16.02.1988
Neðri deild: 58. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4625 í B-deild Alþingistíðinda. (3214)

271. mál, framhaldsskólar

Menntamálaráðherra (Birgir Ísl. Gunnarsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til l. um framhaldsskóla sem lagt hefur verið fram á þskj. 570. Ég vil fyrst fara nokkrum orðum um aðdraganda að þessu frv. Frv. þetta var upphaflega samið af nefnd sem Sverrir Hermannsson þáverandi hæstv. menntmrh. skipaði 8. des. 1985. Í nefndinni áttu eftirtaldir sæti: Magnús Pétursson hagsýslustjóri, tilnefndur af fjmrh., Björn L. Halldórsson lögfræðingur, tilnefndur af borgarstjóra, Björn Friðfinnsson, núverandi aðstoðarmaður dómsmrh., og Ingimundur Sigurpálsson, bæjarstjóri þá á Akranesi en nú í Garðabæ, voru þeir tilnefndir af Sambandi ísl. sveitarfélaga, Jón Böðvarsson, fyrrverandi skólameistari, og Jón R. Hjálmarsson fræðslustjóri, skipaður af menntmrh. án tilnefningar. Formaður nefndarinnar var Birgir Ísl. Gunnarsson alþm., en upphaflega var Eyjólfur Konráð Jónsson alþm. skipaður formaður nefndarinnar en hann óskaði eftir að verða leystur frá því starfi og var Birgir Ísl. Gunnarsson þá tilnefndur formaður þann 13. maí 1986. Með nefndinni starfaði Stefán Ólafur Jónsson deildarstjóri í menntmrn.

Í skipunarbréfi menntmrh. sagði: „Þess er óskað að nefndin semji m.a. sem einn þátt frv. reglur um fjármál framhaldsskóla og skiptingu kostnaðar við stofn og rekstur skólanna sem séu eins skýrar og einfaldar og unnt er. Til álita kemur að allur kostnaður við framhaldsskóla greiðist af ríkisvaldinu, en á móti kæmi hugsanlega að allur kostnaður við grunnskóla greiðist af sveitarfélögum, enda yrði þá að sjá sveitarfélögum fyrir tekjustofnum til að mæta þeim viðbótarkostnaði sem af slíku fyrirkomulagi kynni að leiða.“

Með tilvísun til þessa tók nefndin það sem sitt fyrsta verkefni að semja reglur um stofn- og rekstrarkostnað framhaldsskóla. Eftir því sem leið á nefndarstarfið var nefndin sammála um að óheppilegt væri að semja sérstakt frv. um fjármál framhaldsskóla. Eðlilegra væri að fella ákvæði um fjármálin inn í heildarfrv. um framhaldsskóla og var það gert.

Á síðasta þingi lagði fyrirrennari minn, Sverrir Hermannsson þáverandi hæstv. menntmrh., fram til kynningar á Alþingi frv. það sem nefndin hafði samið. Frv. var eingöngu lagt fram til kynningar og ekki fyrir því mælt, en menntmrn. sendi það síðan til umsagnar fjölmargra aðila. Þeir voru: Bandalag kennarafélaga, Skólameistarafélag Íslands, rektorar, skólameistarar og skólastjórar allra skóla á framhaldsskólastigi, rektor Háskóla Íslands, rektor Kennaraháskóla Íslands, rektor Tækniskóla Íslands, iðnfræðsluráð, iðnfræðslulaganefnd, samstarfshópur um sjávarútvegsskóla, grunnskólanefnd og heilbr.og trmrn.

Alls bárust 36 umsagnir. Umsagnirnar hafa verið yfirfarnar í menntmrn. og frv. breytt nokkuð til samræmis við það sem þar kom fram. Í sérstöku fskj., sem fylgir þessu frv., eru tilgreindar þær breytingar sem gerðar hafa verið á frv. frá því að það var lagt fram á Alþingi í fyrravetur. Að öðru leyti vísast til fskj. sem því frv. fylgdu, þar á meðal nál. í heild ásamt sérálitum svo og til yfirlits um kostnaðaráhrif frv. ef það yrði að lögum.

Engin heildarlöggjöf hefur verið til um framhaldsskólastigið. Það er rúmur hálfur annar áratugur síðan Alþingi samþykkti lög um skólakerfi og lög um grunnskóla. Aformað var að löggjöf um framhaldsskóla kæmi í beinu framhaldi af því. Frv. til l. um framhaldsskóla var lagt fram árið 1976 en náði ekki fram að ganga. Síðan var það endurflutt nokkrum sinnum en dagaði ætíð uppi. Það var einkum ágreiningur um kostnaðarskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga sem stöðvaði framgang frv.

Í grg. með þessu frv. eru rakin helstu einkenni þess og mun ég rekja þau hér á eftir áður en ég ræði einstaka kafla frv. Helstu einkenni frv. eru:

1. Frv. felur í sér rammalöggjöf sem tekur til alls náms á framhaldsskólastigi og undirbýr nemendur undir nám í sérskólum, háskólum og störf í atvinnulífinu.

2. Nám á framhaldsskólastigi er skipulagt í námsáföngum og skal hver áfangi skilgreindur og metinn til eininga í námsskrá sem menntmrn. setur. Framhaldsskólum er skylt að fylgja í meginatriðum ákvæðum námsskrárinnar hvort heldur kennt er samkvæmt áfangakerfi eða bekkjakerfi.

3. Með frv. er stefnt að greinilegri verkaskiptingu en nú er milli menntmrn., skólayfirvalda og starfsmanna skólanna. Það nýmæli er í frv. að gert er ráð fyrir að skólanefnd starfi við hvern skóla. Hlutverk ráðuneytis verði að vinna að heildarstefnumótun, kennslueftirliti og gerð tillagna um fjárveitingar til hvers skóla, en framkvæmd skólastarfs innan ramma námsskrár og fjárveitinga sé í höndum skólanefnda og skólastjórnenda.

4. Stofnkostnaður framhaldsskóla greiðist sameiginlega af ríki og viðkomandi sveitarfélagi eða sveitarfélögum þannig að ríkið greiðir 60% en sveitarfélag/sveitarfélög 40%. Þó er menntmrn. veitt heimild til þess að semja um hærri kostnaðaraðild þegar um búnað verknámshúsnæðis er að ræða.

5. Ríkið greiði rekstrarkostnað framhaldsskólanna.

6. Tryggt er samstarf við atvinnulífið í iðnnámi með iðnfræðsluráði og í sjávarútvegsgreinum með fræðsluráði sjávarútvegsins, sem verða til ráðuneytis um skipulag námsins og kennslueftirlit.

