23.02.1988
Neðri deild: 60. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4778 í B-deild Alþingistíðinda. (3284)

293. mál, áfengislög

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Saga þessa máls, sem nú hefur verið mælt fyrir, er orðin alllöng. Það var á 106. löggjafarþingi sem við hv. þm. Magnús H. Magnússon, Friðrik Sophusson og Stefán Benediktsson lögðum fram frv. sama efnis og það frv. sem hér liggur nú fyrir. Síðan var það frv. endurflutt á 107. löggjafarþingi með breyttu gildistökuákvæði. Hvorugt frv. var afgreitt, en flm. í síðara skiptið voru hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson, Ellert B. Schram, Guðmundur Einarsson og Friðrik Sophusson ásamt ræðumanni hér. Það frv. var síðan endurflutt og að því stóðum við hv. þm. Jón Magnússon, Geir H. Haarde og Ingi Björn Albertsson á yfirstandandi löggjafarþingi.

Ég hef ekki áður tekið til máls í þessari umræðu vegna þess að ég hef aldrei verið 1. flm. og hef talið 1. flm. vera fullfæra um að mæla fyrir þessu máli. Þeim mun meira hafa þeir talað sem á móti sölu áfengs öls eru í þessu landi og oft af ærið litlu viti en þeim mun meiri fordómum. Með slíkri umræðu held ég að engum í þessu landi sé greiði gerður.

Í Dagblaðinu í dag eru viðtöl við nokkrar stúlkur, svokallaðar „au pair“ stúlkur erlendar á Íslandi. Stúlka ein frá Odense segir m.a., þegar hún er spurð um ástand mála á Íslandi og hvernig landið komi henni fyrir sjónir, með leyfi forseta:

Hún er spurð hvernig henni finnist næturlífið: „Ég fékk hálfgert áfall“, segir hún, „þegar ég fór fyrst út. Ég veit ekki almennilega á hverju ég átti von, en það var alla vega ekki það sem ég upplifði. Mér fannst fólk drekka mikið og allt of margir verða ölvaðir.“

Önnur stúlka segir, frá Danmörku líka, sem finnst landið almennt koma henni fyrir sjónir eins og Litla-Ameríka eins og hún orðar það: „Mér finnst dálítið skrýtið hvað fólk virðist drekka sig fullt hér. Auðvitað er þetta ekki algilt, en þetta er þó mjög vanalegt. Ég held að þetta hljóti að vera út af öllum þessum sterku drykkjum sem fólk drekkur.“

Þetta eru vitrar stúlkur. Auðvitað er ástand áfengismála hér svona vegna allra þessara sterku drykkja sem menn eru alltaf að drekka. Íslendingar hafa nefnilega fyrir löngu ákveðið að ef fólk neytir áfengra drykkja eigi það að verða fullt. Þannig er ástand mála ekki meðal siðmenntaðra þjóða og þess vegna geta Íslendingar á engan hátt talist siðmenntuð þjóð í þessu efni frekar en svo ótalmörgum öðrum. Það er nefnilega ekki sjálfgefið að neyslu áfengis fylgi endilega meiri háttar fyllirí.

Alþingi Íslendinga er að því leyti dæmalaus stofnun að hún getur ekki talað um þjóðina í heild eða ástand mála meðal þjóðarinnar öðruvísi en í meðaltölum. Hér hefur verið klifað á því, herra forseti, að með því að leyfa framleiðslu og sölu áfengs öls hljóti meðaltalsáfengisneyslan að aukast. Það getur vel verið. Mér er bara fyrirmunað að hafa á því minnsta áhuga. Það er nefnilega mikill munur á því hvort öll þjóðin dreypir í áfengi eða hálf þjóðin drekkur sig örvita af áfengi. Á þessu er allur munur.

Heildarneysla áfengis segir nákvæmlega ekki neitt um drykkjusiði þjóðarinnar. Þeir verða ekki í lagi fyrr en þjóðinni hefur lærst að fara með áfenga drykki eins og siðað fólk. Von okkar sem teljum æskilegra að fólk neyti léttra áfengra drykkja en sterkra er sú að einn góðan veðurdag renni upp sú stund að það verði heldur litið niður á fólk sem sést á almannafæri áberandi drukkið. Það eru nefnilega engir mannasiðir.

