23.02.1988
Neðri deild: 60. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4786 í B-deild Alþingistíðinda. (3285)

293. mál, áfengislög

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Ég tel mig ekki þurfa að príla upp á neinn sérstakan skemil til að stækka í pontu, en ég vil byrja á að vekja athygli á því að nú er búið að flytja tvær stórgagnmerkar framsöguræður fyrir þessu máli og andláti fyrra málsins. En þannig stendur á að venjulegum þingtíma á að ljúka eftir fimm mínútur. Það verður að segjast eins og er að þm. vilja stundum fá að skipuleggja að einhverju leyti sinn tíma, að það sé ekki hér vinnuskylda 24 tíma á sólarhring. Ég vona að hv. 13. þm. Reykv. taki undir það, svo mjög var hún að tala á móti þessum langa vinnutíma, að það sé hægt að treysta því einhvern tímann að hér sé farið eftir vissum áætlunum. Ég fyrir mitt leyti ætlaði mér að fara frá klukkan fimm mjög ákveðið, en er búinn að biðja um orðið og hef þó nokkuð um það að segja sem hér hefur verið imprað á. Ég óska þess vegna skýlaust eftir svari frá forseta með það án nokkurra undanbragða hvað lengi hann hyggst halda áfram fundi og vek á því athygli að það má merkilegt heita ef sú valdníðsla á fyrst að líðast að menn ætla fyrst að flytja frv. úr nefnd og aðeins í sýndarmennsku að kalla það aftur til nefndarinnar og forseti er jafnframt einn af flm., ef hér á að keyra áfram án þess að menn fái eðlilega að standa að umræðum um þetta mál. Ég vil fá það alveg á hreint. Ég spurði forseta að því í morgun hvort það yrði fundur eftir klukkan fimm og hann kvað að hér yrði lokið fundi klukkan fimm. Ég óska eftir svörum við þessu.