28.10.1987
Neðri deild: 7. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 477 í B-deild Alþingistíðinda. (323)

47. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Það var kannski svolítið erfiður inngangur að ræðu minni sem kom úr forsetastól, en ég skal leitast við að vera ekki mjög langorður.

Eins og mönnum er kunnugt hafa fallið nokkuð stór og hörð orð í þessari umræðu hér á þingi og reyndar utan þings líka og verið veist að mér sýnist heldur ósmekklega að hæstv. félmrh. Mér finnst að menn verði að hafa í huga í þessu máli, jafnvel þó menn séu ekki sammála ráðherranum, að það bætir ekki málið að skiptast á fúkyrðum og það bætir heldur ekki hag þeirra sem bíða eftir úrlausn. Það er auðvitað meginmálið í þessari stöðu að fjöldi fólks bíður úrlausnar og ég held að menn geti ekki mótmælt því að núverandi ástand getur ekki varað öllu lengur. Núverandi ástand er það að kerfið er lokað.

Það sem hæstv. félmrh. er að reyna að láta gerast er að það verði ekki lokað lengur.

Ég ætla að vona að menn séu bráðum búnir að tala sig niður í þessu máli og geti farið að snúa sér að þeirri vinnu sem fram undan er og komast að efnislegri niðurstöðu sem geti gagnast fólkinu í landinu sem best. Ég held að mönnum þurfi ekki að koma á óvart að hæstv. ráðherra bregðist nokkuð hart við þegar að honum er veist opinberlega með þeim hætti sem hér hefur gerst og það er býsna óvenjulegur háttur. Það getur vel verið að það hafi einhvern tímann gerst að ráðherrar hafi orðið fyrir ámóta árásum. Ég man ekki eftir því og ég hef spurt ýmsa þm. sem hafa setið hér lengi, en þeir muna heldur ekki eftir því að ráðherra hafi þurft að taka við ámóta kveðjum og núverandi hæstv. félmrh.

Ég sagði að kerfið væri lokað og spurningin sem menn standa fyrst og fremst frammi fyrir er þessi: Vilja menn hafa það lokað áfram? Ef menn vilja það ekki verða menn að finna leiðir til að opna það. Ég er þeirrar skoðunar að það sé ekki unnt að hafa húsnæðismálakerfið lokað lengur. Ég hef hins vegar ekki heyrt, en ég skal viðurkenna að ég hef ekki hlustað á allar umræðurnar, neinar útfærðar tillögur um hvernig úr eigi að ráðast. Sumir segja, eins og hv. þm. Hreggviður Jónsson: Við komum með tillögur bráðlega um allsherjarendurskoðun og það er í sjálfu sér góðra gjalda vert. En það er það sama og hæstv. ráðherra hefur sagt. Hann hefur efnislega sagt: Ég þarf að fá möguleika til opnunar á þessu kerfi, mér er það ljóst, og ég vil vinna að því að áfram verði haldið. Þetta er einungis áfangi.

Nú gerist það merkilega í þessari umræðu að mér heyrist næstum allir segja að þeir skilji að þegar menn hafi úr takmörkuðu fé að ráða geti þeir sem eiga miklar eignir ekki notið sams konar fyrirgreiðslu í niðurgreiddu lánsfé og aðrir sem standa verr. En þetta er einmitt aðalefnispunkturinn í því frv. sem hér er til umræðu hvað sem menn annars segja um útfærslu eða orðalag. Og þegar ég hlusta eftir því hvers konar tillögur menn eru með finn ég lítið fyrir þeim. Þegar menn gagnrýna að frv. sé óskýrt heyri ég heldur ekki neinar skýrari tillögur frá öðrum um hvernig þetta eigi að vera. Ég held að það sé ekki af því að menn langi ekki til þess að vera með skýrar og góðar tillögur. Ég held að þær komi ekki fram af því að menn hafi þær ekki, af því að málið er flókið, af því að málið er vandasamt og erfitt að ráða fram úr því. Og það er auðvitað það meginviðfangsefni sem við stöndum frammi fyrir, hvernig eigi að koma þessu kerfi á varanlegan grundvöll. Ég held að það sé alveg ljóst að það verður núna að finna svigrúm til að mæta ákveðnum þörfum, brýnum þörfum sem hafa hlaðist upp af því að kerfið er lokað, og menn verði að opna kerfið og mæta þessum þörfum til að hafa svigrúm til þess að takast á við þetta kerfi í heild sinni. Þetta held ég að sé meginatriði málsins. Það að koma kerfinu á varanlegan grundvöll, á grundvöll sem dugar, er ekki bara mál ráðherrans, það er ekki mál stjórnarflokkanna einna. Við höfum haft slík vandræði í húsnæðismálunum í svo mörg ár að það er beinlínis skylda allra stjórnmálamanna á Alþingi að leggjast á eitt um að ná varanlegum grundvelli, ná ákveðnum stöðugleika, koma fótum undir kerfið.