Því hefur hins vegar verið viðhaldið í þessu landi að það sé synd að drekka. Þess vegna fyllast menn sektarkennd í hvert skipti sem þeir neyta áfengra drykkja og deyfa hana með ofneyslu þeirra. Þetta er vond áfengisstefna eins og öll önnur áfengisstefna sem mótuð hefur verið í þessu landi ef hægt er að kalla að nokkur áfengisstefna hafi verið mótuð yfirleitt.

Það hefur gerst á síðustu árum t.d., herra forseti, að verð á léttum drykkjum hefur verið hækkað en lækkað á sterkum drykkjum. Finnst einhverjum hv. þm. eða herra forseta vit í þessu?

Það er enn og aftur talað um unglingana sem allir bera svo mjög fyrir brjósti. Vilja íslenskir foreldrar heldur að börnin þeirra eða unglingarnir drekki sterka drykki í óleyfi en létta drykki í leyfi? Getur þetta verið skynsöm uppeldisstefna í áfengismálum? Öll vitum við, sem börn eigum, að það þýðir ekkert að segja unglingum að þeir megi ekki neyta áfengra drykkja. Þeir munu ekki fara neitt að því. Hins vegar gætum við gert annað, sem væri miklu skynsamlegra, en það er að gera tilraun til að kenna unglingunum okkar að umgangast áfengi af einhverju skynsamlegu viti. Auðvitað á þeim að vera fullljóst að bjór jafnt sem annað áfengi er vara sem ber að fara varlega með og neyta af allri varúð, en hvernig í ósköpunum eiga unglingarnir að læra það ef ævinlega er talað um þessi mál af fordómum, og ég vil leyfa mér að kalla það heimsku að trúa því að neysla áfengra drykkja, léttra vína og áfengs öls þurfi endilega að hafa í för með sér að fólk veltist um og verði sér til skammar á almannafæri. Þannig þarf þetta engan veginn að vera, en þessu ráðum við auðvitað sjálf.

Mér er fullljóst að til er fólk sem á ákaflega erfitt með að umgangast áfengi án þess að valda sér verulegum skaða, en sá hópur er sem betur fer í miklum minni hluta. Hitt er svo annað mál að í því þjóðfélagi sem við höfum búið íslensku þjóðinni nú er allt of margt fólk sem á engan hátt ætti að eiga í erfiðleikum með að umgangast áfengi, á það samt, en þar koma til allt aðrir þættir.

Við höfum búið fólki þannig þjóðfélag að það vinnur allt of langan vinnudag. Það býr við allt of erfiðan fjárhag. Það hefur einfaldlega allt of lítinn tíma til að eiga samskipti við annað fólk, jafnvel við eigin fjölskyldu. Slíku fólki er hætt þegar það drekkur áfengi. (Gripið fram í: Hvers vegna drekka þeir þá í Rússlandi?) Ég mun koma að því seinna, herra þm., hvers vegna menn drekka í Rússlandi.

Ég held að skilyrði fyrir því að fólk geti umgengist áfengi eins og aðra vöru, sem til ánægju má verða sem betur fer í mörgum tilfellum, sé að við eigum sem allra mest af andlega sterku og heilbrigðu fólki sem rís undir sjálfu sér og þarf ekki á því að halda að leita að einhverjum óminnishegra til að gera sér lífið bærilegt. Ég held að hv. þm., sem ákafast hafa mælt móti því að sala og bruggun áfengs öls verði leyfð, ættu að huga betur að því við hvernig aðstæður fólk neytir áfengra drykkja og þá helst sterkra drykkja hér í landi. Menn hafa gengið svo langt í skilningsleysi sínu að vitna til áfengisvandamála Grænlendinga og þau eru skýrð með því að þar sé svo mikið drukkið af áfengu öli. Þarna er verið að bera þá saman við það þjóðfélag, sem við lifum í, sem er þó ærið miklu lengra komið. (Gripið fram í: Lengra komið hvernig?) Menningarlega, efnahagslega og alla vega séð eru Grænlendingar langt á eftir Íslendingum, því miður. Þar er um að ræða þjóð í djúpri kreppu, þjóð sem hefur orðið að þeytast frá því að vera með frumstæðustu þjóðum Evrópu og inn í velferðarsamfélag sem á engan hátt hefur verið gert þannig úr garði að það bil væri brúað sem þarna hlaut að myndast. Að þm. skuli voga sér að grípa til svo ódýrra leiða, svo ómerkilegs samanburðar gegn betri vitund er satt best að segja ekkert minna en þinghneyksli.

