25.02.1988
Sameinað þing: 50. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4836 í B-deild Alþingistíðinda. (3321)

232. mál, hvalarannsóknir

Fyrirspyrjandi (Guðrún Helgadóttir):

Herra forseti. Sá tími sem samþykkt Alþjóðahvalveiðiráðsins um stöðvun hvalveiða náði til er nú óðum að styttast, en hann rennur út eins og kunnugt er í árslok 1989. Bannið tók gildi 1. jan. 1986. Allan þennan tíma hafa Íslendingar samt ásamt nokkrum öðrum þjóðum haldið áfram hvalveiðum án þess að séð yrði að hagsmunir væru hafðir í fyrirrúmi við þær ákvarðanir eða virðing þjóðarinnar í alþjóðlegu samstarfi. En um þau sjónarmið mín höfum við hæstv. sjútvrh. átt margan málfund og verður tímans vegna þar að vísa til fyrri umræðna í þingtíðindum.

Í samningi Hafrannsóknastofnunar og Hvals hf., sem gildi tók 1. jan. 1986, segir svo í 3. gr., með leyfi forseta:

„Árleg veiði árin 1986–1989 er áætluð 80 langreyðar og 40 sandreyðar. Endanleg ákvörðun um árlegt veiðimagn verður tekin af Hafrannsóknastofnun fyrir upphaf hvers almanaksárs.“

Alþingi tók á sínum tíma þá ákvörðun að mótmæla ekki ákvörðun um stöðvun hvalveiða og samþykkti að tími sá sem bannið stæði yfir skyldi nýttur til rannsókna á hvalastofninum. Nútímarannsóknir á hvölum og ferli þeirra í lífríkinu beinast fremur að rannsóknum á lifandi dýrum en dauðum eins og þeir vita sem mest og best hafa unnið að slíkum rannsóknum. Áætlanir Íslendinga um veiðar í vísindaskyni hafa því verið harðlega gagnrýndar öll þessi ár þó að enginn efi um réttmæti þeirra hafi búið um sig í huga hæstv. sjútvrh. Hygg ég þó að þekking hans á ástandi hvalastofna geti vart verið meiri en þekking mín sem þýðir að hún er ekki önnur en sú sem lesa má sér til í ritum þeirra vísindamanna sem eytt hafa starfsævi sinni í rannsóknir á þessu stærsta dýri jarðarinnar.

Enginn íslenskur vísindamaður hefur yfir slíkri þekkingu að ráða. Um réttmæti áætlunarinnar um veiðar í vísindaskyni skal þó ekki deilt hér heldur er fsp. mín fram komin vegna þess að Alþingi á rétt á að fá í hendur árlega hina samningsbundnu árlegu endurskoðun sem þó hefur ævinlega orðið að ganga eftir að lögð yrði fram.

Öll þessi ár hefur jafnframt verið ljóst að erfiðleikum hefur verið háð að koma á markað þeim 49% hvalaafurðanna sem leyfilegt er að selja úr landi. Hafa Íslendingar orðið fyrir margs konar niðurlægjandi aðgerðum vegna þeirra og nægir að minnast stöðvunar hvalkjötsfarms í Hamborg sem sendur var síðan heim aftur, að ekki sé minnst á heldur rislitlar síendurteknar ferðir hæstv. ráðherra og embættismanna hans til Bandaríkjanna til að biðja Íslendingum griða í þessu leiða máli. Allt hefur þetta verið okkur hér á hinu háa Alþingi til lítils sóma hérlendis sem erlendis og nokkurt undrunarefni hversu skeytingarlausir hv. þm. hafa í raun og veru verið um framvindu þessa máls. Hafa menn jafnvel ekki gert athugasemd við það að fyrirspyrjanda var meinað að sitja ráðstefnu hvalveiðiþjóða sem haldin var hér í Reykjavík fyrr í vetur þó að þar ættu í hlut þjóðir sem ekki veiða í vísindaskyni heldur í beinu trássi við yfirlýsta stefnu Alþingis í hvalveiðimálum. Að því verður raunar komið seinna.

Að þessu sögðu hef ég leyft mér að bera fram þá fsp. sem hér liggur frammi á þskj. 524 og er 232. mál þingsins. Hún hljóðar svo, með leyfi virðulegs forseta:

„1. Hefur áætlun um hvalarannsóknir samkvæmt samningi sjútvrn. við Hval hf., sem tók gildi 1. janúar 1986, verið endurskoðuð fyrir árið 1988 eins og samningurinn gerir ráð fyrir?

2. Getur ráðherra upplýst hversu mörg dýr og hvaða tegundir er ráðgert að veiða á yfirstandandi ári?

3. Á hvaða rannsóknarþætti var megináhersla lögð á sl. ári og hvaða þætti hyggjast menn rannsaka á þessu ári?

4. Hvert var heildarmagn hvalaafurða árin 1986 og 1987 og hversu mikið af því hefur verið selt úr landi?"