23.02.1988
Neðri deild: 60. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4759 í B-deild Alþingistíðinda. (3276)

60. mál, iðnaðarlög

Albert Guðmundsson:

Hæstv. forseti. Það er nú svo að oft þegar hv. síðasti ræðumaður, 1. þm. Norðurl. v., talar felst í því boðskapur eða ábending þó að orðin séu ekki mörg eða ræðan löng og ég hlustaði með mikilli athygli á upphaf orða hans, fannst þau vera svona varnaðarorð, að nú sé hætta á því að ef ráðherrar ekki fara að haga sér eins og menn sé ekki langt í að lífdagar þessarar ríkisstjórnar séu taldir. Þetta voru skilaboð til hæstv. iðnrh. um að hann skuli haga sér eins og maður gagnvart Framsfl., annars eigi hann það á hættu að vera ekki ráðherra stundinni lengur. Þetta eru svo sem engin sorgartíðindi fyrir mig.

Það er eitt sem kom fram hjá hv. 2. þm. Vestf. Ólafi Þ. Þórðarsyni og einnig hjá hv. 1. þm. Norðurl. v., það eru viss varnaðarorð gagnvart ráðherra. Það kom fram vantrú á iðnrh., hvort sem hann átti við iðnrh. sem nú situr eða væntanlegan iðnrh., hver sem hann kann að verða þegar að því kemur að iðnrh., með þau völd sem hér er lagt til að hann fái með nýju frv., eigi að taka ákvörðun. Ég verð að segja það, og kannski vegna þess að í þessu máli, nákvæmlega þessu máli, varð ég sjálfur sem iðnrh. var við þessa vantrú. Þetta vald sem farið er fram á var mér neitað um á sínum tíma og þess vegna vil ég eftir þá reynslu vara við þessari vantrú á íslenskum ráðherrum að ætla þeim það að ganga fyrst erinda erlendra aðila áður en þeir láta hagsmuni Íslands koma til við ákvarðanatöku sína. Þetta finnst mér stóralvarlegt mál og stóralvarleg hugsun og þó að við hæstv. núv. iðnrh. höfum ekki alltaf verið sammála og þó að mér hafi verið neitað um það sem hann fer fram á nú mæli ég með því að frv. verði samþykkt. Ég ber fullt traust til hans og ég ber fullt traust til þeirra manna sem njóta þess trúnaðar að fara með ráðherravald hverju sinni.

Hv. 2. þm. Vestf. talar um dótturfyrirtæki eins og það sé eitthvað annað en hagsmunir fyrirtækis sem ekki heitir dótturfyrirtæki. Það er nákvæmlega það sama. Fjármögnun og fjárfesting er nákvæmlega sú sama hvort sem fyrirtækið er kallað útibú eða ekki útibú. Það er angi af starfsemi sem hefur aðalstöðvar einhvers staðar annars staðar en hér á landi, en það er ekki öðruvísi fyrirtæki í sjálfu sér en móðurfyrirtækið ef það vill greina á milli móðurfyrirtækis og dótturfyrirtækis. Hitt er annað mál að það geta verið aðrir hluthafar í útibúi en í aðalfyrirtæki. Það er hugsanlegt. Og það hlýtur að verða ef erlent fyrirtæki, sem er orðið gamalt og traust og á peninga til að fjárfesta annars staðar, fjárfestir hér á landi, fer þá í samstarf við innlenda aðila. Þá eru komnir nýir hluthafar inn í starfsemi heimafyrirtækisins.

Ég beini þó þeim orðum til hæstv. iðnrh., og mun hafa það í huga þegar þetta kemur til iðnn. og þar á ég sæti, að skilyrði sem sett verði af Íslands hálfu feli í sér gagnkvæmni við heimaland þess sem vill fjárfesta á Íslandi. Þar verði gagnkvæmni. Og þá minni ég á t.d. að engin gagnkvæmni ríkir milli Íslands og Bandaríkjanna. Íslensku fyrirtækin, sem eru 100% eign íslenskra aðila og eru starfrækt í Bandaríkjunum, kaupa hráefni frá undirstöðuatvinnuvegi Íslendinga á algjöru lágmarksmarkaðsverði, selja það með ágóða eftir breytingu, eftir framleiðslu, í Bandaríkjunum, en mega ekki, samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef fengið, flytja ágóðann af starfseminni til Íslands, heldur verða að fjárfesta í landinu þar sem þau starfa. Þar af leiðandi erum við alltaf að skapa meiri og traustari atvinnutækifæri í heimalandinu en ekki í því landi sem skapar hráefnið til framleiðslunnar. Þess vegna bið ég hæstv. iðnrh., okkar vegna sem mælum með því að hann fái þau völd sem hann sækist eftir í þessum málum, að hann gæti þessara hagsmuna upp á framtíðina. Þetta er mjög stórt atriði.

