25.02.1988
Sameinað þing: 50. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4849 í B-deild Alþingistíðinda. (3339)

234. mál, söluskattur af heilsurækt

Fjármálaráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):

Herra forseti. Það gleður mig alveg sérstaklega að nú kveður við annan tón hjá hv. 7. þm. Reykv. Hann gerist nú innblásinn andstæðingur þess að viðhalda undanþágum á söluskattskerfi sem að hans mati leiða til þess að það verður mjög torvelt að innheimta eðlileg gjöld af slíkri starfsemi. Ég er afar þakklátur fyrir þessar ábendingar. Hins vegar læðast að mér efasemdir um það hvort hv. þm. hefur í þessu máli gerst sérstakur talsmaður þeirra manna sem opinberlega lýsa áformum sínum um það að brjóta lög og þá skattalög sem Alþingi hefur nýlega sett. Það tel ég hins vegar ekki til fyrirmyndar.