24.02.1988
Efri deild: 60. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4806 í B-deild Alþingistíðinda. (3306)

69. mál, útvarpslög

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég tók ekki eftir því hvort hæstv. menntmrh. gaf um það afdráttarlausar yfirlýsingar sem hv. 3. þm. Vesturl. upplýsti áðan að til stæði að frv. að nýjum útvarpslögum yrði lagt fyrir yfirstandandi þing. Ég tel það mikilvægt innlegg í málið og æskilegt að hæstv. ráðherra upplýsi okkur um það hvort þess megi vænta að frv. af þessu tagi verði lagt fyrir þetta þing þannig að við getum tekið á þeim málum sem hér eru á dagskrá áður en langur tími líður, jafnvel þó að dagskrármálinu yrði vísað til ríkisstjórnarinnar.

Ég hef orðið var við það að þm. hafa í vaxandi mæli áhyggjur af þróun útvarpsmála, m.a. af stöðu Ríkisútvarpsins og um það liggur nú fyrir þingmál frá þingflokki Alþb. sem verður tekið hér fyrir í virðulegu Sþ. áður en langur tími líður. Ég tel að það hafi einmitt verið tímabært og nauðsynlegt að flytja það mál vegna þess að þessi endurskoðun útvarpslaganna stendur yfir. Ég vil sem sagt inna hæstv. ráðherra eftir því hvenær þetta frv. kemur hér inn í þingið þannig að við fáum tækifæri til að taka á því og öðrum mikilvægum skipulagsmálum Ríkisútvarpsins og svo þeirrar nýju tækni sem boðið er upp á og minnst er á í dagskrármálinu.

Í nál. minni hl. menntmn. er tekið þannig til orða að frjáls útvarpsrekstur hafi fyrst verið leyfður á Íslandi frá og með árinu 1986. Þessu vil ég leyfa mér að mótmæla. Ég tel að Ríkisútvarpið hafi verið frjáls stofnun. Ríkisútvarpið er stofnun sem hefur lotið ákveðnum lögum sem hafa verið sett af Alþingi með frjálsum hætti og talið um það að þessar nýju stöðvar, hvað þær nú heita allar, séu eitthvað frjálsari en Ríkisútvarpið er ákaflega leiður orðavani sem maður heyrir mjög oft á seinni árum en ég get ekki setið mig úr færi að mótmæla úr því ég hljóp hér upp til að spyrja hæstv. menntmrh. ákveðinnar spurningar.

Síðan í sambandi við það sem hv. 7. þm. Reykn. sagði um þróun málsins verð ég að segja alveg eins og er að mér finnst að meira sé um ræður, meira um orð og orðaflóð í þeim efnum heldur en athafnir. Hann líkti stöðu málsins gagnvart enskunni núna við þá stöðu sem íslensk tunga hafði áður gagnvart dönskunni. Ég held því fram að núorðið sé staða móðurmálsins að sumu leyti veikari gagnvart enskunni en hún var áður gagnvart dönskunni, eða um skeið, fyrst og fremst vegna þess að þá fór baráttan gegn dönskunni saman við alhliða sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar. Nú er þetta ógnar meðvitundarleysi í sambandi við þetta flóð enskrar tungu sem birtist okkur hér í okkar landi og við kynnumst auðvitað ákaflega vel í okkar lífi, bæði af börnunum okkar og öðru ungu fólki sem við höfum samskipti við. Jafnvel þó að við höldum okkur fast við það að allt það efni sem kæmi frá gervihnöttum væri textað væri það auðvitað ekki einu sinni nóg í þessu efni. Staðreyndin er sú að menn hafa stundum verið að gefa fyrir sálu sinni í sambandi við þróun íslensks máls með því að halda hátíðir á Akureyri eða í Þjóðleikhúsinu og bjóða til þess mönnum í löngum bunum, virðingarmönnum í þjóðfélaginu, þar sem þeir hafa lofað og prísað hið sæla tungumál okkar en einhvern veginn hefur verið minna um það að menn hafi gripið til skipulegra athafna, aðgerða, til þess að treysta stöðu málsins. Ég tók eftir því að hæstv. menntmrh. nefndi það sem meginviðfangsefni við endurskoðun á námsefni grunnskóla fyrir komandi ár að þar yrði lögð alveg höfuðáhersla á íslenska tungu og ég er hjartanlega sammála honum um það að þarna á að leggja á mjög ríka áherslu og kosta til þess dálitlum fjármunum. Mér fyndist einhvern veginn að það gæti verið skynsamlegt að velta því fyrir sér, þó að það heyri kannski ekki beint til dagskrármálinu, að settir yrðu til þess sérstakir fjármunir að gera átak í þágu íslenskrar tungu, alhliða átak, og þá er ég að tala um skólana. En ég er líka að tala um allt fjölmiðlakerfið og ég er líka að tala um rannsóknir á íslensku máli og norrænudeild Háskólans, ég er að tala um Handritastofnun og það að hún komi út í þjóðlífið með myndugum hætti þannig að þjóðin geri sér grein fyrir því hvað það eru dýrmæt verk sem þar er verið að vinna.

Ég get auðvitað játað það í þessu efni að ég tel mig til íhaldsmanna í sambandi við þessi mál. Mér líkar illa þessi ónáttúra sem maður heyrir stundum að alls konar limlesting á málinu sé í raun og veru framfarir, í nafni framfara og nafni þróunar. Það er uppsetning á málinu sem ég á satt að segja ákaflega erfitt með að þola og finnst mjög dapurlegt þegar ég heyri það úr munni manna sem tala kannski fyrir hinar virðulegustu stofnanir íslenskra fræða hér í þessu landi.

Ég held að það sé hins vegar nauðsynlegt varðandi útvarpsmálið að á þessum málum sé sérstaklega tekið og við höfum auga á þeim og hættum að láta orðin duga, veltum fyrir okkur athöfnunum og hvað þingið getur gert til þess að treysta stöðu málsins, ekki til að einangra það, heldur til að þróa það með eðlilegum hætti með nútíðinni og þannig að það byggi upp, eins og sagt er um sjúkdómana, svo að segja innra varnarkerfi í þeim miklu sviptingum sem eiga sér stað í menningarlífi heimsins og snerta okkur auðvitað líka.

En erindi mitt, herra forseti, var fyrst og fremst spurning til hæstv. menntmrh. og ég vona að mér fyrirgefist þó að ég hafi nefnt þennan þátt sem lýtur að þróun málsins því að satt að segja væri ástæða til að ræða það einhvern tímann undir sérstöku dagskrárefni. Ég býst við því að þar sé mörgum býsna mikið niðri fyrir í seinni tíð.