17.02.1988
Efri deild: 58. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4673 í B-deild Alþingistíðinda. (3224)

281. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Jóhann Einvarðsson:

Herra forseti. Það mál sem hér er til umræðu, sá kafli laganna um Húsnæðisstofnun ríkisins sem varðar skyldusparnað ungs fólks, er að mörgu leyti merkasti kafli þeirra laga. Það er út af fyrir sig alveg rétt að hann hefur ekki allar götur alltaf náð tilgangi sínum. Ég átti þess kost að starfa um tíma í félmrn., sem hafði með þessi mál að gera, og eins og kemur fram í meðfylgjandi töflu var skyldusparnaður ungs fólks neikvæður nokkur ár í röð og mörg ár þar á undan eins og hægt er að fletta upp aftar. Þá var reglunum nokkuð breytt og dregið úr þeim undanþágum sem eru til þess að ungt fólk geti fengið skyldusparnað sinn út. Það hefur þó haft þau áhrif að tvö síðustu árin hefur skyldusparnaðurinn verið jákvæður.

Ég viðurkenni að það má deila um hver er rétt ávöxtun í þessu og ég hygg að meðan Húsnæðisstofnun ríkisins, byggingarlánakerfið, er að taka lán með 7 og jafnvel 8% vöxtum auk verðtryggingar sé ósanngjarnt að borga unga fólkinu ekki nema 3,5%.

Það eru tvær meginástæður fyrir þessum skyldusparnaði. Önnur ástæðan er að fjármagna húsnæðislánakerfið og hin er að auðvelda ungu fólki að eignast íbúð þegar þar að kemur. Við vitum um fjöldamörg dæmi þar sem þetta hefur létt mjög á ungu fólki þegar það byggir. Ásóknin í þessu lífsgæðakapphlaupi í að fá sína peninga út ef það stundar eitthvert nám hefur hins vegar verið alveg með eindæmum þannig að ásóknin á þeim tímum er mjög mikil. En að hætta þessu í eitt skipti fyrir öll er ekki einfalt verk. Ég man ekki töluna eins og hún er, en síðast þegar ég vissi til, meðan ég enn starfaði í ráðuneytinu, en það er komið talsvert á annað ár síðan, voru 1,2 milljarðar inni í húsnæðislánakerfinu. Ég hygg að það sé orðið nær því að vera jafnvel 1,5 eða hærri tala sem inni stendur þarna í dag.

Ég held að tilgangurinn með frv. sé góður, en ég hygg að það að byggja leiguíbúðir fyrir ungt fólk eigi eftir að valda vandkvæðum í kerfinu að ýmsu leyti. Það er í fyrsta lagi afar flókið mál að ganga frá því, bæði pappíranna vegna eins og kom fram hjá síðasta ræðumanni og ekki síður vegna þess að við erum í raun að skipta niður sama fjármagninu til húsbygginga í þjóðfélaginu og enn er inni í húsnæðislánakerfinu. Við erum með Byggingarsjóð verkamanna, við erum með Byggingarsjóð ríkisins, við erum með lán til leiguíbúða sveitarfélaga, til ýmissa sérþarfa, við lánum verulegt fjármagn til Félagsstofnunar stúdenta í leiguíbúðir fyrir námsmenn. Nú er verið að tala um að bæta við einu atriðinu enn þar sem eru svokallaðar kaupleiguíbúðir. Ég held að leiguíbúðir fyrir ungt fólk og að flokka fólk áfram niður á almennum markaði muni auka enn þau vandkvæði sem eru á að skipta þó þessu ákveðna fjármagni niður og trúlega valda aukinni spennu á höfuðborgarsvæðinu í byggingarmálum umfram það sem er. Ég held því að það sé það hagkvæmasta sem verði gert í þessu: Annað tveggja að hætta þessu, sem ég tel útilokað, enda ekki skynsamlegt að standa gegn sparnaði á einn eða annan hátt, eða, og ég held að sú leið væri einna vænlegust, að lækka þá prósentu sem unga fólkið er skyldugt til að spara og draga verulega úr þeim undanþágum sem eru og m.a. að fella niður aðrar undanþágur en þar sem er um veikindi að ræða, alvarleg veikindi, örkuml eða eitthvað í þeim dúr, hjúskap húsbyggingar og einstæða foreldra svo að eitthvað sé nefnt, en undanþágur fyrir almennt skólanám verði felldar niður. Það hygg ég að sé miklu vænlegra til að tryggja að unga fólkið hafi það fjármagn sem það þarf á að halda til húsbygginga þegar það vill og hefur tök á að byggja sjálft og tryggi jafnframt aukið fjármagn í húsnæðislánakerfinu.