16.02.1988
Neðri deild: 58. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4615 í B-deild Alþingistíðinda. (3209)

243. mál, aðgerðir í sjávarútvegi

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. sjútvrh. fyrir svörin eða tilraun hans til að svara hér. Og ég segi bara að ég er tilbúinn til að taka þar viljann fyrir verkið. Það er greinilegt að hæstv. ráðherra treystir sér ekki mikið út í það að svara hvaða efnahagsráðstafanir, ef einhverjar, eru á dagskrá hjá ríkisstjórninni og þá út frá sjávarútveginum sérstaklega. Það er e.t.v. skiljanlegt. Hér eru því miður hvorki hæstv. fjmrh. né hæstv. forsrh. En mér segir svo hugur um að það hefði litlu breytt svo oft hefur verið reynt að spyrja þá hæstv. ráðherra undanfarnar vikur um það hvað ríkisstjórnin hyggist fyrir í þessum stærstu dráttum efnahagslífsins algjörlega án nokkurs minnsta árangurs. Það er ekki að sjá að hæstv. ríkisstjórn hafi vott af efnahagsstefnu, vott af því að vita hvað hún hyggst fyrir í þessum efnum. Svarið er ævinlega eitt og hið sama: Ef nú nást kjarasamningar þá ætlar ríkisstjórnin að fara að skoða málin. Þá hugsanlega mun ríkisstjórnin gera eitthvað í vaxtamálunum. Þá e.t.v. verður hægt að gera eitthvað og skapa sjávarútveginum þolanlega rekstrarstöðu eða einhverja lágmarksrekstrarafkomu eða hvað sem það nú á að heita.

Ég held að það sé merkilegt, herra forseti, að upplifa sig í þessari aðstöðu hér á þessu herrans ári eftir þann langa góðæriskafla sem ekki hvað síst hefur nú komið fram í sjávarútveginum eða verið sprottinn úr góðæri í sjávarútveginum. Og ef maður fer yfir hvað hefur einkennt stöðu sjávarútvegsins sl. missiri alveg fram undir það síðasta þá má segja að í fyrsta lagi hafi verið mikill afli, meiri afli en oftast áður, í öðru lagi óvenjulágt olíuverð, í þriðja lagi hátt verð á mörkuðum okkar erlendis og í fjórða lagi mjög mikil eftirspurn eftir okkar framleiðsluvörum. Þannig hefur þetta í raun og veru allt hjálpast að til að skapa einhverja mestu uppsveiflu í íslenskum sjávarútvegi sem menn hafa lengi búið við. Hefur sem sagt bæði afli og verðmæti verið meiri, hvert metárið rekið annað, eftirspurnin svo mikil að birgðir eru með því minnsta sem þær hafa verið í landinu, eða voru a.m.k. undanfarin tvö ár, algjörlega í lágmarki, o.s.frv. Samt standa menn frammi fyrir því nú á þessu herrans ári nýlega byrjuðu að fjölmörg fyrirtæki í þessari atvinnugrein eru við það að stöðvast eða þegar stöðvuð.

Ég verð að segja alveg eins og er að ég held að tíminn sem hæstv. ráðherra og hæstv. ríkisstjórn hafi sé ekki mjög langur ef ekki á nánast að stöðvast öll frysting í landinu, nema þá hjá nokkrum allra grónustu og öflugustu fyrirtækjunum. Ég er alveg viss um að það dregur núna mjög hratt úr frystingunni og mun draga á þessum vetri. Og hvert einasta fyrirtæki sem hefur til þess einhverja aðstöðu mun flýja í aðra verkun eftir því sem kostur er.