Það þarf að vera gagnkvæmni líka í heimflutningi gjaldeyris. Það á ekki að lúta því að gjaldeyrisyfirfærsla frá Bandaríkjunum er lokuð. Það hefur átt sér stað að bandarísk fyrirtæki hafa fjárfest á þann hátt að þau hafa fengið 30% framlag frá heimaaðilum, skaffað tryggingar í heimalandinu fyrir kannski 50% en lagt fram sjálfir um 10%. Þetta hefur skapað þeim eignarhlut upp á helming. Það þýðir eignarhlut upp á helming gegn 10% kapítali en 50% yfirfærslu á hagnaði til Bandaríkjanna, til heimafyrirtækisins. Ég vil vara við þessu og þess vegna stend ég upp og hvet til þess að þessara hagsmuna verði mjög gætt þegar að því kemur að við förum að mynda fyrirtækjasamstæðu eða framleiðslukeðju með erlendum aðilum, kannski með íslenskum hráefnum sem fyrirtækin fá hugsanlega ekki annars staðar, alla vega ekki í því magni sem hér fæst ef um framleiðslu á sjávarafurðum, eða úrgangi t.d., er að ræða. Ég hef vissan grun um að erlendir aðilar hafi áhuga fyrir því að nota sér þann fiskúrgang sem hér er til framleiðslu á mjög seljanlegum vörum.

Mér þykir leitt að sjá í nál. meiri hl., sem fulltrúi Borgarafl. í Ed. hefur samþykkt, setningu eins og þessa. Ég vitna, með leyfi forseta, í nál. en þar stendur: „Í einu tilviki hefur jafnvel komið til tals milli aðila að verði ekki heimilt að stofna hér á landi iðnfyrirtæki í jafnri eign aðila verði fyrirtækið stofnað í heimalandi hins erlenda aðila.“ Í þessu felst hótun og slík hótun er nóg til þess að ég gæti snúist á móti frv. því að ég vil ekki að erlendir aðilar setji íslenska aðila upp að vegg í neinu tilfelli. Þetta segir mér eftirfarandi: Ef við ekki fáum að opna fyrirtæki og framleiðslu hér á landi flytjum við efni sem við þurfum að fá héðan út og framleiðum annars staðar þó að við berum kannski eitthvað minna úr býtum, því að það kostar okkur ekki annað en að ágóðinn sem við höfum upp úr þessu er minni en ella. Það segir sig sjálft að ekkert fyrirtæki færi að fjárfesta með íslenskum aðila, hvorki hér heima né erlendis, nema ágóðavon sé nokkuð trygg. Þetta eru nokkur varnaðarorð sem ég segi á þessu stigi.

M.ö.o., með þeirri breytingu sem ég vona að verði í nál. Nd, og endanlegum samþykktum, bæði á orðalagi nál. og eins hugsunarhætti gagnvart íslenskum ráðherrum, mæli ég með samþykkt þeirrar heimildar sem ráðherra fer fram á til að ákveða með minni háttar fyrirtæki, eins og hann orðar það sjálfur, þó að ég telji sjálfsagt að þegar um stærri fyrirtæki er að ræða, og er þá alveg sammála málflutningi hv. 7. þm. Reykv. og hv. 4. þm. Norðurl. v., verði að fara mjög varlega jafnvel þó að fyrirtækin séu smá í upphafi. Þegar um stærri fyrirtæki er að ræða er sjálfsagt að Alþingi fjalli um þau og setji sérstök lög um þau eins og hingað til hefur verið.

Ég vil líka að það komi fram hér að það er eins gott fyrir okkur að átta okkur á því að innan fárra ára, kannski er það þegar að byrja - eins og kom fram á ráðstefnu þar sem yfir 4000 vísindamenn voru samankomnir á iðnaðarráðstefnu í Cannes fyrir um tveimur árum síðan eða ekki það, þá kom mjög á dagskrá olíukreppa og væntanlegur skortur á eldsneyti í veröldinni. Gert var ráð fyrir að þessi orkuskortur yrði alvarlegur upp úr aldamótunum. Ég hef áður getið þess hér að það var talið að af heildarorku sem þekkt er í heiminum kæmu 7% frá olíu, en 40% af allri þeirri orku sem við notum koma frá olíu, og þess vegna þyrfti að finna aðrar leiðir. Ein leiðin var sú að færa alla orkufrekustu iðnaðarframleiðslu frá Suður-Evrópu, frá suðurhveli jarðar, upp til norðursins vegna þess að vatnsorkan var talin, a.m.k. í augnablikinu, það öruggasta upp á nánustu framtíð, en vatnið getur líka gengið til þurrðar. Í augnablikinu var hins vegar vatnsorkan talin vera öruggust og vatnsorkan er í mesta magni í Norður-Evrópu. Þetta kom fram á þessari ráðstefnu. Þeir voru því að tala um að gera Norðurlöndin að eins konar verksmiðjuhverfi veraldarinnar. Enginn þessara vísindamanna, sem þarna voru staddir og eru taldir vera fremstu vísindamenn veraldarinnar í orkumálum, mótmælti þessu eða gerði athugasemd við þetta, en fjölmargir, frá mörgum löndum, tóku undir þetta. Framsýn fyrirtæki hlusta á fagmenn þegar þeir tala á þennan hátt og hver veit nema einhver þessara framsýnu fyrirtækja séu þegar farin að taka fyrstu skrefin til þess að ná fótfestu þar sem vatnsorkan er öruggust. Ég vara því líka við frá þessu sjónarmiði, en þrátt fyrir það treysti ég hæstv. núv. iðnrh. til að fara rétt með þessi mál með hagsmuni Íslands fyrst og fremst í huga eins og ég treysti þeim sem Alþingi hverju sinni kýs sér til forustu í hverjum málaflokki fyrir sig, í þessu tilfelli iðnaðarmálum.