17.02.1988
Efri deild: 58. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4679 í B-deild Alþingistíðinda. (3227)

281. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Flm. (Júlíus Sólnes):

Herra forseti. Ég vil fyrir hönd okkar flm. þakka fyrir málefnalegar og fróðlegar umræður sem hafa farið fram um frv. sem við flytjum hér í Ed. til breytinga á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins.

Menn hafa að sjálfsögðu haft ýmsar efasemdir uppi um að þessi tillaga, sem við leggjum hér fram sem frv. til laga um breytingu á húsnæðislögunum, sé fær leið og við því er ekkert að segja. Að sjálfsögðu er það eins og með allar nýjar hugmyndir og nýjar tillögur. Það tekur sinn tíma að melta slíkt og sannfærast um að þetta sé möguleiki. Það kann líka vel að vera að það þurfi að breyta þessu verulega. Ég get hins vegar alveg tekið undir það, sem var sagt áður í umræðunum, að annaðhvort ber að leggja þetta skyldusparnaðarkerfi niður, þar sem það er alveg augljóst, eins og kemur fram í grg. með frv., að það nær ekki tilgangi sínum, maður sér það einfaldlega á þeim tölum sem þarna eru sýndar, eða þá að það verður að finna einhverja leið til þess að skyldusparnaðurinn komi unga fólkinu að einhverju gagni.

Ástandið í húsnæðismálum ungs fólks er skelfilegt. Við þurfum ekkert að vera að draga dul á það. Það hlýtur því að vera aðalmarkmið með einhverri lagasetningu sem þessari að reyna að ráða þar bót á, að finna einhverjar leiðir til að koma á móts við unga fólkið, reyna að hjálpa því við að leysa húsnæðismál sín. Það er einmitt í þeim tilgangi sem við höfum flutt þetta frv.

Varðandi ýmis gagnrýnisatriði, sem hér hafa komið fram í umræðunum, kom fram áðan að menn spurðu hver ætti að byggja þessar íbúðir. Það kann vel að vera að það orki tvímælis að Húsnæðisstofnunin sjálf taki að sér það hlutverk. Þó finnst mér það ekkert fráleit hugmynd að Húsnæðisstofnun, sem hefur yfir mjög fullkominni tæknideild að ráða, geti gert verksamninga, boðið út verkefni þess eðlis að það yrðu byggðar svo og svo margar íbúðir á mismunandi stöðum. Ég sé í sjálfu sér ekkert því til fyrirstöðu. Hins vegar hefðum við talið eðlilegra að Húsnæðisstofnun leitaði eftir samvinnu við þá aðila sem nú þegar hafa heimildir til húsnæðis- og framkvæmdalána til að byggja bæði leiguíbúðir og ódýrar íbúðir fyrir lágtekjufólk og fæli þeim þetta verkefni.

Það var nefnt hér áðan að það gæti hugsanlega orðið vandamál hvað íbúðir á höfuðborgarsvæðinu verða miklu dýrari en íbúðir úti á landsbyggðinni. Þá var spurt hvort það gæti leitt til þess að þeir sem mynduðu sér eignarhlut í íbúð á höfuðborgarsvæðinu færu eitthvað betur út úr kerfinu en hinir. Ég held þvert á móti að því verði alveg öfugt farið. Þeir sem gera samning við Húsnæðisstofnun ríkisins um að sparifé þeirra verði varið til byggingar á íbúðarhúsnæði úti á landi komi til með að eiga miklu meiri hlut í íbúðinni að skyldusparnaðartímabilinu loknu en aðili sem kýs að gera samning um að eignast hlut í íbúð sem yrði byggð á höfuðborgarsvæðinu. Það er einfaldlega vegna þess að það hefur sýnt sig að byggingarkostnaður hefur yfirleitt orðið meiri á höfuðborgarsvæðinu en víðast annars staðar á landinu. Þó hefur þetta breyst nokkuð hin allra síðustu missirin þannig að byggingarkostnaður t.d. norður á Akureyri nálgast nú mjög það sem hann er á höfuðborgarsvæðinu. Það er því ekki víst að þetta skipti alveg sköpum. Ef um byggingu nýrra íbúða er að ræða er það eina sem getur breytt byggingarkostnaði milli landshluta þau vinnulaun sem fara til verksins. Ef um útboðsframkvæmd yrði að ræða ætti það ekki að skipta neinu stórmáli. Ég sé í sjálfu sér ekki að það þurfi að vera neitt vandamál hvort um er að ræða að það yrði gerður samningur um að íbúð yrði byggð á höfuðborgarsvæðinu eða úti á landi.

Hv. 11. þm. Reykv. Guðmundur Ágústsson, meðflm. að frv., gerði ágætlega grein fyrir hinni ávöxtunarleiðinni, þ.e. að spariféð verði ávaxtað með bestu fáanlegu kjörum. Að sjálfsögðu yrði það reglugerðaratriði hvernig ætti að ákveða þau kjör hverju sinni. Hins vegar hef ég ekki áhyggjur af því að það kosti mikið umstang né mikla skjalabunka. Við erum uppi á tölvuöld og það er mjög auðvelt mál að tölvufæra sparireikninga og jafnvel vaxtareikna þá daglega ef þörf krefur. Þetta er farið að gera víða erlendis. Það eru myndaðir sparireikningar í bönkum sem eru vaxtafærðir daglega eftir breytilegum vöxtum, bara eftir því hvað markaðurinn er með háa vexti hverju sinni. Það er hægt að breyta vöxtum daglega. Þetta er auðvelt mál að ráða við á tölvuöld.

