22.02.1988
Sameinað þing: 49. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4743 í B-deild Alþingistíðinda. (3262)

279. mál, greiðslusamningar vegna skólamannvirkja

Danfríður Skarphéðinsdóttir:

Herra forseti. Ég fagna þeirri till. sem hér er fram komin og þakka flm. fyrir að færa þessa hugmynd hér inn á Alþingi. Ég tel að hann hafi í greinargerð sinni og ræðu gert allvel grein fyrir málinu. Mér bárust hins vegar tvö bréf í morgun sem tengjast efni tillögunnar og reyndar berast svona bréf allt of oft. Mig langar, með leyfi forseta, að lesa annað bréfið sem er skrifað að Kleppjárnsreykjum í Borgarfirði. Þar segir:

„Í dag er öskudagur 1988. Því er eigi í vant nema hálfu fjórða ári að skólinn hér á Kleppjárnsreykjum hafi starfað í þrjá áratugi. Þeir nemendur sem settust í Kleppjárnsreykjaskóla haustið 1961 og haustið næst á eftir eru margir hverjir foreldrar núverandi nemenda. Þá voru bundnar miklar vonir við starfið eins og æ síðan. Og allt frá upphafi hafa heimamenn kappkostað að þoka byggingarmálum skólans áfram.

Frá 1974 að lög um grunnskóla voru sett hefur enginn hér getað hugsað sér að til þess kæmi að ríkisvaldið þyrfti að grípa til þess að beita ákvæðum 19. gr. þeirra laga. En þar segir að sjái sveitarfélag börnum á grunnskólaaldri ekki fyrir viðunandi húsnæði til skólahalds geti ríkið látið reisa það og krafið svo sveitarsjóð um hans hlut í byggingarkostnaði. Sveitarstjórnarmenn hafa af áræði og óbilandi trú á æskumenn sína og mátt menntunar staðið þannig að málum að í dag vantar svo mikið fjármagn, þ.e. nálega 16 millj. úr ríkissjóði til síðustu fjögurra byggingaráfanga í skólahverfinu, að hlutur ríkisins dygði líklega til að ljúka þeim öllum án teljandi fjárútláta heimamanna. Er því von að spurt sé með hvaða rétti þetta lagaákvæði gildi ekki ef ríkissjóður er jafnsinnulaus og raun ber vitni.

Tildrög atburða þessa öskudags má rekja til þeirra vanefnda sem hafa orðið á því að fá staðfestan samning um byggingar hér, en af okkar hálfu hefur verið unnið af hellindum allt frá því fyrrum menntmrh. bauð upp á samningsgerð er hann vígði Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi í janúar 1987. Fljótlega eftir það vaknaði áhugi nemenda hér á að reyna á táknrænan hátt að sýna sem skýrast samstöðu allra hér um slóðir varðandi uppbyggingu grunnskóla á Kleppjárnsreykjum.

Þegar einn þm. Vestlendinga áði hér fyrir stuttu afhenti stjórn skólafélagsins honum undirskriftalista er allir félagarnir höfðu ritað nöfn sín á. Þar treysta þeir honum til að leggja máli þessu lið. Eftir það ákváðu þeir að leita til allra heimila norðan Skarðsheiðar og sunnan Hvítár, allt frá efsta byggðu bóli til strandar, hvort þau vildu ekki heita á þá að ef þeir dönsuðu og syntu á öskudag frá birtingu til myrkurs, þ.e. frá kl. 9–21. Greiddi viðkomandi ákveðið gjald fyrir hverja klukkustund. Hverjum og einum yrði í sjálfsvald sett hversu há fjárhæðin yrði.

Viðbrögð fólksins við þessari viðleitni æskumanna, sem eru haldnir bjartsýni og djörfung, líkt og sveitarstjórnarmenn hafa verið í gegnum tíðina, urðu með þeim eindæmum að á hálfum degi náðu loforð um styrk tæpum 250 þús. kr. Og það sem hvað mestu skiptir, bæði fyrir nemendur og sveitarstjórnarmenn, er að nær undantekningarlaust töldu menn sjálfsagt að leggja málinu lið.

Það er því bjart í og yfir Kleppjárnsreykjaskóla í dag þótt þorrinn yggli sig utar, enda sólin að hækka á lofti. Og skilaboðin eru þung sem berast frá heimilum hér niður lækjarfarvegi í Hvítá og út í straumiðu hennar allt til sjávar og inn á Viðeyjarsund, að þið þm. Vestlendinga og ráðherra fjármála sjáið sóma ykkar í því að ljúka því verki sem tveir menntmrh. hafa fengið ykkur, en það er að færa okkur upphaflegan samning hingað heim, staðfestan og gildan.