7. Hlutdeild sveitarfélaga og heimamanna að stjórnun skólanna verður í formi aðildar að skólanefndum sem starfa við hvern framhaldsskóla. Þær skulu skipaðar þremur til fimm fulltrúum eftir skólategund og fjölda rekstraraðila. Skólanefndir ákveða skipulag náms og námsframboð ásamt skólameistara. Skólanefnd gerir fjárhagsáætlun í samræmi við fjárlög og ber ábyrgð á að henni sé framfylgt.

8. Skólameistari stjórnar daglegum rekstri skóla og er jafnframt framkvæmdastjóri skólanefndar.

9. Hver skóli verði sjálfstæð rekstrareining. Ríkissjóður greiði laun fyrir kennslu, stjórnun og prófdæmingu beint. Annan rekstrarkostnað greiði ríkissjóður til skóla ársfjórðungslega fyrir fram. Sú meginregla gildi að sama framlag komi á hvern nemanda hvar sem er á landinu með heimild til sérgreinds framlags ef sérstakar aðstæður ríkja.

10. Þar sem nauðsynlegt er að reka heimavist greiði ríkissjóður kostnað við umsjón, tækja- og rekstrarbúnað húsnæðis. Sérstakan rekstrarkostnað heimavistar og mötuneytis greiði nemendur.

11. Samvinnuskólinn og Verslunarskóli Íslands starfi áfram á sama grundvelli og áður og opnuð er heimild fyrir menntmrh. að samþykkja kostnaðarþátttöku við einkaskóla á framhaldsskólastigi.

12. Framhaldsskólum verði heimilt að annast menntun fullorðinna á þeim námsbrautum er skólinn starfrækir, svo og að stofna til sérstakra námskeiða (öldungadeilda). Skulu nemendur greiða sem næst þriðjungi kennslulauna. Einnig verði framhaldsskólum heimilt að efna til eftirmenntunarnáms.

Þetta eru í sem fæstum orðum meginatriði framhaldsskólafrv. Í frv. felst að framhaldsskólarnir fá umtalsvert frjálsræði til ákvörðunar um innihald og þróun náms svo og nokkurt fjárhagslegt sjálfstæði. Þar með er skólunum veitt aðstaða til að taka tillit til staðhátta og atvinnulífs á hverjum stað. Með frv. er reynt að tryggja að framhaldsskólamenntun geti þróast í samræmi við hinar fjölbreytilegu kröfur tímans. Það er síðan verkefni skólanefnda og skólastjórnenda að móta skólastarfið á grundvelli hinna nýju laga og reglugerðar sem síðan verður sett. Ég bind vonir við að uppskeran af þessu verði fjölbreytt og gróskumikið skólastarf og menntalíf og aukin þekking og áhugi nemenda.

Ég mun nú snúa mér að því að rekja einstaka kafla frv.

I. kafli fjallar um gildissvið frv. og er í 1. gr. tekið fram að lög þessi taki til náms á framhaldsskólastigi er taki við af skyldunámsstigi allt til háskólastigs, sbr. 2. gr. laga nr. 55/1974 um skólakerfi. Framhaldsskólar er samnefni þeirra skóla er falla undir lögin. Þeir eru: menntaskólar, fjölbrautaskólar, iðnfræðsluskólar svo og skólar sem veita sérhæft nám á framhaldsskólastigi. Enn fremur framhaldsdeildir við grunnskóla sem menntmrn. heimilar. Einstaka skólastofnanir geta borið sérstakt nafn, t.d. tengt stað, hefð eða sérstöku hlutverki. Tilgreint er að setja skuli reglugerð um sérskóla sem starfa samkvæmt lögum þessum og er þar átt við að sérstök reglugerð verði sett um hvern skóla. Allmargir framhaldsskólar sem undir lög þessi falla eiga sér langa sögu og eru ríkir af hefðum. Það er því sérstaklega tekið fram að einstakar skólastofnanir beri áfram sérstakt nafn, t.d. tengt stað, hefð eða sérstöku hlutverki og er þetta tekið svona ákveðið fram í þessari lagagrein til að forðast allan misskilning um það efni.

Í II. kafla frv. er fjallað um hlutverk framhaldsskóla og það er skilgreint í 2. gr. á eftirfarandi hátt: Að búa nemendur undir nám í sérskólum og á háskólastigi með því að veita þeim þekkingu og þjáll'un í vinnubrögðum. Að búa nemendur undir störf í atvinnulífinu með sérnámi er veiti sérréttindi. Að búa nemendur undir líf og starf í lýðræðissamfélagi með því að veita þeim almenna menntun og efla með þeim félagsþroska. Þetta orðalag hefur tekið nokkrum breytingum frá fyrra frv. en talið var æskilegt að orða hlutverk framhaldsskólans í sem fæstum orðum, en meginmarkmið framhaldsskólans er spunnið af nokkrum þáttum sem eiga helst að vera svo samtvinnaðir að tæpast verði milli þeirra greint.

III. kafli frv. fjallar um stofnun og byggingu framhaldsskóla. Hér er ákveðin sú stofnkostnaðarskipting við byggingarframkvæmdir og stofnbúnað framhaldsskóla að ríkissjóður greiði 60% en sveitarsjóður eða sveitarsjóðir greiði 40% áætlaðs kostnaðar með þeirri undantekningu að þegar um er að ræða stofnbúnað verknámsbrauta er ráðuneytinu heimilt að sækja um hærri kostnaðaraðild ríkissjóðs. Með því er reynt að stuðla að því að verknámsaðstöðu verði komið upp eigi síður en bóknámsaðstöðu, en hún er mun dýrari og þjónar slík námsaðstaða oft stórum landshlutum og jafnvel öllu landinu.

Gert er ráð fyrir að eitt eða fleiri sveitarfélög geti átt aðild að framhaldsskóla á móti ríkinu. Samþykki Alþingis þarf til þess að stofnaður verði nýr framhaldsskóli og samþykki sveitarstjórnar verður einnig til að koma þannig að hún gerist aðili að stofnun skóla. Áskilið er að gera skuli samning milli ríkis og sveitarfélags eða sveitarfélaga um byggingarframkvæmdir vegna framhaldsskóla. Sú staða kann að koma upp varðandi einstaka sérskóla, t.d. skóla með það sérhæft nám að aðeins einn slíkur skóli er til á landinu, að sveitarfélög fáist ekki til þess að verða aðilar að slíkum skóla. Þess vegna er gert ráð fyrir því í lagafrv. að unnt sé að stofna sérskóla án aðildar sveitarfélaga og greiðist þá allur kostnaður úr ríkissjóði.

