22.02.1988
Sameinað þing: 49. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4741 í B-deild Alþingistíðinda. (3261)

279. mál, greiðslusamningar vegna skólamannvirkja

Flm. (Ragnar Óskarsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um greiðslusamninga vegna skólamannvirkja. Tillaga þessi er á þskj. 579 og hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að ljúka greiðslum af ógreiddum hlut ríkissjóðs við sveitarfélög vegna stofnkostnaðar skólamannvirkja með þeim hætti að gerðir verði bindandi greiðslusamningar við einstök sveitarfélög um skuldagreiðsluna.

Verði framvegis um að ræða sameiginlega þátttöku ríkis og sveitarfélaga við uppbyggingu skólamannvirkja skulu bindandi greiðslusamningar gerðir vegna þeirra framkvæmda.“

Eins og fram kemur í grg. með till. er skuld ríkissjóðs vegna framkvæmda við skólamannvirki allveruleg. Ekki fer á milli mála að slík skuldastaða hlýtur auðvitað að vera afar slæm fyrir ríkissjóð, ekki síst þegar litið er til ákvæða laga nr. 30/1973 þar sem skýrt er kveðið á um að heildarframlög ríkissjóðs til hverrar framkvæmdar skuli vera til reiðu innan fjögurra ára frá því að fyrsta fjárveiting er veitt.

Undanfarin ár hafa þessi ákvæði laganna ekki verið uppfyllt. Afleiðingar þessa hafa einkum verið tvenns konar. Annars vegar þær að sveitarfélögin hafa hreinlega dregið mjög saman framkvæmdir við uppbyggingu skólamannvirkja og það kemur auðvitað harðast niður á nemendum og hefur tvímælalaust óæskileg áhrif á ýmsa aðra þætti í viðkomandi sveitarfélögum, auk þeirra er lúta beint að menntuninni sjálfri. Í þessu sambandi má t.d. nefna búsetuþróun og ýmislegt fleira. Hins vegar eru afleiðingarnar þær að sum sveitarfélög hafa framkvæmt hraðar en framlög ríkissjóðs gefa tilefni til vegna sjálfsagðrar kröfu heimamanna um fullnægjandi skólamannvirki. Þessi sveitarfélög standa hins vegar frammi fyrir þeim vanda að með því að lána ríkissjóði að meira eða minna leyti sinn hlut verður minna fé eftir í sveitarfélaginu til annarra nauðsynlegra framkvæmda. Skiptir í því sambandi litlu máli hvort framlög ríkissjóðs koma verðbætt þegar þau loks koma.

Þegar þessir þættir eru skoðaðir blasir raunverulega við að uppbygging skólamannvirkja er víðast hvar afar ómarkviss nema hjá þeim sveitarfélögum sem standa svo vel fjárhagslega að þau geta lánað ríkissjóði hlut sinn í stofnkostnaði. Ég hygg reyndar að þau sveitarfélög séu ekki mörg.

Ég tel engan vafa leika á því að það ástand sem ég hef hér fjallað um sé langt frá því að vera eðlilegt. Það getur að mínu mati ekki verið eðlilegt að uppbygging skólamannvirkja sé nánast látin ráðast af tilviljunum einum saman í stað markvissra og raunverulegra áætlana. Það er einfaldlega of mikið í húfi til þess að svo megi verða. Þess vegna er nauðsynlegt að bæta úr þessu ástandi hið fyrsta.

Í þessu sambandi koma að sjálfsögðu margar leiðir til greina og ég tel að sú þáltill. sem ég hér mæli fyrir sé í það minnsta ein leið til þess að ráða bót á því sem mér liggur við að kalla ófremdarástand við uppbyggingu skólamannvirkja.

Fyrri hluti till. minnar lýtur að því hvernig gera megi upp ógreidda skuld ríkissjóðs við fjölmörg sveitarfélög. Þar geri ég ráð fyrir að lokið verði greiðslum af ógreiddum hlut ríkissjóðs við sveitarfélögin með þeim hætti að gerðir verði bindandi greiðslusamningar við einstaka sveitarfélög um skuldagreiðsluna. Í slíkum greiðslusamningum skuldbindi ríkissjóður sig til þess að gera upp skuldina á ákveðnum tíma með ákveðinni greiðslu á ákveðnum gjalddögum. Með þeim hætti yrði staða sveitarfélaganna að þessu leyti mun betri en nú er þegar óþarfa óvissa ríkir um uppgjörsmálin.