Um þetta mál mætti halda langa ræðu. Öll þessi mál hjá okkur eru í megnasta ólestri og mætti tala lengi um sölu áfengra drykkja sem nú fer fram á tíu stöðum í þessu stóra og strjálbýla landi. Það er eitt sér efni í hella umræðu í þinginu og mættu þeir sem hæst belgja sig um jafnvægi í byggð landsins og sama rétt allra landsmanna til lífsgæða taka þátt í þeirri umræðu þar sem beinlínis er verið að hrekja verslunina í landinu til þéttbýlissvæðanna með því að neyða fólk um fjöll og firnindi hvernig sem viðrar til þess að ná sér í eina tegund vöru sem allflest fólk notar hvort sem mönnum líkar betur eða verr.

Svo mikil vitleysa hefur verið sögð í þeim löngu umræðum sem hér hafa farið fram að lengi mætti halda áfram til að mótmæla öllu því. Ég ætla hins vegar að láta mér nægja að lesa yfir þeim sem hér nenna að hlýða á mál mitt nokkrar tilvitnanir í frábæra grein sem Grétar Sigurbergsson, geðlæknir á Borgarspítalanum, reit í Morgunblaðið 10. febr. sl. þar sem hann hefur lagt vinnu í að bæði hrekja statútur um læknisfræði frá mönnum sem ekkert vit hafa á læknisfræði, fölsun á skýrslum heilbrigðisyfirvalda og önnur óvönduð vinnubrögð sem hér hafa verið höfð í frammi. Með leyfi forseta gríp ég niður í það sem Grétar Sigurbergsson (Gripið fram í: Þú verður að lesa þetta allt held ég.) læknir segir um heildarneyslu:

„Allt það líkamlega, félagslega og geðræna tjón sem áfengi veldur er jafnan talið vera í réttu hlutfalli við heildarneyslu hverrar þjóðar mælt í hreinum vínanda á mann 15 ára og eldri. Ef heildarneysla vínanda eykst, þá eykst einnig tjónið sem það veldur. Þetta á þó ekki við um drykkjusýki. Tíðni drykkjusýki er sú sama t.d. í Bandaríkjunum og Svíþjóð þótt heildarneysla á íbúa í Bandaríkjunum sé mun meiri en í Svíþjóð. Drykkjusýki virðist því lúta öðrum lögmálum en annað það tjón sem vínandi veldur. T.d. eru erfðaþættir ...“ (Gripið fram í.) - Herra forseti. Svo er hv. 2. þm. Vestf. mál að tala að hann skal hér með upplýstur um að ég tel að ég hafi lokið máli mínu eftir svo sem stundarfjórðung. Mun hann þá komast að. - „Til dæmis eru erfðaþættir mikilvægir í tilurð drykkjusýki. Hafa verður í huga þegar rætt er um heildarneyslu hverrar þjóðar að 10% þjóðarinnar neyta 50% þess vínanda sem þjóðin neytir í heild. Heildarneyslan segir því lítið til um hver almenn neysla vínanda er. Þá ber að hafa í huga að ekki eru allir ofneytendur áfengis drykkjusjúkir.

Við Íslendingar höfum jafnan státað okkur af lágri heildarneyslu vínanda. Í skýrslum Hagstofunnar er þó tekið fram að tölur um heildarneyslu landsmanna, sér í lagi hin síðari ár, séu mjög óáreiðanlegar og kemur þar margt til. T.d. er ekki tekið með í tölum um heildarneyslu allt það áfengi sem Íslendingum er selt í Fríhöfninni og Hagstofan telur að þar sé um mikið magn að ræða.“ - Ætli við förum ekki öll nærri um það.

