24.02.1988
Neðri deild: 61. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4820 í B-deild Alþingistíðinda. (3315)

293. mál, áfengislög

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Ég verð að segja að mér kom töluvert í opna skjöldu að lesa fréttir í Morgunblaðinu í morgun af átökum sem hér áttu sér stað á hinu háa Alþingi í umræðu um þetta nýja frv. í gærdag. Ég fór til hæstv. forseta kl. rúmlega hálffjögur og tjáði honum aðstæður mínar. Ég hafði ekki ráðið mig til einhverra annarra starfa utan þings kl. 4 heldur var ég að gegna framhaldsskyldu sem ég hafði á herðar tekið sem fyrrv. menntmrh. Hæstv. forseti tók mér af hinni mestu ljúfmennsku og lét þess getið að fyrra bragði að hann gerði ráð fyrir því að halda umræðum eitthvað áfram, svona eins og til kl. 5, en hefði svo í huga að ljúka þeim á morgun. Það var ekkert því til fyrirstöðu að ég kæmi að máli mínu við þessa umræðu. Þannig skildum við kl. 20 mínútur fyrir fjögur í gær og ég var alveg grunlaus um að hér væri ætlunin að þjösnast þannig áfram í þessu máli eins og síðar kom á daginn.

Ég sagði formanni þingflokks Sjálfstfl. frá því að ég hefði fengið samþykki hæstv. forseta við þessu. Hann var að vísu ekki ánægður með það, en hann lét sér samt lynda að vera einn af þeim sem hér óskapaðist uppi út af því að það væri ekki hægt að ljúka 1. umr. um alveg nýtt mál. Hversu gamalt var þetta mál? (ÓE: Það var ekki vegna þess.) Það var 11/2 klukkutími sem var á milli þess að hæstv. forseti yrði að biðja um afbrigði frá þingsköpum um að fá að taka það fyrir. Þessu máli var útbýtt á mánudag. Ef menn hrista höfuðið yfir því eins og hv. formaður þingflokks Sjálfstfl. er að gera ... (ÓE: Þurfti afbrigði?) Það hefði þurft. Það munaði 11/2 klukkutíma. Þessu frv. var útbýtt á þingfundi á mánudag að því er ég gekk úr skugga um hér inni á skrifstofu Alþingis. Hæstv. forseti ætti a.m.k. að hafa gengið úr skugga um að það þarf a.m.k. að líða sólarhringur á milli þar til hann getur tekið þetta mál fyrir án þess að leita afbrigða. Svo var að vísu ekki. En þannig er fyrirgangurinn í þessu. Ég ætlaði ekki að tefja þetta mál, en ef boðið er upp í þennan dans skal ég gjarnan stíga hann við menn. Það skal ég gjarnan gera. (ÓE: Það var enginn að gagnrýna þig hér í gær.) Ég er ekkert að tala um það. Ég er að tala um málsmeðferð af hendi hæstv. forseta og þingflokksformannsnefnunnar í Sjálfstfl., það er ég að gera, sem var fullkunnugt um að ég hafði fengið samþykki hæstv. forseta fyrir því að þessu máli yrði ekki lokið, umræðunni yrði ekki lokið í gær. (Forseti: Ég vil geta þess, án þess að ég telji ástæðu til þess að endurvekja þá umræðu sem var hér í gær, að ég átti von á því að umræður drægjust á langinn um þetta mál, en hins vegar reyndust þeir færri en ég átti von á sem létu skrá sig þannig að þegar mér varð það ljóst reyndi ég að ná til hv. 4. þm. Austurl. til að tjá honum að ég hefði í huga að halda umræðunni áfram og reyna að ljúka henni. En að öðru leyti tel ég ástæðulaust að endurvekja þessar þingskapaum ræður vegna þess að ég tók þá ákvörðun að fresta umræðunni til þess að öll sjónarmið gætu komið fram. Ég tel ástæðulaust að endurvekja þær deilur sem hér urðu í gær út af meðferð málsins vegna þess að það hefur aldrei verið ætlunin að reka þetta mál í gegn án þess að menn fengju að tjá sig um það. Ég vildi aðeins láta þetta koma fram í sambandi við þau orð sem hér hafa fallið.) Það er vonandi að Moggi taki eftir þessum ummælum hæstv. forseta og geti þá leiðrétt það að hér hafi ekki verið ætlunin að viðhafa þau vinnubrögð sem sagt er frá og beinlínis vitnað til umræðna um sem urðu í gær. Ég hafði leyfið, á þetta var fallist, það var afgreitt mái. Það fer ekki hjá því að þessi málsmeðferð öll veki hjá mér grunsemdir, og því er ég að rifja þetta mál upp, um að það hafi ekki átt að standa við gefið loforð.

