16.02.1988
Neðri deild: 58. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4613 í B-deild Alþingistíðinda. (3208)

243. mál, aðgerðir í sjávarútvegi

Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Það er í sjálfu sér mjög eðlilegt að það sé spurst fyrir um afkomumál og framtíðarhorfur í sjávarútvegi. Ég efast ekki um það að allir hv. þm. hafa áhyggjur af þeirri þróun mála sem þar hefur orðið.

Það er alveg rétt hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni, hv. 4. þm. Norðurl. e., að hér er verið að taka til baka ákvörðun sem tekin var á sl. sumri og þar af leiðandi um breytingu að ræða. Það var von hv. ríkisstjórnar þegar hún var mynduð að með því að leggja mikla áherslu á að minnka halla í ríkisfjármálum mætti það verða til þess að draga úr þenslu í þjóðfélaginu og það gæti orðið til þess að rekstrarskilyrði sjávarútvegsins fengju staðist. Því miður varð sú ekki raunin á. Það hefur verið mikið launaskrið í þjóðfélaginu. Laun hafa hækkað mikið á þeim tíma án þess að til aukningar þjóðartekna hafi komið. Það hefur líka verið óhófleg lánastarfsemi í landinu. Það hefur verið mikill innflutningur erlends fjármagns bæði af hálfu bankastofnana og annarra lánastofnana og má segja að slík þróun peningamála hafi kynt undir þenslu. Þannig hefur því miður ýmislegt farið á annan veg en menn vonuðust til þá og gátu séð fyrir.

Það er alveg rétt hjá hv. þm. að hér stendur að það sé nokkur halli í sjávarútveginum. Það er nú út af fyrir sig afstætt hvernig menn túlka orðið „nokkuð“. Ef litið er á það í prósentum býst ég við að menn gætu talið að 5% væri „nokkuð“ en ég vil taka undir það með honum að ég tel heldur lítið gert úr því með því að nota þetta orð. Ég vildi segja að það er um verulegt tap að ræða í sjávarútveginum og þá sérstaklega í frystiiðnaðinum.

Ég hygg að þrátt fyrir allt þá komi sjávarútvegurinn ekki með mjög verulegt tap út úr síðasta ári ef á heildina er litið. Hins vegar er aðaláhyggjuefnið árið 1988. Það er vissulega umdeilt hversu mikið tapið er í frystingunni en samkvæmt því mati sem Þjóðhagsstofnun hefur látið fara frá sér þá er, miðað við 6% ávöxtun stofnfjár, gert ráð fyrir 8,3% tapi í frystingu, 5% í botnfiskvinnslunni í heild. Þar er ekki gert ráð fyrir endurgreiðslu á uppsöfnuðum söluskatti á árinu 1988 sem mundi þýða rúm 2% í afkomu vinnslunnar, þannig að ef hann væri endurgreiddur að fullu árið 1988 þá mundi þessi tala lagfærast sem því nemur.

Hins vegar eru þessar aðstæður mjög misjafnar eftir því hversu vel fyrirtækin eru stödd fyrir. Og það er engin launung á því að fyrirtæki í sjávarútvegi voru mjög illa stödd vorið 1983. Það var von manna að það væri hægt að lagfæra stöðu greinarinnar á næstu árum. Að því var unnið, en ég leyni því ekki að það hefur verið gengið of nærri stöðu þessarar atvinnugreinar. Þjóðarbúið í heild hefur ætlað sér of mikið og tekið of mikið frá þessari atvinnugrein. Og án þess að ég hafi nokkra aðstöðu til þess að tíunda það hvað hafi komið í hlut hvers, hvort sem það eru bankastofnanir, þjónustufyrirtæki eða aðrir launamenn almennt í þjóðfélaginu, þá hefur sjávarútvegurinn í reynd misst niður afkomu sína núna á síðustu mánuðum.

Það er mín skoðun, vegna þess að hv. þm. spurði um það, að ekki sé aðstaða til annars en að uppsafnaður söluskattur verði endurgreiddur að fullu á árinu 1988. Það er ekki gert ráð fyrir því á fjárlögum og það hefur verið til umræðu í ríkisstjórninni með hvað hætti sé hægt að standa að því og það er ekki komin niðurstaða í það mál.

Hitt er svo annað mál að það eitt sér er ekki nægilegt til þess að frystiiðnaðurinn búi við viðunandi skilyrði. Það hefur sem betur fer verið svo á undanförnum árum að það hafa verið verulegar hækkanir á mörkuðum og þar af leiðandi hefur þessi iðnaður getað staðið undir vaxandi kostnaði. Því er ekki lengur til að dreifa. En það er að sjálfsögðu umhugsunarvert að á sama tíma og staðan er þessi skuli vera jafnmikil almenn kröfugerð í okkar þjóðfélagi. Þótt ég sé vissulega þeirrar skoðunar að það þurfi að leiðrétta hlut þeirra sem minnst hafa þá er það staðreynd að það er mikil og almenn kröfugerð í landinu sem þessi undirstöðugrein getur ekki staðið undir.

Það standa nú yfir viðkvæmar samningsumræður á vinnumarkaðnum sem munu hafa mikið að segja fyrir framvinduna í málefnum sjávarútvegsins. Ég vænti þess að þar fáist farsæl lausn og í framhaldi af því verði hægt að sjá fram úr því að frystiiðnaðurinn búi við einhver lágmarksrekstrarskilyrði. Ég hef hins vegar enga trú á því að það séu aðstæður til að þess sé að vænta að þar geti verið verulegur hagnaður, en það hlýtur að vera lágmarkskrafa þeirra, og ég tek undir hana, sem í þessari atvinnugrein vinna að þessi iðnaður búi við hallalausan rekstur þannig að hann fái staðið undir lífsframfæri þeirra fjölmörgu sem vinna í þessari atvinnugrein og hafa allt sitt lífsframfæri frá henni.

Ég geri mér grein fyrir því, herra forseti, að hér er ekki um fullnægjandi svör að ræða. Ég get því miður ekki svarað neitt frekar um það á þessu stigi með hvaða hætti niðurstaða fæst í þessum málum. Þar er því miður of mikil óvissa, óvissa sem þarf að eyða. En ég skil mjög spurningar og í reynd þá um leið áhyggjur hv. þm. og ég vænti þess að bæði við hér á Alþingi og ríkisstjórn, aðilar á vinnumarkaði og aðrir muni haga þannig málum á næstunni að það verði viðunandi fyrir sjávarútveginn.