„Á síðasta ári munu Íslendingar hafa keypt um 900 þúsund lítra af bjór í Fríhöfninni. Ef áætlað er að álíka fjöldi hafi keypt leyfilegan skammt af bjór eða sterku víni, þ.e. 6–8 lítra af bjór og/eða einn lítra af sterku víni, þá selst þar á ári sem svarar hálfum lítra af hreinum vínanda á hvern íbúa 15 ára og eldri.

Áfengi það sem farmenn fá að taka með sér inn í landið er heldur ekki með í tölum Hagstofunnar um heildarneyslu og er þar þó umtalsvert magn. Þá er ótalið allt það áfengi sem smyglað er til landsins og erfitt er að áætla. Þó virðist sem hver sem vill geti orðið sér úti um bjórkassa hvenær sem er, reyndar á uppsprengdu verði. Vil ég leyfa mér að fullyrða að ef allt smyglað áfengi yrði talið með í tölum um heildarneyslu, þá væri heildarneysla hér svipuð og hjá öðrum Norðurlandaþjóðum ef ekki meiri.“

Hér er einfaldlega öll lygin um þá meðalheildarneyslu, sem menn hafa státað af, hrakin. Ég vil benda á ýmsa staði á þessu landi þar sem aldrei hefur skort hvorki áfengi né bjór og nægir að nefna staði eins og Vestmannaeyjar, Vestfirði. Hver hefur kvartað yfir því að erfitt sé að nálgast áfengi og bjór þar? (ÓÞÞ: Þú varst að gera það áðan. ) Ekki nokkur maður.

Grétar Sigurbergsson læknir hefur meira að segja um þetta. Hann víkur að upplýsingum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar:

„Heilbrigðisstofnun Sameinuðu þjóðanna hefur bent þjóðum heims á vænlegar leiðir til að halda heildarneyslu niðri í þeirri von að draga mætti úr áfengisskaða. WHO [sem er erlend skammstöfun á því fyrirtæki] ráðleggur eftirfarandi:

1. Takmarka má aðgang að áfengi með: a. stjórnun á innflutningi og framleiðslu, b. stjórnun dreifingar, þ.e. takmörkun á fjölda útsölustaða, ákvæðum um lágmarksaldur, vínveitingaleyfi o.s.frv., c. verðstýringu með skattlagningu.

2. Draga má úr eftirspurn eftir áfengi með: a. upplýsingum og fræðslu um áfengi og vandamál sem skapast af því, b. takmörkunum á auglýsingum á áfengi, c. beitingu siðferðilegra og trúarlegra afla í þjóðfélaginu.

Hvergi í ráðleggingu WHO er að finna neitt sem styður bjórbann. T.d. er ekki talið í þessum ráðleggingum að fækkun tegunda áfengis leiði til minni heildarneyslu við óbreytt sölufyrirkomulag. Hvergi er að finna stafkrók um að áfengi sé hættulegra í sínu veikasta formi en þeim sterkari, enda slíkt rökleysa. Þessar ráðleggingar WHO hefur þó ýmsum tekist að rangtúlka sem svo að þær styddu bjórbann. Er bágt til þess að vita að nafn WHO skyldi bendlað við annað eins veraldarviðundur og bjórbannið er.

Skýrt er tekið fram í áfengisstefnu margra þjóða, t.d. Breta og Svía, að beina beri neyslu frá sterku áfengi til hinna veikari tegunda, svo sem bjórs og léttra vína, með því að skattleggja áfengi í hlutfalli við styrkleika þess.“

Herra forseti. Það er hægt að ræða um áfengismál af skynsamlegu viti og það er mál til komið að einhver gerði það. Ég mun því halda áfram að vitna í Grétar Sigurbergsson geðlækni.

