22.02.1988
Sameinað þing: 49. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4738 í B-deild Alþingistíðinda. (3260)

16. mál, kostnaður við byggingu Flugstöðvar Leifs Eiríksson

Utanríkisráðherra (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Í örfáum orðum vil ég koma inn á spurningar sem til mín hefur verið beint. Hv. þm. Guðrún Agnarsdóttir spurði enn um það hvernig ég hygðist standa að endurskoðun á niðurstöðum Ríkisendurskoðunar. Ég veit að hún á þar við minnisblað það sem Ríkisendurskoðun sendi hv. þm. og er athugasemdir við skýrslu mína. Ég mun hafa sagt að ég ætlaði að fá tölfróða menn til að líta á þetta með mér. Það hef ég reyndar þegar gert og hef m.a. staðfest það sem kom fram áðan að vitanlega er hægt að bera saman áætlanir hvers árs og bókfærðan byggingarkostnað hvers árs. Ég held að það þurfi svo sem ekki nokkurn tölfróðan mann til að segja manni af slíku. Samanburður er mjög oft unninn og ekkert óeðlilegt við það.

Ég hef líka fengið upplýsingar um það sem ég nefndi áðan að Ríkisendurskoðun fékk í hendurnar fleiri áætlanir en þessa einu sem skilja má í bréfi Ríkisendurskoðunar að hafi verið sú eina sem hún fékk. Hins vegar ætla ég að skoða þetta dálítið betur. En að skipa nefnd í málið ætla ég ekki að gera og má vel vera að ég ræði persónulega við ríkisendurskoðanda um málið og reyni að komast til botns í því hvað þarna veldur þessum misskilningi sem er.

Hvað varðar stækkaða kjallarann þá er, eftir því sem ég best veit, kjallarinn stækkaður m.a. til þess að setja hlut af loftræstingu þar niður sem var talið henta betur. Loftræstingin var aukin allverulega. Hins vegar mun áætlun hafa gefið til kynna að það væri að sumu leyti hentugra og jafnvel ódýrara að steypa kjallarann upp fremur en að fylla upp það rými sem þurfti að fjarlægja. Það mun hafa verið þarna töluvert af lausu grjóti sem varð að fjarlægja og það var talið betra að steypa kjallarann upp, fjárhagslega líka.

Þessu rými hefur ekki nema að hluta verið ráðstafað. Hluti mun vera ætlaður til afnota fyrir lögregluna á Keflavíkurflugvelli. Hana hefur skort húsrými. Hluti mun verða nýttur sem geymsla fyrir flugstöðina og fleira. Það hefur einnig verið mikill skortur á geymslurými eins og er á öllum heimilum, hygg ég, og þannig mætti nota töluvert af kjallaranum. Ég hef hins vegar aldrei heyrt það nefnt sem hv. þm. Albert Guðmundsson kom inn á að heimilt væri að nota kjallarann sem sjúkrastofu. Hitt er svo rétt sem hv. þm. sagði að framlag Bandaríkjamanna er háð því skilyrði að þeir geti fengið afnot af flugstöðinni, eða a.m.k. að einhverjum hluta, ef til átaka kemur. Það getur vel verið rétt metið hjá hv. þm. að kjallarinn væri góður til þeirra afnota, en það hef ég ekki heyrt nefnt áður.

Verði okkur að kenningu og hvernig: Ég get ekki talað nema fyrir mitt ráðuneyti. Ég sagði áðan að ég mun leggja á það ríka áherslu að betur eða öðruvísi verði að málum staðið í mínu ráðuneyti. Hins vegar vísaði ég til þess áðan að forsrh. tók þetta einmitt upp í ræðu sinni í desember í umræðu um málið og hæstv. forsrh. hefur miklu betri tök á því að láta þetta öllum ráðherrum og ráðuneytum að kenningu verða. Ég held að rétt væri að beina þeirri spurningu til hans. (GHelg: Hæstv. utanrrh. var forsrh.) Ég er ekki lengur forsrh. eins og hv. þm. veit og get því ekki beint fyrirmælum til annarra ráðherra í þessu sambandi. Það get ég ekki. Ég hef engin tök á því. Þessi skýrsla kemur ekki fram og ábendingar í skýrslunni fyrr en eftir að ég hef látið af starfi sem forsrh.

