22.02.1988
Sameinað þing: 49. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4723 í B-deild Alþingistíðinda. (3252)

16. mál, kostnaður við byggingu Flugstöðvar Leifs Eiríksson

Guðrún Agnarsdóttir:

Herra forseti. Ég vil þakka ráðherra fyrir svör hans fyrr í umræðunni þó að mér hafi ekki þótt þau bitastæð. Ég vil einnig þakka öðrum þm. sem hafa tekið til máls. Og það var í sjálfu sér fróðlegt að hlusta á síðasta ræðumann.

Ég vil taka skýrt fram að af orðum mínum í umræðu um þetta mál á síðasta þingfundi má ekki draga þá ályktun að verið sé að reyna að beita ofsóknum á hendur saklausum mönnum, né heldur tilraun til að elta uppi og hengja sökudólga, þótt einhverjir kunni að vera. Hins vegar er það meginmál, eins og ég vék að áður, hvernig verður unnið að því að skilgreina ábyrgð opinberra aðila, þeirra sem fara með almannafé, bæði ráðherra og eins aðila innan ráðuneytis, svo og þeirra sem taka að sér verkefni fyrir ráðuneyti eða vinna á vegum þess. Það kom einmitt fram í máli hv. 7. þm. Reykn. að víða erlendis bera hönnuðir ábyrgð á verkum sínum og vegna þess þurfa þeir t.d. að tryggja sig til þess að geta greitt fyrir mistök ef þeir verða uppvísir að þeim.

Ég held að afar nauðsynlegt sé fyrir okkur, vegna þess að við höfum horfst í augu við svo mörg slík mistök og ævintýri, að ábyrgð á verkum sé skýrt afmörkuð og skilgreind þannig að allir viti hvað til þeirra heyrir. Og ég spyr: Ætla stjórnvöld og í þessu tilviki hæstv. utanrrh. að standa að slíkri endurskoðun og ef svo er, hvernig? Hvernig ætlar hann að beita sér í þessu máli?

Það er vafamál hvernig fer ef Ríkisendurskoðun er ekki treystandi eins og mátti ætla af orðum hæstv. ráðherra fyrr í umræðunni. Það gætu orðið nokkuð margar silkihúfurnar hver upp af annarri nema ef hann hugsaði þetta í hring þannig að hver endurskoðaði annan. Hvað meinti hæstv. ráðherra? Ætlar hann að skipa nefnd eða ætlar hann prívat og persónulega að leita til einhverra tölfróðra kunningja sinna? Ættar hann að skipa ákveðna nefnd til þess að úrskurða um ályktun Ríkisendurskoðunar?

Það verður að sjálfsögðu að taka einhvern trúanlegan varðandi endurskoðun á málefnum ríkisins og til þess var einmitt Ríkisendurskoðun fengin, að gefa hlutlaust mat á rekstri og umsvifum ríkisins.

Síðan þessi umræða hófst hafa ýmsir haft samband við mig sem hafa starfað eða starfa í tengslum við flugstöðina og sent mér upplýsingar eða sagt mér ýmsar fjölskrúðugar sögur, bæði af kostnaði og mistökum, t.d. hitaveitu sem var rifin og henni hent, bráðabirgðalögn sem sett var í fyrir opnunina en dregur hvergi úr kulda í frosthörkum og vindi nú, geysidýru leiguhúsnæði í nær heilsuspillandi umhverfi, a.m.k. í austan- og norðaustanátt. Allir starfsmenn munu hafa skrifað undir kröfur um úrbætur vegna kuldans en ekkert verið að gert.

Einnig var vakin athygli mín á miklu rými í kjallara flugstöðvarinnar, undir byggingunni, sem reyndar var stækkaður en er ekki nýttur að því er ég best veit. Þá langaði mig að spyrja hæstv. ráðherra: Hvernig er fyrirhugað að nýta þetta mikla rými sem þannig var fengið með stækkun og hverjar voru forsendurnar í raun fyrir þessari stækkun?

Ég ætla ekki að lengja mál mitt því að ég kom meginefni þess sem ég hef að segja um þetta mál til skila fyrr í umræðunni en að lokum þetta: Hvernig ætlar hæstv. utanrrh. að sjá til þess að þetta mál verði okkur öllum að kenningu og hvernig ætlar hann að búa svo um hnútana í samráði við ríkisstjórnina að slíku ráðslagi verði ekki aftur beitt? Þessu er afar mikilvægt að hæstv. ráðherra svari skýrt og skorinort til að taka af allan vafa.