„Áfengisskaði á Íslandi er gífurlegur.“ Og ég vil fá að skjóta inn: hér á landi þar sem heildarneysla er minnst meðal flestra landa í Evrópu. „Flestir meiri háttar glæpir, morð og sjálfsmorð tengjast ofneyslu áfengis. Sama er að segja um alvarleg umferðarslys, hjónaskilnaði, sjúkdóma, húsbruna o.s.frv. Talið er að fjórði hver maður sem leggst inn á sjúkrahús geri það vegna líkamlegra áfalla sem stafa beint eða óbeint af áfengisneyslu. Kostnaður þjóðfélagsins af áfenginu er meðal flestra þjóða talinn margfaldur sá gróði sem fæst af sölu þess með skattlagningu.

Síðustu tólf árin hefur stór hluti landsmanna verið meðhöndlaður við ofneyslu áfengis eða drykkjusýki hérlendis og/eða erlendis. Með sama áframhaldi verður mestöll þjóðin búin að fá slíka meðferð innan fárra áratuga. Hvergi á byggðu bóli eru til hlutfallslega jafnmörg sjúkrarúm fyrir ofneytendur áfengis og drykkjusjúka. Þessi þróun bendir að mínu mati ekki til að núverandi áfengisstefna sé sérlega heillavænleg eða líkleg til að draga úr heildarneyslu hvað þá áfengisskaða. Þvert á móti virðist áfengisstefnan ýta verulega undir ofneyslu. Meðferðin á hverjum einstaklingi kostar skattborgarana stórfé, hundruð eru á biðlistum. Telja menn enn að íslensk áfengisstefna sé sú eina æskilega? Telja menn að ástandi áfengismála í þessu landi hafi verið borgið með því að banna sölu og bruggun áfengs öls?"

Herra forseti. Grétar Sigurbergsson beinir næst orðum sínum að verðstýringu og ég vitna, með leyfi forseta:

„Íslensk stjórnvöld hafa fyrst og fremst haldið niðri heildarneyslu með takmörkun á fjölda útsölustaða og með gífurlegri skattlagningu sem að mínu mati er fyllilega réttlætanleg með hliðsjón af þeim kostnaði sem ofneysla áfengis hefur í för með sér fyrir ríkissjóð. Verðstýring og einkasala eru langáhrifamestu leiðir til að halda niðri heildarneyslu og með skattlagningu eftir styrkleika má tiltölulega auðveldlega beina neyslunni í ákveðinn farveg. T.d. til sterkra vína, léttra vína eða enn veikari tegunda séu þær á boðstólum. Því miður hefur verðstýring á sölu hinna ýmsu tegunda áfengis á Íslandi síðustu ár aðallega stjórnast af því hversu mikið vantar í ríkiskassann hverju sinni.“ - Og skulum við þá ekki einu sinni geta okkur til um hvaða áhrif hefur haft hverjir hafa haft umboð umræddra drykkja. Ég held áfram tilvitnun minni: „Ekkert annað virðist ráða stefnunni. Eftir jákvæða þróun síðustu áratuga í átt til neyslu veikra vína hefur þróunin snúist við hin síðustu ár. Skattlagning hefur verið aukin hlutfallslega á léttum vínum og því hefur neysla sterkra vína aukist. Fyrir ríkissjóð er hagstæðara að hvetja til neyslu sterkra vína þar eð þau eru hlutfallslega ódýrari í innkaupi og framleiðslu. Fyrir þjóðfélagið í heild hlýtur þessi þróun þó að teljast afleit og að mínu mati að ýta undir ofneyslu og þar með áfengisskaða.“

Herra forseti. Ég mun að lokum vitna enn í grein Grétars Sigurbergssonar því þar er að finna staðreyndir og upplýsingar sem ég held að séu mjög nauðsynlegt innlegg í þessa umræðu eftir allt það dauðans bull sem hér hefur verið haft í frammi dag eftir dag í umræðum um þessi mál. Hann víkur að alþjóðlegri þróun og fær þá hv. 2. þm. Vestf. nokkuð að heyra um þá vini mína sovétmenn vegna fyrri fsp.