Sem fyrr segir skal gera samning milli ríkis og sveitarfélaga um nýframkvæmdir og endurbætur húsnæðis vegna framhaldsskóla. Þar skulu m.a. vera ákvæði um stjórn hönnunar og framkvæmda, hönnun, byggingarhraða og greiðslustreymi. Heimilt er að fela sveitarfélögum, sem aðild eiga að framhaldsskóla, að fara með undirbúning og umsjón með byggingarframkvæmdum eins og tíðkast hefur hingað til hafi sveitarfélag til þess burði. Bent skal á að í greininni er heimilað að heimavistir skóla verðir nýttar til gistihúsareksturs utan skólatíma og við hönnun og byggingu húsnæðisins verði tekið tillit til þess. Áskilið er að menntmrn. setji viðmiðunarreglur um stærð og gerð húsnæðis fyrir framhaldsskóla í samráði við Samband ísl. sveitarfélaga.

Ekki er óeðlilegt að menn spyrji hvernig á því standi að gert sé ráð fyrir því að sveitarfélögin taki þátt í stofnkostnaði framhaldsskóla með þessum hætti þegar ríkið tekur alfarið að sér reksturskostnað samkvæmt frv. Meginástæða þessa fyrirkomulags er sú að með því er talið að sveitarfélög verði nokkru ábyrgari í afstöðu sinni til stofnunar framhaldsskóla ef þau þurfa sjálf að leggja fram hluta af stofnkostnaði og það muni væntanlega draga úr óraunhæfum kröfum um byggingu framhaldsskóla í einstökum sveitarfélögum.

Í 4. gr. frv. er fjallað um eignarhlutföll að skólamannvirkjum og varðandi þá grein er rétt að taka fram að gert er ráð fyrir að skólamannvirki sem eru í notkun við gildistöku þessara laga skuli vera eign ríkis og eða sveitarfélaga í sömu hlutföllum og þessir aðilar hafa greitt stofnkostnað mannvirkja. Ekki er gert ráð fyrir að neitt sérstakt uppgjör fari fram milli ríkis og sveitarfélaga varðandi þau mannvirki sem nú eru notuð fyrir framhaldsskóla. Allt nýtt húsnæði sem byggt er verður í sameign með sama eignarhluta og framlög byggingaraðila eru. Sama gildir um viðbyggingar við eldra húsnæði og meiri háttar endurbætur og breytingar.

Hins vegar er tekið fram að verði húsnæði framhaldsskóla ráðstafað til annarra nota en framhaldsnáms þá skuli eignaraðilar gera með sér samkomulag þar um. Verði eign seld öðrum hvorum eignaraðila skal hún metin af dómkvöddum mönnum.

Í IV. kafla, þ.e. 5.–11. gr. frv., er fjallað um stjórn framhaldsskólans. Í 5. gr. er því slegið föstu að menntmrn. fari með yfirstjórn mála sem lög þessi taka til og hafi með höndum námsskrárgerð, kennslueftirlit og ráðgjöf um þróunarstörf í skólum. Enn fremur er staðfest það hlutverk menntmrn. að gera tillögur um fjárveitingu á fjárlögum til hvers skóla, bæði stofnkostnað og rekstrarkostnað. Samkvæmt þessari grein er því gert ráð fyrir að innan skólanna sjálfra fari fram þróunarstörf er snerta framhaldsskólana.

Í 6. gr. er ákvæði um að skipuð skuli samstarfsnefnd framhaldsskóla og í henni séu skólameistarar, rektorar, undir forsæti menntmrh. eða staðgengils hans og skal þessi samstarfsnefnd fjalla um sameiginleg málefni framhaldsskóla og samræma störf þeirra. Gert er ráð fyrir að samstarfsnefnd þessi haldi a.m.k. einn fund árlega.

Í 7. gr. er gert ráð fyrir að skólanefnd sé við hvern framhaldsskóla og er það nýmæli. Gert er ráð fyrir að 3–5 fulltrúar sitji í skólanefnd og ræðst fjöldi þeirra af fjölda rekstraraðila og gerð skóla. Menntmrh. skipar formann, en um tilnefningu hinna skal ákveðið í reglugerð. Þegar um er að ræða skóla sem annast starfsmenntun fyrir atvinnulífið er æskilegt að fulltrúi viðkomandi starfsgreinar eigi sæti í skólanefnd. Með þessu fyrirkomulagi er leitast við að tryggja samstarf ríkis, heimamanna og atvinnulífsins um stjórnun hvers framhaldsskóla. Gert er ráð fyrir að menntmrh. skipi án tilnefningar alla skólanefndarmenn við sérskóla sem stofnaðir kunna að vera án þátttöku sveitarfélaga.

Í 8. gr. er fjallað um verkefni skólanefndanna. Þar kemur fram að skólanefnd og skólameistari marki stefnu í skólahaldi og ákveði námsframboð með samþykki menntmrn. Skólanefnd á að undirbúa árlega ásamt skólameistara tillögur til fjárlaga og senda þær menntmrn.

Í upphafi hvers árs á skólanefnd að gera fjárhagsáætlun í samræmi við niðurstöður fjárlaga og bera ábyrgð á að henni sé framfylgt. Í 3. mgr. er skólanefnd veitt heimild til að ákveða upphæð ýmissa gjalda sem nemendur greiða svo og meðferð þeirra. Gjöld af þessu tagi eru nú þegar innheimt við flesta skóla og teljast hluti af fjárreiðum skólanna. Er því ekki um að ræða neina meginbreytingu frá ríkjandi ástandi, en rétt þykir að festa í lög ákvæði um gjöld þessi. Við ýmsa skóla hafa verið stofnaðir sérstakir sjóðir í ákveðnum tilgangi og kann það að vera nokkuð mismunandi eftir skólum. Því þykir í 4. mgr. þessarar greinar rétt að setja ákvæði um sjóði þessa til að tryggja örugga meðferð þeirra.

Í 9. gr. er fjallað um starfssvið skólameistara eða rektors og fram tekið að skólameistari stjórni daglegum rekstri og starfi framhaldsskóla og gæti þess að starfsemi hans sé í samræmi við lög, reglugerðir, námsskrá og önnur gildandi fyrirmæli á hverjum tíma. Hann á einnig að sjá um framkvæmd þeirra ákvarðana sem skólanefnd tekur.

