24.02.1988
Efri deild: 60. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4803 í B-deild Alþingistíðinda. (3303)

69. mál, útvarpslög

Frsm. meiri hl. menntmn. (Eiður Guðnason):

Herra forseti. Það var í rauninni aðeins örstutt athugasemd vegna þess sem fram kemur í nál. minni hl. en þar segir með leyfi forseta:

„Eru umsagnirnar yfirleitt jákvæðar og beinlínis lagt til að samþykkja beri frv. ef undan er skilin umsögn útvarpsréttarnefndar.“

Ég vil bara vekja athygli á því að þetta er rangt og þurfa menn ekki annað en að lesa umsagnirnar og raunar vitnaði ég til þess áðan að það er aðeins einn aðili sem leggur til skilyrðislaust að frv. verði samþykkt og það er Samband ísl. sveitarfélaga, en umsögn þeirra er ekki efnisleg á neinn hátt og í öðrum umsögnum er beinlínis lagt til sem eðlileg málsmeðferð að þetta verði skoðað í samhengi. Ég vildi ekki að þessu yrði ómótmælt.

Að endingu væri kannski rétt að minna á að það liggur alltaf við borð að umræður um útvarpslög fari út í almennar umræður um málefni Ríkisútvarpsins sérstaklega og þær umræður eiga sér alltaf stað með ákveðnu millibili hér á hinu háa Alþingi og ég vildi eiginlega mælast til þess að hæstv. menntmrh. tæki upp þann sið að afhenda Alþingi árlega skýrslu um málefni Ríkisútvarpsins, þetta er ein veigamesta stofnun á vegum ríkisins, og síðan yrðu umræður um þá skýrslu þannig að farið gæti fram á Alþingi heilleg, efnisleg og samhangandi umræða um þessi mikilvægu mál. Ég vildi biðja hæstv. ráðherra að taka þessa hugmynd til vinsamlegrar skoðunar.