22.02.1988
Sameinað þing: 49. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4733 í B-deild Alþingistíðinda. (3258)

16. mál, kostnaður við byggingu Flugstöðvar Leifs Eiríksson

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég, ætlaði raunar ekki að taka til máls í þessu máli. Ég hef ekki kynnt mér það svo mikið að ég sé til þess fær en mér finnst einhvern veginn lyktirnar í þessu máli vera þannig að menn verði að glöggva sig á því hvernig það stendur og hvað skal gera.

Við sem vorum hér á þeim tíma sem ákveðið var að fara út í þessa byggingu munum vel eftir því að hún var minnkuð verulega. Hvers vegna? Vegna þess að mönnum þótti að stefnt væri í mjög dýra framkvæmd. Þingið ákveður þetta. Síðan er það ekki lagt fyrir þingið að breyta þarna aftur til. Það virðist vera þröngur hringur sem ræður því að niðurstaða Alþingis í þessu máli er virt að vettugi og málinu er ekki skotið til þingsins aftur og komið þá fram með þau rök að fyrri ákvörðun hafi ekki byggst á nægilegri þekkingu og þess vegna þurfi að taka málið upp. Ef ekkert verður svo gert í þessu máli meira en að ræða það á tveimur fundum og þar við látið sitja, hvaða fordæmi gefur þetta mál öðrum þeim sem slík verk verða falin í framtíðinni? Og er það samkvæmt því sem við viljum, að þessi stofnun sé virt, að svona sé starfað, að ekkert sé gert með það sem Alþingi ákvað í þessu máli?

Ég er alveg sammála hæstv. utanrrh. um það að þetta mál sé ekki gott mál og ekki hafi verið farið réttað því. Við þurfum líka að athuga það hvernig við stöndum, stöndum gagnvart þjóðinni, stöndum gagnvart Alþingi, stöndum sem sagt frammi fyrir framtíðinni í þessu máli jafnvel þó að menn séu búnir að gefa það alveg upp á bátinn að þessi stofnun eigi að halda virðingu sinni.

Hæstv. samgrh. sagði að nauðsynlegt hefði verið að breyta fyrri áætlun. Það réttlætir ekki það að fara út í þessa breytingu öðruvísi en að hún kæmi aftur fyrir þingið. Ég er ekki fær til þess að dæma um það og það kann að vera að það sé alveg rétt hjá hæstv. fyrrv. utanrrh. að þetta hafi verið nauðsynlegt. Það er bara ekki nóg. Það átti að setja þetta mál fyrir þingið aftur. Hér er ekki um nokkrar milljónir að ræða og ég segi fyrir mig að ég er ekki alveg klár á því hvort bæta eigi þessum 241 millj. kr., sem er reiknað með að þurfi til þess að klára þetta hús, við þessa tæpa 3 milljarða kr. eins og ætla má eftir þessum upplýsingum því að varla hefði verið talað um tæpa 3 milljarða ef menn hefðu ekkert vitað hver hin talan yrði. M.ö.o., mér skilst að gert sé ráð fyrir að heildarkostnaðurinn verði, eins og nú horfir, og það er ekki vitað hvort það er endanleg tala eða svo skildist mér á hæstv. utanrrh., 3 milljarðar 233 millj. kr. Hér er ekki um neinar smátölur að ræða.

Ég held að nauðsynlegt sé að hv. Alþingi skoði þetta mál frá þessum sjónarhóli eða ætlar þingið að hafa svona mistök í framtíðinni að það sé hægt að benda á það sem fordæmi? Ber í raun og veru enginn ábyrgð í þessu landi? Nú skilst mér að það séu íslenskir aðilar sem hanna þessa byggingu að einhverju leyti en að einhverju leyti amerískir aðilar. Hvaða ábyrgð bera þeir á hönnuninni? Og ef þeir bera ábyrgð á hönnuninni að einhverju leyti, er það þá alveg neglt niður að þeir eigi ekki að bæta við þá tölu sem samningurinn hljóðaði upp á í fyrstunni þar sem þetta fer allt úr böndum og m.a. af mistökum?

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð en mér sýnist þetta mál vera mjög alvarlegt hvernig sem á það er litið.