23.02.1988
Neðri deild: 60. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4787 í B-deild Alþingistíðinda. (3286)

293. mál, áfengislög

Forseti (Jón Kristjánsson):

Áður en næsti ræðumaður tekur til máls um þingsköp vil ég geta þess að mig rekur ekki minni til þess að ég hafi ákveðið um fundarlok í dag. Það er venjan að þingfundur sé frá klukkan tvö til fimm ef þannig stendur á. Hins vegar höfum við iðulega haldið áfram frá fimm til klukkan sjö ef þannig hefur staðið á spori. Það er að engu leyti óvenjulegur máti á umræðum í dag. Hér er aðeins einn á mælendaskrá þannig að það er ekkert því til fyrirstöðu að ljúka þessu máli þess vegna. Ég bendi á að hér er stórmál, sem var lagt fram í dag, sem ætlunin var að taka til umræðu á morgun. Ef menn telja sér ekki mögulegt að ljúka þessu máli í dag er hætt við að það þurfi að halda kvöldfund um málið ef því á að ljúka. Ég bendi á í þessu sambandi að 1. umr. um frv. til l. um breytingu á áfengislögum hefur þegar farið fram og auðvitað hefði nefndinni verið í lófa lagið að skila nál. og að þetta hefði verið 2. umr. Nefndinni fannst þetta hreinlegra og þinglegra. Ég bendi á það í þessu sambandi og ég vísa því algjörlega á bug að forseti þingsins hafi neina valdníðslu í huga í þessu efni og tel þau orð algjörlega út í hött. Ég vildi láta þetta koma fram.