Að sjálfsögðu höfum við ekki, eins og ég gat um í fyrri ræðu minni, hnýtt alla enda. Það er margt sem þarf að athuga í þessu og ef við hefðum ætlað að leggja fram frv. til. l. ásamt öllum þeim reglugerðum sem því þyrftu að fylgja hefðu liðið nokkuð mörg ár, með þá vinnuaðstöðu sem við höfum sem þm. stjórnarandstöðuflokks, hefði liðið ansi langur tími þangað til þessar tillögur hefðu séð dagsins ljós. En ef undir þessar tillögur yrði tekið er það verkefni embættismanna ríkisvaldsins að útfæra þær og ganga frá nauðsynlegum reglugerðum og tryggja að þessi hugmynd geti náð fram að ganga eins og henni er lýst hér í mjög grófum dráttum, enda er það ekki markmið með lagasetningu að það sé útfært í smáatriðum hvernig á að framfylgja lögunum.

Hv. 8. þm. Reykn. taldi að það gæti valdið erfiðleikum að draga fólk í dilka hvað varðar íbúðalán og byggingu íbúða. Það fé sem myndast í Byggingarsjóði ríkisins vegna skyldusparnaðar ungs fólks er hluti af heildarfjármögnun Byggingarsjóðsins og er þar með notað til að skapa húsnæðislán til þeirra sem þau fá úr Byggingarsjóði ríkisins. Nú er athyglisvert að einmitt unga fólkið er þar forgangshópur. Að vísu óbeint, má segja, en allir þeir sem eru að kaupa eða byggja sína fyrstu íbúð eru forgangshópur, voru það samkvæmt þeim lögum sem voru í gildi á síðasta ári og breytti húsnæðisfrv. hæstv. félmrh., sem varð að lögum rétt fyrir jól, engu um að unga fólkið er eftir sem áður forgangshópur. Þannig er kannski varla hægt að tala um að með þessari lagasetningu verði neitt frekar dregið í dilka en verið hefur.

Ég tek undir að í tíð hæstv. félmrh. Alexanders Stefánssonar, félmrh. í fyrri ríkisstjórn, var gerð sú breyting á húsnæðislögunum að það var opnað fyrir lán til leiguíbúða á vegum sveitarfélaga og ýmissa félagssamtaka. Það er einmitt lykillinn að þessum tillögum að gera samning við þessa aðila um að taka að sér það verkefni að byggja leigu- og eignaríbúðir fyrir ungt fólk. Að sjálfsögðu get ég fallist á að að lokum er spurningin um að finna fjármagn til þessara verkefna. En hugmyndin ber með sér að það sé töluvert fjármagn sem sé hægt að ná inn í Byggingarsjóð ríkisins til þessa verkefnis ef litið er á útstreymi úr sjóðnum sem 1987 nam rúmlega milljarði króna. Eins og ég gat um í fyrri ræðu minni hefði verið hægt að byggja 150–170 íbúðir ef við hefðum getað haldið helmingi þessa fjár inni í Byggingarsjóðnum. Þá er gert ráð fyrir íbúðum, eins og hv. 2. þm. Norðurl. e. talaði um, sem eru 3–31/2 millj. að verðmæti. Ef um er að ræða að byggja hentugar leigu- og eignaríbúðir fyrir ungt fólk held ég að það verði allir sammála um að það yrðu íbúðir af hóflegri stærð sem mundu henta m.a. námsfólki og ungu fólki sem er að feta sín fyrstu spor á lífsleiðinni hvað varðar heimilisstofnun og heimilishald.

Sérstaklega er það athyglisvert ef sú staðreynd er skoðuð að ef helmingur útstreymis úr Byggingarsjóði ríkisins 1982–1987 hefði haldist inni í Byggingarsjóði ríkisins hefði fengist þarna viðbótarfjármagn sem hefði nægt til að byggja 1000 íbúðir af þessu tagi. Það er að sjálfsögðu þarna sem við viljum sækja peninga til að byggja þessar íbúðir. Hins vegar er ég ekki í nokkrum vafa um að ef þessi leið yrði farin mundi þetta vinda sjálfkrafa upp á sig þannig að þegar unga fólkið sæi að það væri til einhvers að leggja hluta af tekjum til hliðar til skyldusparnaðar, að það veitti því þennan rétt, sem kom nú reyndar fram hér í máli sumra ræðumanna áðan, að það fengi með þessu aðgang að hentugum leiguíbúðum og eða eignaríbúðum, mundi útstreymið minnka verulega. Ég yrði ekkert hissa á því þó að það væri hægt að ná útstreyminu niður í 1/4 af því sem streymir inn í sjóðinn. Þá er hægt að taka enn myndarlegar á þessu vandamáli.

Það er alveg rétt að það eru fullnægjandi heimildir í núgildandi lögum um byggingu bæði námsmannaíbúða og íbúða fyrir fleiri þjóðfélagshópa sem þurfa á aðstoð að halda. Það er bara ekki til umræðu hér. Við höfum lagt fram tillögur um hvernig væri best að leysa þau vandamál. Það kom fram í þeim brtt. sem við lögðum fram við frv. hæstv. húsnæðismálaráðherra fyrir jólin og tel ég ekki þjóna neinum tilgangi að fara að rekja þær nú. Hér er aðeins á dagskrá að koma á móts við unga fólkið, finna leiðir til að leysa húsnæðisþörf þess og sérstaklega að koma á móts við námsmenn sem eiga við mikinn vanda að stríða með að komast í hentugt leiguhúsnæði á meðan námstíma lýkur og eins að sá skyldusparnaður sem við erum búin að hafa í lögum í nær 30 ár komi að einhverju gagni. Ef ekki er hægt að fara neina slíka leið eins og hér hefur verið lýst eða menn láta sér ekki neitt annað koma til hugar ber að leggja þennan skyldusparnað niður.