Þau fyrirtæki sem reka bæði frystingu og saltfiskvinnslu færa vinnsluna yfir í saltfiskinn eftir því sem þau geta, o.s.frv. Um þetta þekkja menn dæmin ef þeir hafa heimsótt atvinnufyrirtæki. Rekstraraðstæður einfaldlega knýja menn til þess að gera þetta. Þannig mun þetta á mjög skömmum tíma, ef ekki verður gripið til aðgerða, annars vegar leiða til stöðvunar fyrirtækja og hins vegar til þess að frystingin dregst stórlega saman, jafnvel hjá þeim fyrirtækjum sem áfram eru í rekstri. 30 þús. tonna áætlaður aflasamdráttur í þorskveiðum á þessu ári kemur þar af leiðandi að líkindum allur niður í frystingunni. Ég geri ekki ráð fyrir því að neitt af þeim samdrætti muni bitna annars staðar. Til viðbótar því verður svo örugglega um aukningu að ræða í saltfiskverkun og útflutningi á ferskum ísfiski eftir því sem markaðsaðstæður framast leyfa. Það eru þessar aðstæður sem menn standa m. a. frammi fyrir. Síðan kemur þessi venjulegi söngur um kjarasamningana og hæstv. sjútvrh. tók það upp eins og aðrir hæstv. ráðherrar. Það er nefnilega þannig með borgaralegar ríkisstjórnir að þá sjaldan að þær vakna til lífsins yfir höfuð, þá er það yfirleitt ef fara á að semja um kaup og kjör í löndunum þar sem þær stjórna. Þá vakna þær allt í einu til lífsins og hrökkva upp við það að nú megi ekki hækka launin þá fari allt í strand og allt í kalda kol. Og þetta segir jafnvel hæstv. sjútvrh. eða gefur í skyn, verandi þó fagráðherra þeirrar atvinnugreinar þar sem sennilega er hvergi meiri þörf, nema ef vera skyldi í sumum greinum iðnaðarins, til að hækka launin. Því það mun ganga af þessari atvinnugrein dauðri, sjávarútveginum, fiskvinnslunni, ef ekki verður unnt að gera kjörin þar sæmilega sambærileg við það sem annars staðar gerist. Þetta veit auðvitað hæstv. ráðherrann. Og það er ekki síst þetta fólk sem menn hafa nú áhyggjur af í kjarasamningum. Verkamannasamband Íslands hefur lýst því yfir að það sé alveg sérstakt keppikefli þess í þessum samningum að leiðrétta kjör fiskvinnslufólks. Þannig að ég mundi í sporum hæstv. ráðherra tala dálítið öðruvísi um þessa hluti og leggja fyrst og fremst áherslu á það hvernig hægt sé að skapa atvinnugreininni þau rekstrarskilyrði að hún geti borgað sæmileg laun, en ekki segja: Launin þurfa að vera svo lág að sjávarútvegurinn geti gengið.

Það var merkilegt að hæstv. ráðherra skyldi t.d. ekki nefna vextina hér áðan. Hann talaði að vísu um, ef ég hef tekið rétt eftir, óhóflega lánastarfsemi í landinu og innstreymi erlends lánsfjármagns, og þetta er út af fyrir sig allt rétt. En það sem skiptir auðvitað sköpum og það sem veldur mestu um hvernig rekstrarafkoma fiskvinnslunnar hefur versnað á síðari helmingi ársins 1987 það er ekki launaskrið, vegna þess að það er ekki umtalsvert í þessari atvinnugrein, heldur er það fjármagnskostnaðurinn. Ég er alveg viss um að ef hæstv. ráðherra fer í fyrirtæki, sjávarútvegsfyrirtæki hvar sem er á landinu, og ég held einnig á Hornafirði, mundu rekstraraðilar þeirra fyrirtækja segja við hann: Það sem er okkur langerfiðast núna eru vextirnir. Það er fjármagnskostnaðurinn. Hann er að drepa okkur. Þetta heyrir maður hringinn í kringum landið þegar maður fer í heimsókn í þessi fyrirtæki. Vaxtakostnaðurinn hefur á seinni helmingi sl. árs næstum því tvöfaldast. Þetta er staðreynd. Fjármagnskostnaður fyrirtækjanna er óhóflegur og víða sambærileg og hærri tala en launagreiðslurnar. Og hvers vegna væla menn þá yfir launaskriði? Af hverju er ekki talað um vextina og aðra þá hluti eða rafmagnsverðið t.d. sem þessi fyrirtæki þurfa að borga úti um landið? Það er nefnilega hægt að ráðast á ýmsa aðra útgjaldaliði í þessari atvinnugrein en launin eða skoða ýmsa aðra útgjaldaliði. Og ég held að það væri skynsamlegt við þessar aðstæður vegna þess að það verður engin fiskvinnsla á Íslandi innan tiltölulega fárra ára nema hægt sé að tryggja það að kjörin og starfsaðstæður þar séu sambærileg við það sem gerist annars staðar í þjóðfélaginu. Það er fólksflótti úr þessari grein. Það veit hæstv. ráðherra væntanlega og það er ekki hyggilegt að ætla að bregðast við því m.a. með því að hefja núna upp söng í tengslum við þessa kjarasamninga sem yfir standa í þjóðfélaginu um það að nú þoli þessi grein ekki að launin hækki. Það verður að leysa með einhverju öðru móti.

Það er mikill bagi að því, herra forseti, að hæstv. fjmrh. og hæstv. forsrh. eru ekki hér viðstaddir. Það hefði t.d. verið fróðlegt að leggja ýmsar spurningar fyrir hæstv. fjmrh., sem hélt mikla ræðu einhvers staðar á Suðurnesjum núna um síðustu helgi um stöðu sjávarútvegsins m.a., þar sem ég hygg að hann hafi tekið svo til orða að gengisfelling við þessar aðstæður væri óðs manns æði. Efnislega eitthvað í þá veru. Ég man nú ekki hvaða málblóm hæstv. fjmrh. notaði nákvæmlega þegar hann var að lýsa þessari skoðun sinni, en efnislega var það eitthvað í þá veru að gengisfelling væri óðs manns æði við þessar aðstæður.