Í 2. og 3. mgr. þessarar greinar er fjallað um skólaráð sem skuli vera skólameistara til aðstoðar við stjórnun skóla og rekstur hans. Skólaráðið er skipað fulltrúum kennara, nemenda svo og aðstoðarskólameistara ef hann starfar við skólann, en skólameistari á að vera oddviti skólaráðsins. Gert er ráð fyrir að um skipun skólaráðs, verksvið þess, starfstíma og starfshætti skuli nánar kveða á í reglum sem skólanefnd setur. Það er sem sagt gert ráð fyrir því að skólanefnd hvers skóla setji skólaráði reglur, en það kann að vera mismunandi eftir skólum og því er rétt að þetta vald sé í höndum skólanefndanna. Skólaráði er ætlað að vera lýðræðislegur vettvangur umfjöllunar um málefni hvers skóla.

Í 10. gr. er fjallað um nemendaráð sem starfi við hvern framhaldsskóla og sé þar m.a. fulltrúi nemenda í hagsmunamálum þeirra. Kveðið er á um að nemendaráð hafi tillögu- og umsagnarrétt um markmið náms, námsefni og kennslutilhögun í skóla sínum. Samtök nemendanna sjálfra skuli setja reglur um skipan, starfssvið og starfshætti nemendaráðs.

Í 11. gr. er gert ráð fyrir að skólanefnd setji reglur um almenna kennarafundi og verksvið þeirra.

Í V. kafla frv., þ.e. í greinum 12–15, er fjallað um starfslið framhaldsskólanna. Í 12. gr. er ákveðið að um fjölda starfsmanna og skiptingu starfa milli þeirra fari eftir stærð og gerð skóla og fjárveitingu hverju sinni. Að öðru leyti fjallar greinin um hverjir ráða skuli hina einstöku starfsmenn. Menntmrh. setur eða skipar skólameistara eða rektor framhaldsskóla að fengnum tillögum hlutaðeigandi skólanefnda, menntmrh. setur eða skipar fasta kennara að fengnum tillögum skólanefndar og skólameistara en skólameistari ræður stundakennara og aðra starfsmenn í samráði við skólanefnd. Hafi kennari ekki kennsluréttindi skal leita staðfestingar menntmrn.

Í 13. gr. er vísað til ákvæðis laga um lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum grunnskólakennara, framhaldsskólakennara og skólastjóra nr. 48/1986 og þarfnast það ekki sérstakra skýringa.

Í 14. gr. er fjallað um sérstakt orlof kennara sem ákvæði hafa verið um í ýmsum lögum um framhaldsskóla. Sú breyting er hér lögð til að heimilt sé að veita kennara orlof sem starfað hefur í fimm ár ef hann óskar eftir því til að efla þekkingu sína í stað tíu ára starfs eins og verið hefur.

Í 15. gr. eru ákvæði sem ætluð eru til að tryggja nauðsynlega heilsuvernd í framhaldsskólum. Héraðslæknar hafa umsjón með þessari starfsemi undir yfirstjórn heilbrigðisstjórnar og líta eftir að aðbúnaður og aðstaða nemenda og starfsmanna séu viðhlítandi. Þessi ákvæði eru í samræmi við lög nr. 61 1957, um heilsuvernd í skólum.

VI. kaflinn sem er ein grein, 16. gr., fjallar um inntökuskilyrði í framhaldsskóla, kveður á um að allir þeir sem lokið hafa grunnskólanámi eða hlotið jafngilda undirstöðumenntun eigi rétt á að hefja nám í framhaldsskóla. Þá er kveðið á um að nemendum sé skylt að stunda fornám í einstökum námsgreinum samkvæmt ákvæðum í námsskrá hafi þeir ekki náð tilskildum lágmarksárangri. Enn fremur er kveðið á um að heimilt sé að setja lágmarkskröfur í einstökum greinum til inntöku í tiltekna námsáfanga. Í greininni er kveðið á um að nemendur, sem orðnir séu 18 ára og eldri, geti hafið nám í framhaldsskóla án þess að fullnægja framangreindum ákvæðum nema að því er starfsþjálfun varðar. Inntaka nemenda í skóla er á ábyrgð skólameistara.

VII. kafli frv., sem er allmargar greinar, þ.e. 17.31. gr., fjallar um námsskipan í framhaldsskólunum. Í 17. og 18. gr. eru markaðir megindrættir í námsskipan framhaldsskóla. Allt nám skal fara fram innan tiltekinna námsbrauta sem stefna að skilgreindu marki. Skal miða við undirbúning til starfa eða til áframhaldandi náms ellegar hvort tveggja. Til grundvallar liggur skipting námsefnisins í námsáfanga, en áföngum er skipað á námsbrautir eins og fram er tekið í 18. og 19. gr. Ekki þykir eðlilegt að binda í lögum hvaða námsbrautir skuli starfræktar. Það er ljóst að upptalning námsbrauta í lögum getur ekki verið tæmandi nema stutt skeið í senn og þyrfti þá lagabreytingu í hvert skipti til að stofna nýja námsbraut. Með setningu fjárlaga gefst Alþingi jafnan kostur á að hafa úrslitaáhrif á námsframboð.

Fjölbreytni í námsframboði og mismunandi lengd námsbrauta eru mikilvæg atriði, bæði vegna mismunandi áforma nemenda um framhaldsskólanám og til að auðvelda áfangamenntun í þeirri merkingu að fólk eigi þess kost að bæta við sig námi eftir tímabil í starfi. Í ýmsum starfsgreinum hagar og þannig til að kröfur um undirbúning eru mismunandi til starfa innan sömu greinar. Miklu skiptir að markmið hverrar námsbrautar liggi ljós fyrir, þ.e. hvaða hæfniskröfum sé miðað við að nemendur fullnægi.

Í síðustu mgr. 17. gr. er vikið að tveimur undirstöðuatriðum sem skipulagning náms á framhaldsskólastigi beinist að, þ.e. að tryggja að engin námsbraut verði blindgata og að auðvelda samgöngur milli brauta. Þessi markmið eru hvort öðru tengd. Vert er að leggja áherslu á að ekki er kveðið á um að sérhver námsbraut leiði beint inn í háskóla heldur að liggja skuli fyrir hvernig áfram verði komist jafnframt því að fyrra nám nýtist.

Í 18. gr. er fjallað um samhæfingu bóklegs og verklegs náms og er þar átt við hvort tveggja: að námið sé eftir föngum slungið báðum þessum þáttum og að þeir fái stuðning hvor af öðrum í kennslunni. Svigrúm frjálsra valgreina verður trúlega misjafnt eftir námsbrautum, en mikilvægt er að það sé ætíð nokkuð. Þykir eðlilegt að kveða nánar á um námsbrautir í námsskrá.

