28.10.1987
Neðri deild: 7. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 470 í B-deild Alþingistíðinda. (321)

47. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Hreggviður Jónsson:

Hæstv. forseti. Það frv. til laga sem nú liggur fyrir er mikið hagsmunamál fyrir fólkið í landinu. Það hefur því vakið athygli að byrjunin á ræðu hæstv. félmrh. sl. mánudag hefur verið mjög til umræðu.

Þau orð sem þar voru höfð í frammi eru mjög einstök þegar haft er í huga að þeim var beint gegn samstarfsflokkum hæstv. félmrh. í ríkisstjórn. Við sem nú sitjum í stjórnarandstöðu erum mjög undrandi á þessu og sjáum fram á það að við þurfum ekki að hafa uppi mikið andóf gegn ríkisstjórninni því það mun hún sjálf gera.

Ég lýsi furðu minni á því að þetta frv. skuli kallast stjórnarfrumvarp eftir öll þau frýjuorð sem hæstv. félmrh. hefur látið falla í garð félaga sinna í stjórnarflokkunum. Sjálfstæðismenn og framsóknarmenn hljóta að svara fyrir sig og það hafa sumir þeirra raunar gert. Það sem vekur einnig alveg sérstaka athygli er að á meðan á ræðu hæstv. félmrh, stóð sl. mánudag höfðu aðrir ráðherrar ekki svo lítið við að hlusta á ræðu hæstv. félmrh. ef undan er skilinn hæstv. dómsmrh.

Þá vakti ræða hv. 1. þm. Vesturl. ekki síður athygli þar sem hann fjallaði í viðamiklu máli um efnisatriði frv. og málsmeðferð á því, samvinnuleysi og sambandsleysi milli stjórnarflokkanna. Af orðum hans er ljóst að hæstv. félmrh. nýtur ekki trausts Framsfl. og ef ummæli hæstv. félmrh. eru rétt skilin og taka á mark á þeim verður niðurstaðan sú að andstaða Framsfl. og Sjálfstfl. þýði afsögn hans. Þær yfirlýsingar Sjálfstfl. sem eru staðfestar með bréfi þingflokksins eftir framlagningu þessa frv. og samþykkt Framsóknarfélagsins í Reykjavík verða ekki misskildar. Frv. nýtur ekki stuðnings stjórnarflokkanna. Hv. 1. þm. Vesturl. ræddi um alvarlegt ástand í meðferð og samningum við lífeyrissjóðina vegna afstöðu hæstv. félmrh. Hann ræddi einnig um að húsnæðismálastjórn hefði ekki tekið afstöðu til þessa frv. Hann gagnrýndi einnig ákvæði til þrengingar á lánareglum. Síðan hafa hér farið fram miklar umræður um þetta mál og það hefur komið mjög greinilega fram að stjórnarliðar telja ekki hægt að samþykkja frv. eins og það er lagt fram og þar sem frv. þetta er ekki mjög mikið að vöxtum liggur ljóst fyrir að það hefur ekki fylgi stjórnarflokkanna.

Ég tel að þegar svo viðamikill lagabálkur, sem segja má að snerti hvert einasta heimili í landinu, er lagður fram í þinginu, þá hefði ríkisstjórnin átt að standa sameiginlega að því. Hún hefði átt að leggja fram frv. sem samstaða hefði verið um í ríkisstjórninni og það hefði verið hægt að fjalla um það út frá því.

Ég mun ekki hafa frekari orð um það en vil vekja athygli á því að bæði forseti ASÍ og varaforseti hafa tjáð sig um þetta frv. og þeir hafa farið mjög hörðum orðum um þetta þannig að það er alveg ljóst að hreyfing launafólksins í landinu styður ekki þetta frv. heldur.

Ég mun á þessu stigi ekki ræða málaflokka þessa frv. ítarlega og ég vil því ekki taka frv. frekar til efnislegrar umfjöllunar þótt hér sé um að ræða mjög viðamikið hagsmunamál fólksins í landinu. Ástæðan er sú að við í Borgarafl. höfum í smíðum nýtt frv. til laga um húsnæðismál og munum leggja það fram mjög fljótlega. Í því verður gripið á þessum málum á nýjan hátt sem við teljum að muni gjörbreyta þessum málum og þá til langrar framtíðar. Frv. þetta verður lagt fram mjög fljótlega hér á hæstv. Alþingi.

Hæstv. forseti. Ég hef þessi orð ekki fleiri um frv. þetta.