29.10.1987
Sameinað þing: 10. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 497 í B-deild Alþingistíðinda. (333)

Sala fiskiskipa frá Suðurnesjum

Hreggviður Jónsson:

Hæstv. forseti. Það er ekki að ástæðulausu að farið er fram á umræður utan dagskrár um sölu fiskiskipa frá Suðurnesjum. Eins og kunnugt er af fréttum hefur Útgerðarfélag Akureyringa keypt Dagstjörnuna KE 3 frá Keflavík. Það er út af fyrir sig ekki umræðuefni að eitt skip skuli selt á milli útgerðarstaða. Hitt er alvarlegra að þetta er sjöundi togarinn sem seldur er frá Suðurnesjum. Á sama tíma hafa ekki komið önnur skip í staðinn. Og nú spyr ég: Er það stefna núv. ríkisstjórnar að leggja útgerð á Suðurnesjum og jafnvel á Reykjanesi endanlega í rúst?

Hvað sögðum við í Borgarafl. um þetta mál í kosningabaráttunni? Og hverju var svarað? Hæstv. fyrrv. forsætisráðherra sagði á framboðsfundi í sjónvarpinu með okkur hinum þm. Reykjaness að hann skildi ekki svona svartsýni þegar rætt var um hrun útgerðar á Suðurnesjum. Þetta var ekki svartsýni heldur hryggileg staðreynd. Það alvarlegasta við þessa sölu er það að vegna mismunar á kvóta til skipa sunnan og norðan norður-suður línunnar eru aðilar sunnan hennar ekki samkeppnishæfir um kaup á skipum. Sala Dagstjörnunnar er sláandi dæmi um þetta. Hún fær 550 tonna aukinn kvóta aðeins með því að flytjast norður. Þetta kemur síðan fram í minni kvóta á næsta ári hjá öllum flotanum því að fiskarnir í sjónum verða ekki fleiri. Þá er það ljóst að verðmæti hvers skips eykst um allt að 100 þús. kr. pr. tonn á kvóta sem fylgir skipinu. Þannig borga menn fyrir óveiddan afla í sjónum og sú stefna er röng.

Það er ljóst að núverandi kvótastefna hefur skaðað sjávarútveg víða sunnan umræddrar línu. Þetta hefur þó sérstaklega bitnað á Suðurnesjum sem einnig hafa orðið út undan vegna lánafyrirgreiðslu til sjávarútvegs á undanförnum árum.

Útgerðarmál á Suðurnesjum og á Reykjanesi eru verulegt áhyggjuefni. Á sl. fimm árum hafa 30 bátar verið seldir burtu af svæðinu en þrír komið í staðinn, auk sjö togaranna. Fyrir nokkrum vikum var stofnað félag til að efla útgerð á Suðurnesjum, Eldey hf. Verulegur áhugi kom fram á stofnfundinum og lýstu allir þm. Reykjaneskjördæmis stuðningi við hugmyndina. Þá vissu menn ekki um sölu allra þeirra fiskiskipa sem hafa verið seld núna undanfarið.

Auðvitað kunna að vera skýringar á sölu skipanna frá sjónarhorni eigendanna, herra forseti. Það hlýtur að vera mjög mikilvægt að standa þannig að þessum málum að Suðurnesjamenn sitji við sama borð og aðrir. Ég minni á að aflinn hefur stöðugt minnkað frá því að kvótinn var lagður á og hefur hann minnkað allt frá 32% 1970–74 í 18% af heildarkvóta landsmanna á þorski. Þá er ekki nokkur vafi á því að þetta hefur haft mikil áhrif á atvinnulífið þar. En í margar aldir hefur útgerð á Suðurnesjum verið öflugasta útgerð landsins. Ólafur Thors hefði aldrei látið fara þannig með Suðurnes.