Í 19. gr. er kveðið á um að nám á framhaldsskólastigi skuli skipulagt í námsáföngum og skuli hver áfangi skilgreindur og metinn til eininga eftir umfangi námsefnis. Öllum framhaldsskólum er skylt að fylgja slíkum ákvæðum, en þrátt fyrir skiptingu námsefnis í áfanga geta skólar, sem þess óska, haldið bekkjakerfi og starfað áfram með líkum hætti og þeir gera nú.

Á þetta vil ég leggja sérstaka áherslu: að skólar geta valið um hvort þeir hafa svokallað áfangakerfi eða bekkjakerfi og tel ég reyndar æskilegt að bæði kerfin séu í gangi á hverjum tíma.

Gert er ráð fyrir að námseining verði skilgreind í námsskrá. Námseining er nú skilgreind sem tvær kennslustundir á viku í eina önn, en þessi skilgreining er gölluð og þarfnast því endurskoðunar. Ekki er talið rétt að binda skilgreiningu námseininga í lögum eins og gerð var tillaga um í því frv. sem lagt var fram á sl. vori.

Í 20. gr. er kveðið á um að í námsskrá sem menntmrn. setur skuli ákveðið með námsáfanga, markmið þeirra, megininntak, umfang og skipan á námsbrautir. Þótt ekki sé það berum orðum tekið fram í frv. er reiknað með að við setningu námsskrár muni menntmrn. eins og verið hefur hafa samráð við skólastjórnendur, iðnfræðsluráð, fræðsluráð sjávarútvegsins, faggreinafélög og fleiri aðila sem láta sig nám á sínu sviði varða.

Í 21. gr. er mælt fyrir um að í námsskrá skuli sett ákvæði um námsmat, m.a. próf og vitnisburði. Fyrri hugmyndir hafa gengið út á að ákvæði um þessi atriði yrðu sett í reglugerð. Er talið fara betur á því að mælt sé fyrir um þetta í námsskrá. Þá er og sú nýjung að fyrir er mælt að nemendur skuli hafa rétt til þess að sjá prófúrlausnir sínar.

Í 22.–25. gr. er fjallað um iðnnám. Við samningu þeirra var byggt á einróma tillögum sérstakrar nefndar sem menntmrh. skipaði til að gera tillögur um skipan iðnnáms.

Í 22. gr. er gert ráð fyrir að menntmrh. skipi iðnfræðsluráð til fjögurra ára í senn og skal það vera til ráðuneytis um heildarmótun og skipulag í iðnfræðslu, löggiltum iðngreinum og verksmiðjuiðnaði. Sú breyting er gerð á stöðu iðnfræðsluráðs frá fyrri lögum að nú er það ráðgefandi í stað þess að það hafði áður umsjón með framkvæmd iðnfræðslunnar. Þau verkefni, sem iðnfræðsluráð hafði áður, færast til ráðuneytis, skólanefnda og skólanna. Eigi að síður er tryggt að þeir sem starfa í iðnaði, bæði atvinnurekendur og launþegar, hafi áhrif á stefnumörkun í iðnfræðslu. Þar sem hluti af iðnfræðslu fer fram úti í atvinnulífinu eru þessi tengsl mikilvæg. Gert er ráð fyrir að kveðið verði á um verksvið iðnfræðsluráðs í reglugerð.

Í 23. gr. er gert ráð fyrir að menntmrh. skipi fræðslunefndir í einstökum iðngreinaflokkum til fjögurra ára í senn. Hér er um verulegar breytingar að ræða frá fyrri skipan þegar skipaðar voru fræðslunefndir fyrir hverja iðngrein. Þessi breyting er gerð til að tryggja nauðsynlega samræmingu og hagkvæmni á námsskipan iðn- og tæknibrauta.

Í 24. gr. er kveðið á um að heimilt sé áfram að gera námssamning milli iðnmeistara og iðnnema. Þá er veitt lagaleg heimild til að skólanefnd geti gert samning við iðnmeistara, fyrirtæki eða stofnun um að annast tiltekna þætti verklegrar menntunar í samstarfi við framhaldsskóla. Í reglugerð skal svo kveða á um m.a. gerð námssamninga, próf og starfsréttindi. Heimilað er áfram að ganga undir verklegt sveinspróf í iðngrein langskólanáms ef ákveðnum skilyrðum er fullnægt. Með þessu ákvæði er verið að tryggja mönnum sem lengi hafa starfað í iðngrein rétt til að þreyta sveinspróf sem veitir takmarkaðan rétt til að starfa í iðngreinum.

Í 25. gr. er það nýmæli að menntmrn. er gert skylt að halda uppi framhaldsnámi fyrir iðnsveina til meistaraprófs. Auknar kröfur eru gerðar til þeirra sem fá verktakaheimild og af þeim sökum þótti rétt að setja þetta ákvæði í lög. Nánari ákvæði skal svo setja í námsskrá fyrir meistarapróf.

Í 26. gr. er nýmæli, en þar er gert ráð fyrir að menntmrh. skipi sérstakt fræðsluráð sjávarútvegs og skuli það skipað fulltrúum ýmissa aðila sem tengjast sjávarútvegi og fiskvinnslu. Greinin er í meginatriðum í samræmi við tillögur sem nefnd á vegum menntmrh. og sjútvrh. um skipulag fræðslumála sjávarútvegs lagði fram. Með þessu fyrirkomulagi er reynt að tryggja samstarf skóla og atvinnulífs á þessu sviði á sama hátt og leitast er við að gera í iðnnámi.

Í 27. gr. er menntmrn. veitt heimild til að skipa sérstakar ráðgjafarnefndir til að móta heildarstefnu í námi á öðrum sviðum en í iðnaði og sjávarútvegi. Þetta er enn ein tilraun þessa frv. til að reyna að tryggja nánar tengsl atvinnulífs og skóla. Ýmis lagaákvæði gera ráð fyrir því að ákveðið nám sé skilyrði fyrir atvinnuréttindum.

Í 28. gr. segir að slíkt nám skuli skipulagt í samvinnu við stofnanir eða við sérskóla á framhaldsskólastigi sem starfa samkvæmt sérstökum reglugerðum. Dæmi um slíkt er t.d. nám á ýmsum sviðum heilbrigðismála. Þarna er og ítrekuð sú meginstefna sem víðar kemur fram í frv. að auk starfsréttinda skuli nám á framhaldsskólastigi veita rétt til frekara náms.

