17.02.1988
Neðri deild: 59. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4682 í B-deild Alþingistíðinda. (3230)

256. mál, almannatryggingar

Guðrún Helgadóttir:

Virðulegi forseti. Ég kem hér í ræðustól til þess að lýsa yfir stuðningi við það frv. sem hér liggur fyrir á þskj. 552 og er frv. til l. um breytingu á lögum um almannatryggingar nr. 67/1971, með síðari breytingum, og sem flutt hafa þeir hv. þm. Málmfríður Sigurðardóttir, Kristín Einarsdóttir, Kristín Halldórsdóttir og Sigríður Lillý Baldursdóttir.

Það er löngu kominn tími til að tryggingakerfið taki að sér þátttöku í kostnaði vegna útgjalda við kaup á gleraugum og þarf ekki að fara nánar út í ástæður þess. Eins og alkunna er greiðir Tryggingastofnun ríkisins að hluta til fjölmargar tegundir hjálpartækja, og þau hjálpartæki sem kannski hvað algengust eru eru einmitt gleraugu og öll þekkjum við þann mikla kostnað sem fjölskyldur verða fyrir vegna útgjalda við gleraugnakaup handa börnum. Eins og hver getur sagt sér sjálfur vilja þau gjarnan brotna og þessi vara er orðin mjög dýr.

Margsinnis hefur það komið fyrir að þeir aðilar sem gleraugu selja hér í Reykjavík hafa komið að máli við mig og haft orð á því að það sé óbærilegt á að horfa hversu mikinn kostnað fjölskyldur hafa af endurteknum kaupum á gleraugum, þannig að ég vil eindregið styðja þetta frv. og trúi því að hæstv. heilbrrh. finni einhverja leið til þess að koma til móts við efni þess. Okkur er auðvitað öllum ljóst að það þarf víða að finna matarholu og vitaskuld er hér um verulegan kostnað að ræða, en alveg ljóst þykir mér að það verði að finna lausn á kostnaði foreldra vegna gleraugna barna. Ég tel að það væri mikill áfangi í áttina að því marki sem frv. setur að a.m.k. einhverjir hópar yrðu þarna teknir inn.

Í grg. vil ég aðeins nota tækifærið til þess að leiðrétta smáatriði. Hér segir að einungis svokölluð „strabismus“-gleraugu séu greidd af Tryggingastofnun ríkisins og engir aðrir af þegnum þjóðarinnar njóti aðstoðar vegna gleraugnakostnaðar. Það er raunar ekki alveg rétt vegna þess að svokölluð „aphaki“-gleraugu eða gleraugu með sérstökum linsum eru einnig greidd 90%. Einnig eru greidd gler vegna missis augasteins og enn ein tegund gleraugna er líka greidd 70%, en það eru svokölluð „nystagmus“-gleraugu eða gleraugu sem menn nota við svonefndum augnatitringi sem er ekki svo sjaldgæfur sjúkdómur. Þetta vildi ég leiðrétta svo að öllu sé til skila haldið um það sem hér stendur.

Herra forseti. Ég þarf ekki að fjölyrða meira um þetta. Ég treysti því að hv. þm. sameinist um að hvetja hæstv. heilbrrh. til að finna einhverja leið til þess a.m.k. að koma til móts við fjölskyldur vegna sjóngalla barna og ekki skal ég heldur draga úr því að elli- og örorkulífeyrisþegar fái hér þjónustu því það er alveg ljóst að margir þeirra hafa hreinlega ekki efni á að skipta um gleraugu.