Hv. þm. Albert Guðmundsson ræddi um heildarkostnaðinn. Við bókfærða heildarkostnaðinn var bætt 150 millj. kr. sem er hitaveitan og minnismerkið, eða ekki minnismerkið, þ.e. listaverkin, kannski reyndar hálfgert minnismerki einhvern tíma. (Gripið fram í.) Jæja, flugstöðin er minnismerki. Það á að reisa þarna fyrir framan heilmikinn og fallegan regnboga sem mun sjást víða að. Og þessu var bætt við bókfærðan kostnað. Þá var hann 2 milljarðar 483 millj. kr. Samkvæmt þeirri ítarlegu athugun sem ég hef látið fara fram þarf að bæta við þetta 91 millj. kr. svo að það má ætla að þessi heildarkostnaður gæti orðið, bókfærður, ekki framreiknaður, 2 milljarðar 574 millj. kr., samkvæmt síðustu áætlun.

Ég hef svarað þessu með kjallarann. Svo kemur þetta með flugstöðina og hvar hún er. Það er alveg rétt að hún er inni á varnarsvæðinu og hún er í girðingunni eins og hv. þm. benti á, en ég held því fram að með þessari flugstöð hafi tekist að stíga mjög stórt skref til að skilja að starfsemi hersins og aðra starfsemi á flugvellinum. Nú þarf enginn farþegi að aka í gegnum herhlið eða neitt þess háttar og flugstöðin er þess vegna utan athafnasvæðis hersins. Ég tel þetta í sjálfu sér mjög mikilvæga breytingu og hefur t.d. breytt mjög allri umferð um hliðin inn á herstöðina sjálfa. Hitt er rétt að eftirlit með starfsemi stöðvarinnar, tolli og öllu slíku er enn í höndum utanrrh. eins og hv. þm. réttilega greindi frá og vitanlega er að því leyti dálítið erfiðara að aðskilja flugstöðina frá öðru sem viðkemur varnarliðinu að hún er byggð með þeim skilyrðum frá hendi Bandaríkjanna að þeir fái afnot af stöðinni ef til átaka kemur sem ég tek undir með hv. þm. að við skulum vona að verði ekki. Sömuleiðis starfar sú lögregla sem þar er einnig inni á varnarsvæðinu þegar hún er þangað kvödd eða er þar á vakt o.s.frv. Þeir tollverðir sem sinna tollgæslu þarna sinna einnig tollgæslu í gömlu flugstöðinni og því sem varnarliðinu viðkemur. Ábendingar hv. þm. um tollgæslu á því sem kemur t.d. með skipum eru mjög athyglisverðar og ég verð að viðurkenna að ég hafði ekki hugleitt það nægilega vel, en það ætla ég að gera. Vitanlega á það að verða undir tolleftirliti eins og hvað annað.

Ég vil taka það fram að það gæti vel komið til greina að flytja frá utanrrh. til viðkomandi stjórnvalda ýmislegt sem er núna í þessari tollstöð eins og t.d. tolleftirlit og hafa þá hins vegar tolleftirlit með varnarliðinu sjálfu hjá utanrrh. Ég held hins vegar að aðalatriðið sé að mjög gott samstarf verði með tollgæslunni þarna og tollgæslu sem er á vegum fjmrn. og ég hef reyndar átt viðræður við tollgæslustjóra, tiltölulega nýskipaðan, um þá samræmingu og hef frá honum erindi sem ég er nú með í athugun í því sambandi svo að ég vona að það geti orðið árekstralaust.