Í 29. gr. er kveðið á um skólasafn og ákveðið að í hverjum skóla skuli vera slíkt safn. Hlutverk skólasafns er að vera upplýsingamiðstöð fyrir kennara og nemendur og virkur þáttur í fræðslustarfi skólans. Nú á dögum er brýnt að einstaklingurinn sé sjálfur fær um að afla sér nauðsynlegrar þekkingar og því er æ meiri áhersla lögð á að gera nemendur sjálfstæða í öflun upplýsinga og notkun heimilda. Þessi sjálfstæðu vinnubrögð krefjast vel búinna skólasafna, þ.e. fjölbreytts safnkosts, menntaðs starfsliðs og góðrar vinnuaðstöðu.

Í 30. gr. er stefnt að því að tryggja fötluðum og þroskaheftum ungmennum námsmöguleika á framhaldsskólastigi hliðstætt því sem lög mæla fyrir um á grunnskólastigi. Tilhögun starfseminnar getur orðið með ýmsum hætti eftir aðstæðum. Væntanlega þætti þó æskilegt að hún færi fram innan vébanda framhaldsskólanna sjálfra eða í tengslum við þá eftir því sem framast yrði við komið en undir umsjón og með stuðningi sérhæfðra stofnana. Vísir að starfsemi af þessu tagi er þegar fyrir hendi, m.a. á vegum Heyrnleysingjaskólans, sbr. lög nr. 70/1978, og meðal þeirra aðila sem annast kennslu blindra.

Í 31. gr. er kveðið á um að starfstími framhaldsskóla verði eigi skemmri en níu mánuðir. Eins og nú er háttað er starfstíminn bundinn við ákveðinn vikufjölda. Þá er gert ráð fyrir að menntmrn. gefi út árlegar reglur um nánari skiptingu starfstíma.

Í VIII. kafla frv., 32.–34. gr., er fjallað um rekstur framhaldsskóla. Þar er því slegið föstu að ríkissjóður greiði allan rekstrarkostnað framhaldsskóla og að hver skóli skuli vera sjálfstæð rekstrareining og hafa sérgreinda fjárveitingu á fjárlögum. Til þessa hefur það verið nokkuð mismunandi hvernig rekstrarkostnaður skóla hefur verið greiddur. Ýmist hefur ríkissjóður einn staðið straum af rekstrarkostnaði framhaldsskóla eða samvinna hefur verið milli ríkis og sveitarfélaga um reksturinn. Hér er gert ráð fyrir þeirri breytingu að ríkissjóður einn skuli greiða rekstrarkostnað framhaldsskóla.

Í 32. gr. er rekstrarkostnaður skóla greindur í tvo meginþætti, þ.e. launakostnað sem nánar er skilgreindur í 1. tölul. 2. mgr. en síðan annan rekstrarkostnað og er það nýmæli að annar rekstrarkostnaður en launakostnaður skuli greiddur til skóla ársfjórðungslega fyrir fram. Enn fremur er kveðið á um það að fjárveitingum vegna 1. og 2. tölul. skuli haldið aðgreindum og að eigi megi skerða fjárveitingu til annars rekstrarkostnaðar en launakostnaðar þótt kostnaður vegna 1. tölul. fari fram yfir fjárveitingu enda sé umfang starfsemi í samræmi við samþykkta áætlun. Með þessu á að vera tryggt að annar rekstrarkostnaður en launakostnaður gangi til skólanna og að skólarnir hafi sjálfstæði til að ráðstafa því fjármagni innan ramma áætlunar. Með því m.a. er skólastjórnendum veitt hvatning til að spara á ákveðnum liðum og fá þá að njóta þess á öðrum, en hingað til hefur viljað brenna við að ef skólastjórnendur spara á einhverjum rekstrarkostnaði hefur skólinn ekki fengið að njóta þess en fjármagnið hreinlega verið tekið af skólanum.

Gert er ráð fyrir að launakostnaður verði eins og áður greiddur beint til starfsmanna úr ríkissjóði. Tekið er fram að skólameistara er heimilt með samþykki skólanefndar að flytja fjárveitingar milli kostnaðarliða innan þess sem telst annar rekstrarkostnaður, þannig að framlag ríkissjóðs nýtist sem best þörfum skólans.

Í 32. gr. er og heimilað að ráða til framhaldsskóla sérstakan fjármálafulltrúa til að annast fjárreiður skólans. Ákvæði um slíkan starfsmann hafa ekki áður verið í lögum þó að fjármálafulltrúar hafi starfað við nokkra skóla. Gert er ráð fyrir því að starf fjármálafulltrúa geti verið hlutastarf þótt ekki sé það berum orðum sagt í frumvarpsgreininni.

33. gr. fjallar einkum um rekstur heimavista og er við það miðað að allar meginreglur þar um verði óbreyttar. Sums staðar hafa nemendur greitt lítils háttar gjöld í heimavistarsjóð til þess að standa undir kostnaði við þjónustu sem þeir hafa sjálfir gengist fyrir eða tekið nokkra ábyrgð á skemmdum. Um þetta hafa engar sérstakar reglur gilt. Um aksturskostnað þar sem um skipulagðan akstur hefur verið að ræða hefur gilt sú framkvæmdaregla að nemendur hafa sjálfir greitt ígildi strætisvagnafargjalda á Reykjavíkursvæðinu en viðbótarkostnaður hefur skipst að jöfnu milli ríkis og sveitarfélaga.

Hvað varðar mötuneyti framhaldsskóla hafa nemendur sjálfir greitt launa- og hráefniskostnað en rekstraraðilar skóla lagt til aðstöðu og orku. Ástæða þótti til að tengja ofantalin gjöld öðrum kostnaði sem nemendum er gert að greiða, sbr. það sem fram kemur í 8. gr. frv., og er ráð fyrir því gert að í reglugerð sem menntmrn. setur samkvæmt lögum þessum verði sett ítarleg ákvæði um kostnaðarþátttöku nemenda í rekstri framhaldsskóla. Fram er tekið í lagagreininni að hagnaður af leigu skólahúsnæðis skuli renna til viðhalds og endurnýjunar húsnæðis og búnaðar.