Hér er á ferðinni alveg nýtt frv. Ég hef að vísu ekki nema tæpa 17 ára starfsreynslu í Alþingi og hef verið hér að vísu á stjákli í 23 ár. Ég man aldrei eftir slíkri meðferð á máli eins og hv. nefnd viðhefur með fóstur tveggja flokksbræðra minna meðal annarra þar sem málið er allt borið á bál, talið eins og það er og allur málatilbúnaðurinn að engu hafandi og ófært og ótækt.

Ég náði mér í eintak af gamla frv. áður en það var borið á bálið sem vafalaust hafa verið gefin fyrirmæli um. Ég ætla að geyma þetta því þessi málatilbúnaður er sá einstæðasti sem nokkurn tímann hefur verið borinn fram á Alþingi, rakaleysurnar með þeim hætti að fágætt er og áreiðanlega einsdæmi í þessi 958 ár sem liðin eru frá stofnun Alþingis, enda fara þeir þannig að ráði sínu, nefndin, meiri hlutinn, að kasta frv., varpa því fyrir ofurborð og flm. eru kaghýddir og hin þorstláta valkyrja, hv. 13. þm. Reykjavíkurkjördæmis, kom hér upp og kyssti á vöndinn og heyrðist smellur út á tún.

Það var ekki vegna þess að það væri ekki auðvelt í sjálfu sér að koma fram breytingum þannig að bruggun öls gæti farið fram eftir þessu gamla frv. Það sem ekki mátti sýna meir og ekki mátti byggja á, því það hafði verið rifið að grunni, hvert einasta atriði í öllum rökstuðningnum hafði verið rifið að grunni, það sem ekki mátti sýna meir var tilgangur flm., sjálfur tilgangur flm., hv. Jóns Magnússonar varaþm., hv. þm. Geirs H. Haarde, hv. þm. Guðrúnar Helgadóttur og hv. þm. Inga Björns Albertssonar. Það mátti ekki sýna meir tilganginn með þessu frv. Og hver var hann?

Í fyrsta lagi að draga úr hinni miklu neyslu sterkra drykkja.

Í öðru lagi að breyta drykkjusiðum þjóðarinnar til batnaðar.

Í þriðja lagi að afla ríkissjóði tekna.

Í fjórða lagi að efla þann hluta íslensks iðnaðar sem annast framleiðslu á öli og gosdrykkjum.

Í fimmta lagi að samræma fylliríð, samræma áfengislöggjöfina.

Allt stendur þetta á haus, öll þessi röksemdafærsla endilöng. Tilgangurinn var að draga úr hinni miklu neyslu sterkra drykkja. Í öllum löndum þar sem reynsla af öldrykkju er er þessi reynsla þveröfug. Aukin neysla sterkra drykkja hefur ávallt fylgt í kjölfarið. En það sem er skelfilegast af þessu öllu saman og gerir það að verkum að ég hef nú beitt mér harkalega í þessu máli, sem ég aldrei gerði við fyrri bjórfrv. þó ég væri andvígur þeim, eru hinar nýju köldu staðreyndir um að áfengið er undanfari annarrar neyslu vímuefna. Það er hin skelfilega staðreynd sem nú liggur fyrir öllum sem vilja hafa opin augun. Bjórinn er auðvitað ekkert nema áfengi, það hafa hinir nýju frumkvöðlar og flm. frv. til laga um ölið játað berum orðum, og því miður líklega lúmskasti drykkurinn af áfenginu öllu saman og eins og ég hef áður nefnt dæmi um sér í lagi í augum Íslandsmannsins sem heldur því fram í svæsinni ölvímu að hann hafi ekkert brennivín bragðað, bara öl.