„Flestar þjóðir Evrópu“, segir Grétar Sigurbergsson, „hafa náð nokkrum árangri síðustu ár í þá átt að draga úr heildarneyslu.“ - Og það skal tekið fram að þessari grein fylgdu mörg línurit. - „Fram til 1980 jókst heildarneysla flestra Evrópuþjóða stöðugt, en hefur farið minnkandi síðan. Þetta hefur m.a. gerst fyrir tilstilli WHO. Á Íslandi fer heildarneysla hins vegar vaxandi enn sem komið er og ekkert bendir til að sú þróun muni breytast á næstunni. Sérstaklega er áhyggjuefni að neysla sterkasta forms áfengis fer hratt vaxandi. Skipta má vestrænum þjóðum í vínþjóðir, bjórþjóðir og þjóðir sem fyrst og fremst neyta sterkra vína. Þróunin hefur síðustu áratugi verið í þá átt að þessi munur á neysluvenjum hinna ýmsu þjóða hefur verið að jafnast út. Þannig hefur dregið úr vínneyslu t.d. Frakka, bjórneyslu Þjóðverja og neyslu sterkra drykkja í Svíþjóð. Þetta er kallað „internationalisering“ á drykkjuvenjum. Við Íslendingar fylgjum ekki með í þessari þróun, enda tilneyddir að halda okkur við sterkari tegundir áfengis.“

Þeim þm. til upplýsingar sem mest hafa talað um reynslu Færeyinga hefur Grétar Sigurbergsson geðlæknir um þetta að segja: „Færeyingar hafa aftur á móti ekki farið varhluta af þessari þróun. Þar var sterkur bjór aðeins leyfður í svokölluðum bjórklúbbum fyrir 1. júní 1980. Höfðu þá aðeins klúbbmeðlimir aðgang að þessum klúbbum. 1. júní 1980 var leyft að brugga sterkan bjór í Færeyjum og þá gat almenningur keypt sterkan bjór eftir ákveðnum en mjög rúmum reglum. Þannig má hver Færeyingur kaupa 42 lítra af sterkum bjór á mánuði. Auk þess mega þeir kaupa án hafta meðalsterkan bjór í verslunum. Því hefur verið haldið fram, m.a. af áfengisvarnaráði, að þessi lagabreyting í Færeyjum hafi leitt til mjög aukinnar heildarneyslu í landinu. Sannleikurinn er hins vegar sá að á árunum 1978–1984 minnkaði heildarneysla Færeyinga úr 5,72 lítrum á mann 15 ára og eldri í 5,50 lítra, þ.e. um 4%. Á meðan jókst heildarneysla Íslendinga úr 4,11 lítrum í 4,46 lítra eða um 9% þrátt fyrir bjórleysið. Þessar upplýsingar er auðvelt að verða sér úti um á Hagstofunni og er mér algjörlega óskiljanlegt hvernig áfengisvarnaráð fór að því að komast að þeirri niðurstöðu að hér væri nánast um þjóðarharmleik að ræða hjá Færeyingum. Þessi reynsla Færeyinga sýnir okkur þvert á móti að aukin bjórneysla dregur úr neyslu annarra tegunda og heildarneyslan helst óbreytt eða minnkar.

Þá víkur að reynslu Svía. Því hefur verið haldið fram að reynsla Svía af sterkum bjór sé okkur Íslendingum víti til varnaðar. Reyndar má segja að hjá Svíum sé að finna eina dæmið sem hægt væri að nota til hliðsjónar þegar spá á fyrir um hvað muni gerast verði bjór leyfður hér á landi. Í Svíþjóð var sterkur bjór nefnilega algjörlega bannaður á tímabilinu 1917–1955 er hann var leyfður á ný og aðeins seldur í áfengisversfunum sænska ríkisins. Fyrirkomulagið var sem sagt líkt og fyrirhugað er hér á landi samkvæmt bjórfrumvarpinu. Árið áður en sterki bjórinn var leyfður á ný, þ.e. 1954, var aflétt skömmtun á áfengi í Svíþjóð sem hafði staðið frá 1917.