Í 34. gr. er leitast við að setja almennar viðmiðunarreglur um ákvörðun fjárveitinga til kennslu í framhaldsskólum. Vegna mismunandi eðlis náms er erfitt að setja fastar viðmiðunarreglur, en hér er miðað við grunntöluna 1,7–2 kennslustundir á viku á hvern nemanda í fullu bóknámi og fer eftir stærð og gerð skóla hvaða viðmiðunartala skal notuð innan þess ramma. Þessu til viðbótar skal koma stundafjöldi sem nauðsynlegur er til þess að halda megi uppi kennslu í viðurkenndu verknámi og sérnámi er krefst skiptingar nemenda í smærri námshópa. Menntmrn. setji reglur um hvaða greinar skuli teljast verknám og sérnám, hvernig skuli ákveða grunnfjárhæðir vegna kennslu og annarrar launavinnu og hvernig skuli ákveða grunnframlag vegna almenns rekstrarkostnaðar.

Í IX. kafla, þ.e. 35.–36. gr.,, er fjallað um fullorðinsfræðslu og eftirmenntun. Í 35. gr. er kveðið á um að heimilt sé framhaldsskólum að veita þeim sem orðnir eru 18 ára að aldri aðgang að einstökum námsáföngum dagskóla án tillits til þess hvort þeir uppfylla skilyrði til inntöku að öðru leyti. Einnig er framhaldsskólum heimilt að stofna til sérstakra námskeiða, þar á meðal kvöldskóla eða öldungadeilda, fyrir fólk sem hentar ekki að sækja reglubundna kennslu í skóla en æskir að ljúka námi hliðstæðu því sem í boði er á námsbrautum hans. Fyrir slíka kennslu skulu nemendur greiða kennslugjald sem svarar til sem næst þriðjungs kennslulauna.

Á síðari árum hefur eftirspurn og þörf fullorðinna aukist fyrir margvíslegt nám. Með ákvæðum þessarar greinar er reynt að mæta þessari vaxandi þörf með því móti að nýta skólana betur til að sinna henni en áður hefur verið. Gert er ráð fyrir að nemendur, sem orðnir eru 18 ára eða eldri, geti stundað nám í einstökum áföngum án þess að vera reglulegir nemendur skólanna. Þá er gert ráð fyrir að öldungadeildir starfi áfram og heimild er veitt til að skólar stofni til sérstakra námskeiða sem gætu nýst fólki í starfi. Segja má að ákvæði þessarar greinar séu nýmæli í löggjöf, en í framkvæmd hafa framhaldsskólarnir rekið starfsemi af þessu tagi þannig að í raun er hér ekki um nýmæli að ræða.

Í 36. gr. er hins vegar nýmæli. Ráðgert er að framhaldsskólar geti efnt til eftirmenntunarnáms í samráði við faggreinafélög, stéttarfélög og atvinnurekendur og er það þáttur í viðleitni þessa frv. til að treysta tengsl atvinnulífs og skóla. Það er mjög æskilegt að framhaldsskólarnir fari meira inn á þá braut að veita eftirmenntun af ýmsu tagi og starfsþjálfun og þá þarf sú starfsemi að þróast í samræmi við aðstæður og kröfur á hverjum stað, en atvinnulíf er með mismunandi hætti á hinum ýmsu stöðum á landinu og því kann hér að vera um mjög fjölbreytta starfsemi að ræða.

Í X. kafla eru ýmis ákvæði og er þar fyrst 37. gr., en í henni er staðfest að Samvinnuskólinn og Verslunarskóli Íslands hafi rétt til að reka áfram það fræðslustarf sem þeir hafa annast og til að auka það og sérhæfa eftir því sem aðstæður leyfa og þörf krefur. Gert er ráð fyrir að staða þessara skóla verði sem líkust því sem hún er í dag. Í þessari grein eru tekin upp aðalatriði núgildandi laga um viðskiptamenntun á framhaldsskólastigi, nr. 51/1976, en þessir tveir skólar hafa starfað á grundvelli þessara laga. Gert er ráð fyrir að skólanefndir starfi við Samvinnuskólann og Verslunarskóla Íslands, en í stað sveitarfélaga í öðrum framhaldsskólum skuli eignaraðilar tilnefna aðra skólanefndarmenn en þann sem menntmrh. skipar.

Ekki er fastákveðið í þessari frumvarpsgrein hversu margir skuli skipa skólanefndir þessara tveggja skóla. Rétt er að taka fram varðandi Verslunarskóla Íslands að ríkissjóður hefur ekki tekið þátt í stofnkostnaði þess skóla, en inn í kennslukostnaðinn hefur hins vegar verið reiknuð leiga sem ríkissjóður hefur greitt. Ekki eru fyrirhugaðar neinar breytingar á því þótt ekki sé það berum orðum fram tekið í frumvarpsgreininni.

Í 38. gr. eru sett inn hliðstæð heimildarákvæði varðandi einkaskóla og eru í lögum um grunnskóla, þ.e. að skólar sem stofnaðir eru af einkaaðilum eða samtökum með hliðstæðum hætti og nú er um Verslunarskóla Íslands og Samvinnuskólann geti fengið framlag úr ríkissjóði samkvæmt ákvörðun Alþingis og er nánar kveðið á um skilyrði þess í greininni.

Í 39. gr. er ákvæði um að heimilt sé að lána skólahúsnæði til félagsstarfs utan reglulegs skólatíma samkvæmt almennum reglum um slíka ráðstöfun húsnæðis sem skólanefnd setur.

Í 41. gr. eða XI. kafla laganna eru talin upp lög sem lagt er til að falli úr gildi við gildistöku þessara laga, m.a. nokkur lög um sérskóla á framhaldsskólastigi.

Í 1. gr. frv. er kveðið á um að setja skuli sérstaka reglugerð um hvern sérskóla. Þá er og rétt að ítreka það sem segir í 1. gr. frv. að einstakar skólastofnanir geti borið sérstakt nafn, t.d. tengt stað, hefð eða sérstöku hlutverki, þótt sérlög sem nú gilda um þá skóla verði felld úr gildi. Hér koma að sjálfsögðu mörg álitaefni til greina og var það nokkuð vandaverk og tilefni allmikillar umhugsunar hvaða lög ætti að fella úr gildi með gildistöku þessara laga. Ég vil því fara um það mál nokkrum orðum.

Athygli skal vakin á því að lagt er til að lög um Hjúkrunarskóla Íslands falli úr gildi, en sá skóli hefur hætt störfum og hjúkrunarnámið færst á háskólastig. Enn fremur er lagt til að lög um hjúkrunarskóla í tengslum við Borgarspítalann falli úr gildi og er eðlilegt að kennsla sú sem þar hefur farið fram færist til Háskóla Íslands.