Þessi eru skilaboðin til ykkar þm. um leið og sveitarstjórnarmönnum er frá upphafi skóla þakkað þeirra mikla verk til þessa.

Ég þakka nemendum og öllum öðrum samstarfsmönnum mínum þennan dag áræðis og samstöðu og minni á að öskudagur á sér marga bræður.“

Undir bréfið ritar skólastjórinn, Guðlaugur Óskarsson, en degi síðar ritar hann áfram, með leyfi forseta:

„Ljóst er að þar sem nemendur dönsuðu og syntu 12 klukkustundir urðu áheitin nálægt því sem fram kemur í bréfinu. Við það bættust 36 þús. kr. sem var ágóði af kökuuppboði í lok dagsins, en hver nemandi kom með eina köku að heiman. Upphæðin er því orðin á milli 280 og 300 þús. kr. eða hálf úthlutun ríkisins til skólabygginga hér á fjárlögum þessa árs. Vegalengdin sem synt var er 133 km eða ríflega frá Kleppjárnsreykjum suður í Alþingi. Dansað var af svipaðri elju.

Aðeins í lokin: 600 þús. kr. eru nálega 1/26 af skuld ríkis við okkur eða u.þ.b. 4%.“

Þetta bréf lýsir ástandi í einum skóla, en við vitum það öll að það er víðar pottur brotinn og mér barst reyndar líka bréf frá Stykkishólmsbæ nú í morgun og þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Meðal þeirra erinda sem borin voru upp var fjárveiting til uppgjörs skólabyggingar. Fyrsta fjárveiting til skólans fékkst 1973 og var lokið við hönnun skólahússins 1975. Fjárveitingar höfðu þá fengist til undirbúnings en vegna erfiðleika við byggingu hótelsins var framkvæmdum við skólann frestað. Framkvæmdir hófust 1978 og lauk byggingu skólans árið 1985. Var hann þá fullbúinn. Í greiðsluáætlun sem fylgdi samningi um byggingu skólans var gert ráð fyrir því að greiðslum ríkisins yrði lokið 1983.

Við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1988 lá fyrir að inneign Stykkishólmsbæjar hjá ríkinu vegna skólans væri um 12 millj. kr. Skuldin er að hluta vegna þeirra eignarhluta Helgafellssveitar sem ríkið yfirtók í Laugagerðisskóla árið 1974 og átti að ganga til greiðslu á hlut Helgafellssveitar í skólanum. Sl. haust fóru fram viðræður við menntmrh. og fjmrh. um uppgjör skuldarinnar og varð niðurstaðan sú að í nóvember fékkst aukafjárveiting, 3 millj. kr., og var þess vænst að við afgreiðslu fjvn. fengist frekari úrlausn. Skuldin er því núna um 9 millj. kr.

Vegna þess hve langt er um liðið frá því að bygging hófst og að henni var að fullu lokið 1985, tveimur árum eftir áform menntmrn., var búist við því að fjárveiting yrði hærri á árinu 1988 en raun varð á, aðeins 1 millj. kr.“

Ég vildi aðeins koma með þessi tvö bréf sem innlegg í þessa umræðu um þáltill. hv. 4. þm. Suðurl. og taka undir orð hans er hann talaði um minnstu sveitarfélögin. Víða eru skólabyggingar að sliga lítil sveitarfélög og þrátt fyrir mikinn vilja heimamanna og baráttu í áraraðir er ekki hægt að sinna þar lögboðinni kennslu. Það sem þörf er á er fyrst og fremst markviss áætlanagerð og að þeir sem skólana reka og skólunum stjórna viti hvar þeir eru í röðinni, hvenær þeir mega vænta lausna á sínum málum, vegna þess að eins og menn vita hafa oft komið upp, að því er virðist, skyndisamningar við ýmis bæjarfélög á meðan önnur hafa beðið og verið komin af stað með sínar framkvæmdir. Það veldur heimamönnum að sjálfsögðu miklum vonbrigðum. Því vil ég enda orð mín á því að fagna þessari till. enn og aftur og skora á hæstv. ráðherra mennta- og fjármála að koma þessum mikilvægu málum í höfn.