Mér finnst sumir segja: Við skulum bíða þangað til eftirspurnin er búin. Mér fannst jafnvel að hv. þm. Geir Haarde væri örlítið að tala í þá áttina í sinni ágætu ræðu að það væri von um það, en ef ég hlustaði eftir öðru sem hv. þm. sagði fannst mér það sem hann tilgreindi einmitt benda til þess að slíkt varanlegt jafnvægi væri ekki á leiðinni vegna þess, eins og hann sagði réttilega, að við erum líklega með allt að því óseðjandi eftirspurn vegna niðurgreiðslu á vöxtum. Og í annan stað sem ég legg mikla áherslu á: Um leið og er komin biðröð sækja menn um til vonar og vara. Ég held að biðröðin fæði sjálfa sig. Þetta eru atriði sem ég legg áherslu á, sem ég vek athygli á og sem ég veit að hæstv. ráðherra vill skoða.

Ég get farið í gegnum frv. grein fyrir grein eða þær hugmyndir aðrar sem t.d. komu fram hjá hv. þm. Geir Haarde, en ég ætla að segja það bara að sú efnislega stefna sem mjög margir hafa lýst stuðningi við hérna, jafnvel þó þeir hafi alls konar fyrirvara, er í rauninni fólgin í 1. gr. hvernig sem menn vilja orða hana og menn hafa margvísleg tækifæri til að orða hana með öðrum hætti í umfjöllun sinni í nefnd.

Um 2. gr. er það að segja að þar er um að ræða hugmynd sem ætlað er að verða til að draga úr braski. Ef menn hafa betri hugmyndir í þeim efnum er sjálfsagt að líta á þær, en þessi hugmynd er a.m.k. jafnmikillar skoðunar verð og hugmyndir sem ekki hafa komið fram. Ég held að það sé alveg ljóst.

Um vaxtagreinina, mismunandi vexti, er það að segja að þetta er hugmynd sem var rædd á síðasta þingi þar sem ákveðinn þm. Sjálfstfl. talaði fyrir þessu sem lausnarleið í þessu máli. Þetta var hv. þm. Friðrik Sophusson, núverandi hæstv. ráðherra, og það er fest í þingskjölum. Hv. þm. Geir Haarde sagði að menn gætu e.t.v. rýmkað forgangsheimildir með reglugerðum. Ég þykist minnast þess að hv. þm. Friðrik Sophusson hafi einmitt tekið þannig til orða að það þyrfti ekki lagabreytingar heldur varðandi vaxtaákvæði. Ég held að það sé rangt hvort tveggja. Ég held að það þurfi lagaákvæði ef menn ætla að beita þessum tækjum. En þó að hv. þm. Friðrik Sophusson, núverandi hæstv. ráðherra, hafi komið með þessa hugmynd sé ég marga annmarka á útfærslu eins og ég veit líka að hæstv. ráðherra gerir. A.m.k. er það svo að ef menn ætla að fara þessa leið held ég að það sé ekki hægt að binda þá formúlu í lög lið fyrir lið.

Það gildir svipað um 3. gr. Þar er verið að tala um ákveðinn forgang og ýmsir segja að sú grein sé óskýr. En svona forgangur er mjög vandasamt úrlausnarefni og þó tala menn um að það sé eðlilegt að þeir sem hafi brýnasta þörfina njóti forgangs. Það er mjög vandasamt úrlausnarefni. Ég held ekki heldur að það sé hægt að binda það nánar í lög hvernig það skuli útfært vegna þess að það verða svo mörg atriði sem verður að hafa í huga þegar á að velja slíkan forgang, m.a. jafnvægið á húsnæðismarkaðnum svo ég taki eitt dæmi. Það verður nefnilega ekki aðstaða þeirra sem eru að sækja ein sem getur ráðið öllu um forganginn, heldur verður líka að gæta að því að jafnvæginu sé ekki raskað á húsnæðismarkaðnum að óþörfu. Geta menn þá ætlast til þess að hæstv. ráðherra bindi þetta í ákveðna formúlu í lögum upp á punkt og prik? Nei.

Herra forseti. Ég skal ekki orðlengja þetta. Það er margt sem væri ástæða til að ræða í sambandi við húsnæðislánakerfið og það verkefni sem er fram undan í því og ég held að það sé mikilvægt að við horfum fram á veginn og horfum til þess hvers konar húsnæðislánakerfi við viljum fá, eins og ráðherra hefur gert að umtalsefni. Ég held að það sé alveg ljóst að þingið kemst ekki hjá því að skapa nú svigrúm til þess að unnt sé að mæta hinum brýnustu þörfum og til að skapa svigrúm til þess að geta unnið að heildarendurskoðun.