Fyrstu árin sem sterkur bjór var leyfður var neysla hans hverfandi en hefur aukist gífurlega hin síðustu ár. Á sama tíma og neysla á sterkum bjór hefur margfaldast hefur mjög dregið úr neyslu sterkra vína og heildarneysla hefur minnkað meira en hjá nokkurri annarri Norðurlandaþjóð.

Það sem bannmenn vitna oft til þegar þeir vilja sannfæra landsmenn um skaðsemi bjórs er að 1965 leyfðu Svíar sölu á svokölluðu milliöli í matvöruverslunum. Engin aldurstakmörk giltu hvað varðaði kaup á milliöli fyrst í stað. Unglingar áttu þannig óheftan aðgang að þessu öli. Sölustöðum áfengs öls fjölgaði með þessari aðgerð úr ca. 400 í yfir 20 000. Má nærri geta að þetta hafði mikil áhrif á heildarneyslu landsmanna án þess að teljandi breyting yrði á sölu áfengis í áfengissölu ríkisins. Skýringin er auðvitað sú að þarna kom til nýr hópur neytenda sem áður hafði ekki haft greiðan aðgang að áfengi, þ.e. unglingar. Milliölið var tekið úr verslunum 1977. Það var aldrei selt í áfengisverslunum. Vert er að hafa hugfast að ekki er ætlunin að bjór verði seldur nema í áfengisverslunum samkvæmt frv. því sem nú liggur fyrir Alþingi“, en þar er um að ræða að sjálfsögðu hið fyrra frv.

„Hið jákvæða við tilraun Svía með milliölið var þó að neysluvenjur Svía tóku að beinast í átt að bjórneyslu. Þetta ásamt ýmsum aðgerðum stjórnvalda hefur leitt til þess að í fyrsta sinn síðan 1941 hefur heildarneysla í Svíþjóð minnkað umtalsvert eða meira en hjá nokkurri annarri Norðurlandaþjóð. Með tilkomu milliölsins 1965 má segja að sænsk stjórnvöld hafi verið að ganga þvert á allar ábendingar WHO, enda árangurinn eftir því. Tekið skal fram að allt frá 1955 hefur verið leyfð sala á veikum bjór í matvöruverslunum í Svíþjóð.“

Áfram heldur Grétar Sigurbergsson og ég held að það sé mjög nauðsynlegt að þessi rannsókn hans verð hér tíunduð á Alþingi, með leyfi forseta: „Ég fæ ekki betur séð en að reynsla Svía af sterkum bjór sé á flestan hátt jákvæð. á sama tíma og neysla á sterkum bjór hefur aukist margfalt hefur dregið mjög úr neyslu sterkra drykkja og heildarneyslan hefur minnkað verulega. á sama tíma hefur mjög dregið úr neyslu unglinga á áfengi, dregið hefur úr drykkjulátum unglinga og mjög hefur dregið úr eiturlyfjaneyslu grunnskólabarna. 1971 höfðu þannig 15% 9. bekkinga prófað eiturlyf en ellefu árum seinna, 1982, 10% og 1986 5%. Stórlega hefur dregið úr ölvun við akstur hin síðustu ár þrátt fyrir mjög vaxandi umferð.

Bjórneyslan nú í Svíþjóð er álíka mikil í lítrum vínanda talið og hún var á tímum milliölsins, aðeins sölufyrirkomulagið er annað. Að öllu samanlögðu virðist skipta meginmáli hvernig sölukerfi á bjór er. Sé hann seldur á sama hátt og annað áfengi virðist hann frekar draga úr heildarneyslu. Alla vega er ljóst að hann dregur verulega úr neyslu á sterku áfengi. Sé hann aftur á móti seldur í matvöruverslunum, þ.e. eins og gosdrykkir, leiðir það til aukinnar heildarneyslu.“

Til þess að spara tíma, herra forseti, ætla ég að láta hér lokið tilvitnunum um hina alþjóðlegu þróun, en Grétar Sigurbergsson hefur einnig rannsakað hvernig ástandið er hjá Finnum og kemst þar mjög að sömu niðurstöðu.

