum við þær tillögur um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds, sem unnið er að á vegum dómsmrn. þessa daga, hefur verið ákveðið að taka ýmis réttarfarslög, þar á meðal lögin um aðför, til allsherjar endurskoðunar. Sú endurskoðun mun óhjákvæmilega taka nokkurn tíma og eins má gera ráð fyrir því að slík lög tækju ekki gildi fyrr en að nokkrum tíma liðnum frá birtingu þeirra. Sú breyting sem hér er lögð til af hv. allshn. Nd. er einföld og stefnir til hagræðis fyrir fógeta án þess að draga úr réttaröryggi gerðarþola eins og fram kemur í grg. Jóns Magnússonar með hinu upphaflega frv. á þskj. 34.

Ég legg því til, virðulegi forseti, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. allshn.