Svo er það tilgangurinn í öðru lagi að breyta drykkjusiðum þjóðarinnar til batnaðar. Þetta þarfnast ekki andsvara. Þvílíkur hráskinnaleikur er ekki í munn berandi. Að ætla að breyta drykkjusiðum þjóðarinnar til batnaðar með því að auka áfengisneysluna er einkennilegasta röksemd sem hægt er að bera fram í þessu máli.

Í þriðja lagi á, sem ég er ekkert hissa á að hv. fyrrv. aðstoðarmaður fjmrh. skuli leggja sig í lima við, að afla ríkissjóði aukinna tekna. Staðreyndirnar eru allt, allt aðrar. Það er talið að útgjöldin vegna sölu áfengra drykkja hjá hinu opinbera séu tvöfalt til þrefalt meiri en tekjurnar af sölunni. Þetta hefur verið rannsakað vísindalega og raunar má vísa til rannsókna á öllum atriðum þessa máls þar sem blákaldar tölfræðilegar staðreyndir liggja fyrir. Þær koma allar í einn stað niður. Með því að auka áfengisneyslu þjóðarinnar er verið að baka hinu opinbera stórkostleg aukin útgjöld. Hæstv. heilbrmrh., sem hér er mættur til leiks, er áreiðanlega vís til þess að taka undir þau orð og vitna til þeirra staðreynda sem hljóta m.a. að liggja á hans borði. Þess vegna er þessi röksemdafærsla, þessi tilgangur auðvitað eins og annað sem getur á að líta í þessu makalausa frv.

Síðan ætla þeir að efna íslenskan iðnað sem annast framleiðslu á öli og gosdrykkjum. Að vísu er nú reynsla annarra þjóða sú að það stórdregur úr drykkju gosdrykkja við framleiðslu og sölu á öli. Það er ekki stór keppur í þessari sláturtíð. En gamli Carlsberg er auðvitað kominn á vettvang og áhugi einkaframtaksins á að koma meira brennivíni ofan í þjóðina til þess að geta þénað á því er kominn á stjá. Og það er kannski tilviljun hrein að það skuli vera læknir sem er umboðsmaður Carlsbergs gamla á Íslandi. Kannski er það tilviljun ein og ætla ég ekki að leggja frekar út af því. (ÓÞÞ: Er hann á listanum yfir þessa 150?) En auðvitað er það bráð- og stórhættulegt ef einkagróðasjónarmið ná skriði í að ota fram áfengi að þjóðinni. Fyrir því er nú það að við höfum einkasölu ríkisins á þessu væga eitri sem það er þó það hafi þessar skelfilegu afleiðingar sem allir menn hafa fyrir augum sem vilja hafa þau opin.

Já, og síðasti liður tilgangsins fræga var sá að samræma áfengislöggjöfina.

Meiri hl. allshn. komst sem sagt að þeirri niðurstöðu að þetta væri ónothæft og til skammar fyrir Alþingi að fjalla um frv. sem fram væri flutt á slíkum og þvílíkum forsendum og varpaði því fyrir ofurborð.

Það er virðingarvert í sjálfu sér, en meðferðin á flm. er engu lík sem ég man eftir. Og ég skil nú satt að segja ekkert í formanni þingflokks míns, hv. 2. þm. Reykn., að hann skyldi ekki hafa leitt hugann að því að ungu mennirnir okkar voru nú m.a. að þessu til þess að efla sig í næsta prófkjöri, af því að þeir telja sér trú um að ölberserkir séu í meiri hluta í okkar flokki, sér í lagi hjá unga fólkinu, á hvers mið þeir ætla auðvitað að róa í næsta prófkjöri. Hefði nú mátt leiða hugann að því því að helmingurinn af flokknum okkar er nú í þessum prófkjörsslag seint og snemma.

