24.02.1988
Efri deild: 60. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4811 í B-deild Alþingistíðinda. (3311)

285. mál, sala hluta ríkisjarðarinnar Þóroddsstaðar í Ljósavatnshreppi

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Hér er nú á ferðinni gamall kunningi. Það er alltaf verið að selja ríkisjarðir. Þm. kjördæmanna koma og flytja tillögur um að selja eignir ríkisins, flytja í raun og veru engin rök fyrir því önnur en þau að einhver sem býr á næsta bæ þurfi nauðsynlega á skikanum að halda. Þessi sala ríkisjarða er ákaflega tilviljanakennd. Það er engin stefna til í þessum efnum. Ráðuneyti landbúnaðarmála hefur aldrei haft uppi neina burði til þess að framleiða neina stefnu í þessu máli og steininn tekur þó úr þegar landbrn. er að selja svokallaðar kristfjárjarðir sem voru gefnar Kristi í þágu fátæks fólks hér fyrr á öldum. Jafnvel þessar kristfjárjarðir hafa orðið að sæta þeim örlögum að verða seldar inni í þessari tilviljanakenndu rúllettu sem heitir sala á opinberum eigum eða ríkisjörðum.

Ég hef setið hér á þingi ein 8 eða 9 ár og ég hef alla tíð verið heldur tregur til að taka þátt í þessum æfingum. Ég hef stundum haft það við orð að ástæða væri til að láta fara fram rækilega úttekt á þessum jörðum og stöðu þeirra í viðkomandi byggðarlögum, ekki síst með tilliti til þeirrar stefnu sem nú er uppi í landbúnaðarmálum varðandi fullvirðisrétt og takmörkun á framleiðslu hefðbundinna landbúnaðarvara. Sömuleiðis væri afskaplega fróðlegt að fá lærða ritgerð um kristfjárjarðirnar og hver það er sem í raun og veru getur ráðstafað þeim, hver í raun hefur umboð, jarðneskt umboð til að selja þessar jarðir með þeim hætti sem stundum hefur verið gert. Ég minnist þess að fyrir fáeinum árum var seld kristfjárjörð austur á landi og niðurstaðan varð sú að andvirði jarðarinnar var notað til þess að byggja upp þjónustu við aldraða á Eskifirði. Út af fyrir sig má vel hugsa sér að þannig sé að málum staðið vegna þess að það er þá í samræmi við vilja gefanda jarðarinnar á sínum tíma, þessarar kristfjárjarðar. Og þó að þeim fækki nú sem geta kallað sig bónda hjá Kristi, eins og Jón gerði hér forðum, þá er engu að síður nauðsynlegt að Alþingi hafi nokkurt yfirlit yfir þessi mál og ég vil enn þá einu sinni, í tíunda eða tuttugasta sinn hér í þessari stofnun hvetja til þess að slíkt yfirlit verði til.

Ég tel auk þess að það frv. sem hér liggur fyrir sé gallað vegna þess að það gefur ekki rétta mynd af því sem hér er að gerast. Samkvæmt ræðu fyrri flm., hv. þm. Valgerðar Sverrisdóttur, þá er hér um að ræða 2/12 hluta upprunalegs lands ríkisjarðarinnar Þóroddsstaðar í Ljósavatnshreppi, Suður-Þingeyjarsýslu, og væri auðvitað eðlilegra að takmarka það með skýrum hætti þannig að engum misskilningi valdi, eins og reyndar hv. flm. fór fram á við hv. landbn. að hún tæki til athugunar.

Hér eru sem sagt uppi af minni hálfu almennar athugasemdir sem ég hef oft áður flutt við sölu á ríkisjörðum og ég held því áfram meðan menn eru með þetta í gangi með þessum hætti sem hér hefur verið í áratugi.