Nú hefur hæstv. sjútvrh. upplýst að ekkert liggi fyrir um endurgreiðslu uppsafnaðs söluskatts á árinu 1988. Hæstv. ráðherra minntist ekki heldur til að mynda á launaskattinn. Hæstv. ráðherra minntist ekki á vextina, ekki rafmagnsverðið og ekki aðra slíka hluti sem nefna mætti sem ráðandi þætti í rekstrarafkomu sjávarútvegsins. Hvað stendur þá til að gera? Ekki neitt. Er ekkert á dagskrá þegar kominn er miður febrúar nema flytja hér frv. til að afnema úrelt bráðabirgðalög frá sl. sumri? Er þess ekki að vænta á næstu vikum að neitt komi frá hæstv. ríkisstjórn um þessi efni? Og er það nú trúlegt að það greiði fyrir kjarasamningum, þar m.a. sem verið er að reyna að rétta hlut fiskvinnslufólks, að hæstv. ríkisstjórn skilar gjörsamlega auðu blaði hvað þessa hluti varðar? Hvað varðar einhverja stefnumörkun í efnahagsmálum, einhverja ytri stefnumörkun og líka hvað varðar sértækar ráðstafanir gagnvart sjávarútveginum. Ekki vottur. Gjörsamlega autt blað. Nei, þetta er ekki burðug frammistaða.

Satt best að segja verð ég að vorkenna hæstv. sjútvrh. að þurfa að standa hér uppi við slíkar aðstæður og ég held ég leggi ekki á hann að gera það aftur þannig að ég ætla ekki að spyrja hann frekar. Það er greinilegt að honum er alveg heft tungan, hæstv. ráðherranum. Hann hætti sér a.m.k. ekki út í það að segja hvað hann teldi að ætti að gera, en það hefur nú stundum verið notað í Framsfl. þegar menn eru í vandræðum að grípa þá til sinnar persónulegu skoðunar. T.d. hefur núv. formaður Framsfl. oft og iðulega gert það og ég held að það sé ekkert að því að varaformaðurinn taki líka upp þann hátt þegar hann er í pínulitlum vandræðum og veit að hann getur ekki talað fyrir hönd ríkisstjórnarinnar að prófa þá bara að lýsa sinni persónulegu skoðun. (Gripið fram í: Er það ekki góð hugmynd?) Það er ágætis hugmynd og ég er alveg viss um það að hæstv. sjútvrh. hefur einhverjar persónulegar skoðanir á því hvað þyrfti að gera í sjávarútveginum. En hann er e.t.v. þetta varkárari en hæstv. utanrrh. og formaðurinn að hann fer ekki hér upp undir þeim formerkjum, setur ekki slíkar gæsalappir utan um mál sitt eins og hæstv. utanrrh. er ekkert feiminn við að gera.

Herra forseti. Ég held að kannski hafi það ekki mikið upp á sig að ræða þessi mál frekar. Að mínu mati hefði verið full ástæða til að þetta mál færi til hv. fjh.- og viðskn. Ekki það að ég treysti ekki hv. sjútvn. sem ég skil svo að meiningin sé að fái þetta frv. til skoðunar, en það eru auðvitað hinar efnahagslegu forsendur fyrst og fremst sem hér þurfa skoðunar við. Ég legg á það áherslu að sjútvn. deildarinnar, sem fær þetta til skoðunar, kalli á sinn fund sérfræðinga úr efnahagslífinu og fari ofan í saumana á því hvernig þessar aðstæður eru allar því ég er alveg sannfærður um það að málið þolir enga bið. A.m.k. er það mat þeirra rekstraraðila í sjávarútvegi sem ég hef haft samband við, til að mynda úr mínu kjördæmi, að það sé orðið mjög brýnt að einhverjar línur komi í þessi mál. Menn búa við óþolandi óvissu um framhaldið við þær aðstæður að reksturinn er nánast að stöðvast og mikið tap er á fyrirtækjunum og fólksflótti úr greininni vegna þess hversu lág laun eru greidd þar, reyndar fólksflótti úr þeim landshlutum og af þeim landsvæðum þar sem sjávarútvegurinn er uppistaða atvinnulífsins. Það þarf því ekki að rökstyðja það frekar hversu nauðsynlegt það er að tekið sé á þessum málum. Það mætti orða það svo um þetta efni sérstaklega eins og önnur að Róm væri að brenna. Hún brennur ekki hvað síst í þessum efnum en það bólar ekkert á neinu slökkviliði.

Ég vil svo fara fram á það, herra forseti, að það verði tryggt þegar mál þetta kemur til 2. umr., ef ekki verða á dagskrá hér á hinu háa Alþingi önnur þau mál sem gefa tilefni til og bjóða upp á aðstæður til að ræða rekstrarafkomu sjávarútvegsins, að það verði þá í öllu falli tryggt að ríkisstjórnin verði sæmilega fjölmenn hér á fundunum þegar málið kemur aftur til 2. umr. og þá verði hér bæði hæstv. fjmrh. og hæstv. forsrh. þannig að það verði hægt að ræða við fullskipaða ríkisstjórnina, þá viðkomandi ráðherra sem þessi efnahagsmál heyra sérstaklega undir, þegar við fáum málið hingað aftur til meðferðar.