16.02.1988
Neðri deild: 58. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4610 í B-deild Alþingistíðinda. (3205)

243. mál, aðgerðir í sjávarútvegi

Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um aðgerðir í sjávarútvegi til staðfestingar á bráðabirgðalögum sem sett voru 10. júlí 1987. Í þeim bráðabirgðalögum var gert ráð fyrir því að sá hluti uppsafnaðs söluskatts sem ekki hafði verið endurgreiddur fiskvinnslunni á þeim tíma yrði settur í Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins og greiddur út í gegnum hann, þó ekki fyrr en eftir árslok 1988.

Eins og öllum er kunnugt hefur orðið mikil breyting á afkomu fiskvinnslu á þeim tíma sem liðinn er og er þar verulegur taprekstur. Í þessu frv. er því gert ráð fyrir að horfið verði frá þeirri fyrirætlan sem fram kom í bráðabirgðalögunum og söluskattur þessi endurgreiddur með þeim hætti sem upphaflega var ráðgert. Það mun hafa það í för með sér að endurgreiðslan verður sú sama og var fyrri hluta árs 1987, þ.e. fyrir seinni hluta árs 1987 verður endurgreidd sama prósenta af útflutningi eins og var fyrri hluta ársins.

Hér er ekki um mjög háa fjárhæð að ræða eða samtals 136 millj. 500 þús. kr. Sú fjárhæð er ekki mikil miðað við þann vanda sem þessi atvinnugrein stendur frammi fyrir. Hins vegar skiptir hún töluverðu máli fyrir atvinnugreinina og er því mikilvægt að þessi greiðsla geti farið fram sem allra fyrst. Ég vænti þess að hægt verði að flýta málinu eins og kostur er hér á Alþingi.

Ég vil að lokinni þessari umræðu leggja til að málinu verði vísað til hv. sjútvn. og 2. umr.