23.02.1988
Neðri deild: 60. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4787 í B-deild Alþingistíðinda. (3287)

293. mál, áfengislög

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Mér þykir það koma úr hörðustu átt að hv. 2. þm. Vestf. ásakar mig fyrir að hafa tafið tímann hér í þinginu. Ég hef ekki lagt það í vana minn að tefja mál í þinginu með málþófi, hef aldrei gert það og mun aldrei gera. Ég var heldur ekki frsm. um frv. sem hér var lagt fram. Ég hef aldrei tekið til máls í umræðu um þetta mál fyrr. Það hefur hv. 2. þm. Vestf. gert hvað eftir annað. Ég leyfði mér hins vegar að styðja þetta mál, hef gert það frá fyrstu byrjun, enda einn af flm. málsins fyrr og síðar þar til það kemur nú frá hv. allshn. í nýjum búningi. Ég tel mig því ekki hafa tafið hér mál heldur lagt inn í það eins vitræn atriði og aðrir sem um það hafa talað.

Hitt er svo annað mál að tal um ofbeldi, eftir að hv. 2. þm. Vestf. leyfir sér að fara fram á það að hér verði umræða stöðvuð klukkan fimm vegna þess að hann, sem er einn á mælendaskrá, þarf að bregða sér frá er furðulegt. Ég bið hv. forseta að fara fram á það við þm. að annaðhvort sleppi hann þessari ræðu, við erum hvort eð er búin að heyra ræður hans allar, eða hann losi sig undan þeim skyldustörfum sem hann telur merkilegri en þingstörf og haldi ræðu sína svo að þingfundur fari fram á eðlilegan hátt.