23.02.1988
Neðri deild: 60. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4790 í B-deild Alþingistíðinda. (3291)

293. mál, áfengislög

Guðrún Helgadóttir:

Sú umræða sem hér hefur farið fram er æðikyndug. Við erum alvön því - og það hélt ég að hv. 2. þm. Vestf. vissi - að vita mjög ógjörla hversu lengi við erum á þingi dag hvern og við höfum löngu sætt okkur við það vegna þess að við viljum umfram allt hafa málfrelsi á hinu háa Alþingi. Eitt sinn minnist ég þó að mér ofbauð og jafnvel sárnaði skipulag vinnu Alþingis, sem hv. 2. þm. Vestf. átti verulegan hlut að, en það var um sl. jól. Það vill svo til að við flestir hv. þm. reiknum með því að við eigum frí um jólin og getum verið með fjölskyldum okkar heima eða erlendis. En svo bar við og var því ekki mótmælt af hálfu hv. 2. þm. Vestf. að nú skyldu þm. ekki fá jólaleyfi heldur voru menn skikkaðir til að vera hér nótt og dag allt fram á sjálfa jólahátíðina og koma hingað til þings um leið og fyrstu dögum hennar lauk. Svo leyfa þessir menn sér að kvaka yfir því þó að umræðu sé haldið áfram á venjulegum þingdegi þó klukkan sé tíu mínútur yfir fimm! Ég minnist þess varla að hafa komið heim til mín af þingi fyrr en um kvöldmatarleytið og ég spyr: Eru það einhver ný tíðindi að hér fari fram umræður allt til klukkan sjö á venjulegum vinnudegi? Hér stendur samflokksmaður virðulegs forseta og eys yfir hann svívirðingum, vil ég kalla, með hótunum um að hann sé ekki verður þess að hljóta atkvæði hans sem forseti vegna þess að hv. þm. kemst ekki út í bæ klukkan fimm. Hvers konar grín er hér á ferð? Ef ég er hneyksluð á einhverju hér öðru en málflutningi hv. 2. þm. Vestf. er það nú eiginlega á því umburðarlyndi sem virðulegur forseti hefur hér sýnt með því að taka í mál að fresta fundi á svo grindhoruðum grundvelli sem hér hefur verið lagður.