25.02.1988
Sameinað þing: 50. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4850 í B-deild Alþingistíðinda. (3342)

237. mál, raforkuverð

Fyrirspyrjandi (Eiður Guðnason):

Herra forseti. Ég hef á þskj. 529 leyft mér að bera fram stutta fsp. til hæstv. iðnaðar- og orkumálaráðherra:

„Hvaða ráðstafanir hyggst ríkisstjórnin gera til þess að draga úr húshitunarkostnaði með raforku?" Tilefni þessarar fsp. er fyrst og fremst það að nú verður vart mjög vaxandi óánægju hjá landsbyggðarfólki, sem verður að hita hús sín með raforku, með það hversu mjög þetta hefur hækkað að undanförnu.

Ég gæti sett hér á langan talnalestur með samanburðartölum. Ég ætla ekki, herra forseti, að gera það. Ég ætla aðeins að nefna tvö dæmi. Miðað við núverandi verð á gasolíu án olíustyrks er niðurgreitt vatnsorkuverð frá Orkubúi Vestfjarða 31,25% hærra en óniðurgreidd gasolía. Enn hníga hér rök að því að það sé ódýrasti hitunarkostur fyrir okkur að nota sovéska olíu fremur en íslenskt vatn og íslenskt rafmagn. Þetta var fyrra dæmið. Síðara dæmið er um sambærileg hús vestur á Hellissandi og í Reykjavík, hús af svipaðri stærð og byggð á svipuðum tíma, hús sem eru rúmlega 500 m3 að stærð. Og hér er miðað við júlíverðlag. Samkvæmt júlíverðlagi kostaði 253 kr. á dag að hita húsið á Hellissandi eða 92 þús. kr. á ári. Í Reykjavík var sambærilegur kostnaður um 60 kr. á dag eða um 22 þús. kr. á ári, þannig að munurinn á hitunarkostnaði þessara tveggja fjölskyldna er 70 þús. kr. á einu ári. Og því spyr ég:

Hvaða ráðstafanir hyggst ríkisstjórnin gera til þess að draga úr húshitunarkostnaði með raforku?