Ekki er lagt hér til að fella úr gildi lög um Íþróttakennaraskóla Íslands. Hann brautskráir nú nemendur með hliðstæðum hætti og Kennaraháskóli Íslands og nauðsynlegt virðist því að endurskoða lög um þann skóla og fella þau að lögum um Kennaraháskóla Íslands.

Lagt er til að lög um Hússtjórnarkennaraskóla Íslands falli úr gildi, enda hefur skólinn ekki tekið nemendur síðustu árin. Nauðsynlegt er hins vegar að fella hússtjórnarkennaranám inn í Kennaraháskóla Íslands eins og verið hefur í raun að undanförnu.

Nokkrir sérskólar gegna alveg sérstöku og afmörkuðu hlutverki sem fellur illa að skipulagi almennra framhaldsskóla, auk þess sem sumir þeirra veita menntun er liggur að nokkru leyti ofan framhaldsskólastigsins. Því er ekki lagt til að felld séu úr gildi lög um eftirtalda skóla: Fósturskóla Íslands, Ljósmæðraskóla Íslands, Þroskaþjálfaskóla Íslands, Leiklistarskóla Íslands, Myndlista- og handíðaskóla Íslands, Stýrimannaskólann í Reykjavík, Vélskóla Íslands og Fiskvinnsluskólann í Hafnarfirði. Hins vegar er nauðsynlegt að endurskoða lögin um þessa skóla og afmarka starfssvið þeirra í samræmi við lög um framhaldsskóla. Menntmrn. hefur þegar sett af stað endurskoðun laga um Fósturskóla Íslands, um Leiklistarskóla Íslands og Myndlista- og handíðaskóla Íslands.

Í janúar 1986 var skipaður starfshópur á vegum menntmrn. og sjútvrn. til að athuga grundvöll að stofnun sjávarútvegsskóla er taki til náms þess sem nú er veitt í Stýrimannaskólanum í Reykjavík, Vélskóla Íslands og Fiskvinnsluskólanum í Hafnarfirði. Starfshópurinn hefur nú skilað álitsgerð um málið og er hún til athugunar hjá ráðuneytunum.

Samkvæmt lögum nr. 55/1974, um skólakerfi, skiptist skólakerfið í þrjú stig, þ.e. grunnskólastig, framhaldsskólastig og háskólastig. Þessi skipting er að sumu leyti óheppileg þar sem hún ýtir undir það að reynt sé að skilgreina nám annaðhvort á framhaldsskólastigi eða háskólastigi. Hins vegar er ljóst að ýmsar námsbrautir tilheyra hvorugu stiginu einvörðungu, heldur liggja bæði á framhaldsskólastigi og háskólastigi. Dæmi um þetta er t.d. Tækniskóli Íslands og vissar brautir á sviði iðn- og tæknináms, listnám o.fl. Skólar sem starfa á sviði búnaðarfræðslu falla í þennan flokk. Sumir þeirra starfa bæði á framhaldsskólastigi og á háskólastigi. Stjórn þessara skóla fellur undir landbrn. Af þessum ástæðum m.a. er ekki lagt til að lög um búnaðarfræðslu og Garðyrkjuskóla ríkisins verði felld niður.

Hér er um að ræða svið innan skólakerfisins sem ekki hefur verið hugað nægilega að til þessa en ýmislegt bendir til að nauðsynlegt sé að efla, m.a. með tilliti til undirbúnings vegna sérhæfðra starfa í atvinnulífinu. Það kæmi því til greina að skipta skólakerfinu í fjögur stig í stað þriggja, þ.e. grunnskólastig, framhaldsskólastig, sérskólastig og háskólastig. Sérskólastig lægi að hluta til á framhaldsskólastigi og að hluta á háskólastigi. Á sérskólastigi væru skólar sem veittu sérhæfða menntun og þjálfun til undirbúnings starfa í atvinnulífinu og gerðu að inntökuskilyrði eins til þriggja ára almennt nám í framhaldsskóla. Slíkt fyrirkomulag er alþekkt erlendis, en hér hefur þetta ekki verið skilgreint sem afmarkaður hluti skólakerfisins. Miðað við þessa skiptingu væri ekki rétt að fella lög um sérskóla úr gildi og frv. sem hér liggur fyrir mundi þá aðeins taka til iðnfræðslu og almenns framhaldsnáms. Þetta mál þarfnast þó meiri undirbúnings og er því ekki lagt til að farið verði inn á þessa braut að sinni, en reikna má með að við endurskoðun ýmissa laga um sérskóla sem nú stendur yfir verði nauðsynlegt að breyta lögunum um skólastig til að mæta þessum þörfum.

Herra forseti. Ég hef í stórum dráttum gert grein fyrir efni þess lagafrv. sem hér liggur fyrir um framhaldsskóla. Ég gat þess áðan að frv. það sem lagt var fram á síðasta alþingi hefði farið til umsagnar margra aðila sem fjalla um skólastarf í framhaldsskólum. Umsagnir þessar liggja fyrir í ráðuneytinu og er að sjálfsögðu eðlilegt að þingnefnd sú sem fær mál þetta til meðferðar fái þær umsagnir í hendur, en einnig hafa verið gerðir útdrættir úr umsögnunum þar sem þær eru flokkaðar eftir greinum frv. þannig að auðvelt er að sjá hvernig viðbrögð voru hjá umsagnaraðilum við hinum ýmsu greinum þess. Einnig vil ég ítreka að ég vísa til gagna sem fylgdu frv. sem lagt var fram á síðasta þingi.

Það er öllum ljóst að brýn þörf er á að setja lög um framhaldsskóla í landinu. Undirbúningur slíkrar lagasetningar hefur staðið í langan tíma og reyndar hafa verið gerðar tilraunir til að fá slík lög samþykkt en þær ekki tekist. Mér virðist af undirtektum undir þetta frv. hjá skólamönnum að í meginatriðum sé samstaða um aðalatriði þessa frv. Sjálfur tel ég að það marki tímamót varðandi framhaldsskóla í landinu. Ég geri mér fullkomlega grein fyrir að í slíku frv. sem að miklu leyti er nýsmíði eru allmörg álitamál og ég er að sjálfsögðu reiðubúinn til viðræðna við þingnefndir um skynsamlegar breytingar á frv. en ég tel hins vegar mjög brýnt að afgreiða þetta mál á þessu þingi og vænti góðs samstarfs við hv. þingdeild og þá þingnefnd sem fær mál þetta til meðferðar.

Ég vil að lokum, herra forseti, leggja til að máli þessu verði vísað til 2. umr. og menntmn. að lokinni þessari 1. umr. hér í deildinni.