Nei, en það var ekki verið að spara það. Þetta hugsjónamál þeirra var rifið í tætlur og þarf ekki neinn aukadóm um það meir. Meiri hluti nefndarinnar og raunar öll nefndin er sammála um að fleygja þessu fyrir borð og láta það aldrei sjást, helst að afmá það úr öllum þingskjölum. En svo er ekki ljóst hvernig það verður, hvernig mönnum tekst upp í prófkjörinu þegar keppinautarnir byrja að segja frá því að ungu mennirnir hafi nú bögglað saman bjórfrv. og hinu háa Alþingi hafi verið svo nóg boðið að það hafi rifið það sundur og ákveðið að hafa það alls ekki að neinu og búa til alveg nýtt. Formaður þingflokks Sjálfstfl. varð að ganga í það verkefni að búa til alveg nýtt frv. til að reyna að hindra þá skömm sem yfir dundi með þessum málflutningi. Það verður þokkalegt og ég óttast að það muni valda vökunum í Valhöll.

Ég, eins og ég sagði, ætla enga tilraun að gera til að þæfa þetta mál eða tefja framgang þess með málþófi. Ég var í þeirri stöðu einu sinni að gá að því sérstaklega að meiri hluti í Alþingi fengi að ráða og næði vilja sínum fram. Það var dálítið erfitt á köflum á árunum 1980–1983 og ég hef töluverða æfingu í því. En það tókst nú samt og ég er mjög eindregið fylgjandi því að engum aukaráðum sé beitt til þess að hið háa Alþingi og meiri hluti þess fái að ráða. Fyrir því er það að ég hef engar ástæður til þess eða ætlanir uppi að setja einhvern málþófsfót fyrir þetta mál. En menn verða að gera sér grein fyrir því hvað þeir eru að gera með þessu. Það er þýðingarlaust að skella skollaeyrum við þeim köldu staðreyndum að með samþykkt þess ákveður hið háa Alþingi nýja áfengisstefnu. Við höfum haft áfengisstefnu um að brugga ekki og selja áfengt öl. Sú áfengisstefna hefur leitt til þess að þessi þjóð drekkur minna af vínanda en aðrar sambærilegar þjóðir, ef ég má orða það svo, til að mynda á Norðurlöndum. Þessi stefna hefur bjargað okkur frá mikilli óhamingju og er hún þó ærin fyrir í þessum málum sem allir hv. alþm. þekkja ef ekki af eigin raun þá af næsta nágranna.

Ég ætla ekki að lesa upp nafnaskrá 133 lækna. En verði þetta frv. samþykkt og þegar reynslan af því er fengin, sem verður óðar í bili, þá ætla ég að nefna nöfnin þeirra ef mér endist aldur til.

Og við sjáum auðvitað vinnubrögðin, þau eru alþekkt og gamalkunn, að gróðasjónarmiðið er auðvitað komið á stjá að ota sínum tota, að fá á því færi að framleiða öl og selja með góðum gróða. Það er það sem hér knýr áfram um þetta mál alveg sérstaklega og engar hugsjónir manna og allra síst ungra manna að það þurfi að auka áfengisneysluna meðal almennings. Auðvitað er þetta megindriffjöðrin í tillöguflutningnum, peninga- og gróðasjónarmiðið. Þeir spyrja ekkert um það, umboðsmennirnir, eiturlyfjasalarnir, hvað verður um þann sem kaupir. Þeir spyrja bara um: Hvað gefur þetta í aðra hönd?