Að lokum, herra forseti, ætla ég að vitna í það sem geðlæknirinn hefur að segja um það sem oft hefur verið stagast á hér á hv. Alþingi, væntanleg vinnusvik vegna bjórdrykkju.

Þetta segir Grétar Sigurbergsson, með leyfi forseta, um vinnusvik: „Eitt af mörgu sem bannmenn hræða þjóðina með er að með því að leyfa sterkan bjór mundu alls kyns vinnusvik aukast, afköst minnka og vörugæði þverra, einnig mundi dagdrykkja aukast. Mesta bjórþjóð í heimi eru Vestur-Þjóðverjar. Sú þjóð er annáluð fyrir dugnað og fyrir að framleiða heimsfrægar gæðavörur. Á ég erfitt með að trúa því að þeir séu ölvaðir við að setja saman t.d. Bensana þar í landi, en sé svo eru það einhver bestu meðmæli sem ég hef heyrt með bjórnum hingað til. Aðrar þekktar bjórþjóðir eru Danir, Austurríkismenn, Belgar og Ástralir. Allar þessar þjóðir eru þekktar fyrir allt annað en lélega framleiðslu. Þær þjóðir sem neyta hlutfallslega minnst af bjór og þeim mun meira af sterkum drykkjum eru Sovétmenn og Pólverjar. Ef ég man rétt telur sjálfur Gorbatsjov, a.m.k. samkvæmt nýútkominni bók sinni, að vinnusvik séu eitt helsta þjóðarmein hjá hans þjóð. Það skyldi þó ekki vera vodkanu að kenna?"

Ég lýk hér með tilvitnunum í þessa ágætu grein Grétars Sigurbergssonar geðlæknis sem svo sannarlega ber að þakka fyrir því að í hana hefur verið lögð vinna til að kanna staðreyndir og afhjúpa þá skýrslufölsun sem hér hefur hvað eftir annað verið höfð í frammi við hið háa Alþingi af ýmsum þeim stofnunum sem yfirvöld eiga að geta treyst.

Ég vil nota þetta tækifæri, herra forseti, til að þakka hv. allshn. fyrir að hafa haft manndóm í sér til þess að koma nú einu sinni þessu síðasta af mörgum frv. um leyfi til sölu og bruggun á áfengu öli út úr hv. allshn. Ég get afar vel fellt mig við hið nýja frv. Ég get ekki betur séð en það sé betra en þau sem áður hafa verið flutt og er það vel. Ég harma það að vísu að ekki skyldu allir nefndarmenn geta sameinast um flutning frv. En það er Alþingi til sóma að þetta frv. skuli þó vera komið frá meiri hl. nefndarinnar og ég vænti þess að þm. hafi burði til þess að taka afstöðu til þess og reyna að taka rökum í þessu máli og treysti því að þetta mál hljóti afgreiðslu á þessu löggjafarþingi.

Auðvitað eiga alþm. að taka ákvörðun í þessu máli og allar flóttatilraunir eins og t.d. þær að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu um mál eins og þetta eru fráleitar og satt að segja í hæsta máta undarlegt að margir þeir hv. þm., sem telja sig vera boðbera frelsis og frjálsrar samkeppni í þessu landi, skuli hafa gengið harðast fram í að taka að sér forræði annars fólks. Vitanlega verður hver einasta manneskja sem telst vera andlega heilbrigð að ráða sínu lífi sjálf hvað neyslu varðar. Vitaskuld. Sú svipting á eigin forræði sem þessir menn hafa barist fyrir er fráleit og langt fyrir neðan virðingu okkar alþm.

Hinu háa Alþingi væri sæmra að sjá svo til að í þessu landi byggi þjóð sem ynni eðlilegan vinnutíma, hefði eðlileg fjárráð og hefði eðlilegan tíma til að sinna áhugamálum sínum, menningarlegu lífi sínu og samveru við annað fólk og aðrar manneskjur. Ef okkur tækist það er ég ósköp lítið hrædd við að þjóðin kynni ekki að fara með áfengt öl og gæti nýtt sér það sér og öðrum til ánægju og gleði. - Ég hef lokið máli mínu, herra forseti.