Seinni hluti till. lýtur að hugmynd um það hvernig uppgjörsmálum væri unnt að haga í framtíðinni ef svo fer að áfram verði um kostnaðarskiptingu að ræða milli ríkis og sveitarfélaga vegna byggingar og stofnkostnaðar skólamannvirkja. Reyndar er ekki enn ákveðið hvort eða hvernig hugsanleg kostnaðarskipting verður í framtíðinni. I nýjasta frv. til laga um framhaldsskóla er t.d. gert ráð fyrir kostnaðarskiptingu þannig að ríkissjóður greiði 60% en sveitarfélög 40% vegna byggingarframkvæmda og stofnbúnaðar og samkvæmt núgildandi lögum er kostnaðarskiptingin vegna grunnskólanna 50% hjá ríkissjóði og 50% hjá sveitarfélögunum, hvað svo sem síðar kann að verða.

Ég tel afar mikilvægt að ef um áframhaldandi kostnaðarskiptingu verður að ræða verði tryggt afdráttarlausara uppgjör milli ríkis og sveitarfélaga en nú er. Það uppgjör væri auðveldlega unnt að tryggja með bindandi greiðslusamningum um þau skólamannvirki sem ráðist verður í að reisa í framtíðinni, þannig að ríkissjóður og sveitarfélögin ættu á allan hátt auðveldara með að gera sínar áætlanir um framkvæmdir og fjármögnun vegna þeirra.

Ef fyrir lægi við upphaf framkvæmda við skólamannvirki samningur milli ríkissjóðs og sveitarfélaga, þ.e. kostnaðar- og greiðsluáætlun bundin í samningi, hlyti að vera auðveldara fyrir báða aðila að móta heildaráætlun að þessu leyti. Ég tel reyndar að 76. gr. sveitarstjórnarlaganna, nr. 8/1986, sé mjög í anda þess að slíkir greiðslusamningar séu gerðir, en í þeirri lagagrein segir, með leyfi forseta:

„Á fyrsta ári hvers kjörtímabils skal sveitarstjórn semja og fjalla um þriggja ára áætlun um rekstur, framkvæmdir og fjármál sveitarfélagsins. Áætlunin skal vera rammi um árlegar fjárhagsáætlanir sveitarfélagsins og skal endurskoða hana hverju sinni í tengslum við afgreiðslu fjárhagsáætlunar.“ Í skýringum sem samdar hafa verið með lögunum segir enn fremur um 76. gr., með leyfi forseta:

„Margar framkvæmdir taka mörg ár og því er nauðsynlegt að gera áætlun um framgang verka og fjármögnun til lengri tíma um leið og tekið er tillit til annarra framkvæmda og reksturs. Gerð þriggja ára áætlana auðveldar einnig fjárveitingavaldi ríkisins og öðrum opinberum aðilum samræmingu sinna áætlana við áætlanir sveitarfélaganna.“

Fyrrnefnd lagagrein og skýringar með henni hvetja sem sé mjög til þess að mínu mati að gerðir séu greiðslusamningar af því tagi sem ég hef hér gert að umtalsefni.

Nú kann auðvitað að vakna sú spurning hvort sveitarfélögin almennt séu tilbúin til þess að gera bindandi greiðslusamninga að þessu leyti, hvort fjárhagur þeirra leyfir t.d. að til einhverra ára séu settar fyrir fram ákveðnar fjárhæðir til skólamannvirkja. Væri e.t.v. með því verið að skuldbinda sveitarfélögin um of í verkefnavali? Ég tel að svo sé ekki, heldur þvert á móti sé þeim á ýmsan hátt með því auðveldað valverkefna.

Víst mætti hugsa sér að greiðslusamningar væru gerðir til mislangs tíma eftir vilja og getu einstakra sveitarfélaga. Sum kynnu að vilja hraða framkvæmdum en önnur fara hægar. Allt slíkt kæmi auðvitað til greina í greiðslusamningi. En umfram allt, og það sem meginmálið snýst um, greiðslusamningarnir mundu tvímælalaust stuðla að markvissari áætlanagerð og minni óvissu um framkvæmda- og fjárhagsliði sveitarfélaganna.

Hæstv. forseti. Ég er sannfærður um að till. sú sem ég hér hef mælt fyrir sé til bóta vegna uppgjörsmála fyrir skólamannvirki og stofnbúnað þeirra. Ég er einnig sannfærður um að hún stuðlar að auðveldara uppgjöri í framtíðinni ef um áframhaldandi kostnaðarskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga í uppbyggingu og stofnbúnaði verður að ræða. Þess vegna óska ég eftir því að hæstv. Alþingi taki tillögunni vel, skoði hana í það minnsta frá öllum hliðum og útfæri hana nánar með tilliti til þeirra þátta sem ég hef gert hér að umtalsefni.

Hæstv. forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að málinu verði vísað til hv. allshn.