Að samþykktum þessum lögum og eftir að þau eru komin í framkvæmd munu menn taka til við að lita ofan í til hvers þessar gerðir leiddu. Það er enginn vafi á hverjar afleiðingarnar verða. Allt annað, að neita þeim köldu staðreyndum, er út í hött. Þær hafa sannast í öllum þjóðlöndum þar sem athugun á þessum málum hefur farið fram. Allar rannsóknir benda til hins sama. Allar athuganir koma í einn stað niður. Með samþykkt þessa frv. eru menn að kalla yfir sig stóraukinn áfengisvanda á Íslandi. Og svo geta þeir, ef þeim sýnist, borið fyrir sig að hér eigi að ríkja frjálsræði á sem flestum sviðum, það mega þeir ef þeim sýnist, og hið háa Alþingi eigi ekki að hafa vit fyrir mönnum eins og maður heyrir. Það geta þeir ef þeim sýnist. En ábyrgðin er gríðarleg og ég verð að segja það eins og er að eftir það sem menn hafa fengið sannanir fyrir um í þessum málum er það meira en lítið sorglegt ef það á nú yfir Alþingi að dynja að taka slíka ákvörðun eins og þessa. Eftir að við lifum nú á öld þessarar stórauknu fíkniefnaneyslu sem er þó hálfu verri en áfengisneyslan og leiðir til enn meiri ófagnaðar, eftir að okkur hefur verið færður heim sanninn um að áfengið skuli vera í nærri öllu falli undanfari slíks, þá ætli hið háa Alþingi að gera samþykkt um að auka áfengisneysluna hjá þjóðinni. Það er með ólíkindum næsta svo að ekki sé kveðið fastar að orði.

Ég ætla nú að leggja þraut fyrir hæstv. forseta. Við höfum hér nýtt frv. sem er tveggja sólarhringa gamalt og kemur ekkert málinu við þótt ónýta frv. væri þæft á fyrri dögum Alþingis í haust. Ég þarf að leggja fyrir hann þá þraut hvernig hann bregst við þeirri nauðsyn minni að fá þessu máli frestað nú í dag af því sem ég á von á mikilvægum upplýsingum sem varða málið og þurfa að komast með því til hv. allshn. þegar því verður vísað þangað. Nú gagnar ekki að vísa til þess að ég geti komið því að við síðari umræðu þessa máls af því sem, eins og ég segi, að málið gengur aftur til allshn. og þangað eiga þær upplýsingar sem ég nú býð. Nú lifir langt þings enn þá þannig að hér eru ekki hundrað í hættunni. En ég vil gjarnan fá að vita hvaða réttinda ég nýt sem þm. Ég nýt jafnmikilla réttinda sem þm. eins og ráðherrar eða þingflokksformenn. Ég minni á það. Ég þarf ekki að rifja það upp. Þegar um alveg nýtt mál er að tefla og þannig stendur á fyrir mér vil ég gjarnan heyra úrskurð hæstv. forseta.

Hér þuldi fyrri ræðumaður, hv. 3. þm. Norðurl. e., upp staðreyndir í löngu máli, las upp niðurstöður rannsókna hvaðanæva að. Og allar voru þær á eina lund. Við höfum fengið hér nýjar upplýsingar sem ég hef í höndum frá Tómasi Helgasyni prófessor og dr. med. um fræðileg rök gegn aukinni áfengisneyslu og bjórfrv. Það þyrftu þm. að gaumgæfa, þær röksemdir og staðreyndir sem þar koma fram, óyggjandi um til hvers þetta arna leiðir.

Þótt ég leggi áherslu á að hið háa Alþingi fái á því færi að taka afstöðu til þessa máls, báðar deildir helst þó ég kysi að það félli hér strax, megum við ekki hafa slíkan hraða á að ekki sé hægt að koma jafnmikilvægum upplýsingum eins og til að mynda felast í þessu nýja plaggi, spánnýja plaggi frá dr. Tómasi Helgasyni, að hinu háa Alþingi gefist ekki færi á að athuga þau sérstaklega og ekki síst hv. nefnd sem hefur með málið að gera.

En lokaorð mín eru þessi: Ég bíð þessa úrskurðar.