25.02.1988
Sameinað þing: 50. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4850 í B-deild Alþingistíðinda. (3343)

237. mál, raforkuverð

Iðnaðarráðherra (Friðrik Sophusson):

Herra forseti. Hv. fyrirspyrjandi hefur lagt fram svohljóðandi fsp.:

„Hvaða ráðstafanir hyggst ríkisstjórnin gera til þess að draga úr húshitunarkostnaði með raforku.“ Að undanförnu hefur nokkuð árviss umræða um hátt verð á raforku til húshitunar blossað upp. Ástæðurnar fyrir því að hún kemur upp á þessum árstíma eru aðallega tvær: Í fyrsta lagi eru nú nýafstaðnar gjaldskrárhækkanir. Gert er ráð fyrir að hækkun á gjaldskrá, sem varð 1. des. sl., dugi þetta ár miðað við forsendur fjárlagafrv. um þróun verðlags og óbreytt verð raforku frá Landsvirkjun.

Í öðru lagi er nú kaldasti árstíminn. Í því sambandi ber að geta þess að víðast hvar úti á landi er lesið af mælum oft á ári, sums staðar mánaðarlega, og eru hitareikningar því af eðlilegum ástæðum hæstir á kaldasta árstíma. Sums staðar er að vísu lesið sjaldnar af mælum, en reikningar eru miðaðir við áætlaða notkun á hverjum árstíma. Í Reykjavík hins vegar er lesið af mælum einu sinni á ári og ársnotkun skipt í jafna hluta þegar reikningar eru sendir út. Þetta er ég ekki viss um að öllum sé ljóst. Það er að vísu þannig að húshitunarkostnaður á höfuðborgarsvæðinu er mun lægri en hjá Rafmagnsveitum ríkisins t.d., en munurinn er ekki eins mikill og samanburðartölur gefa til kynna þegar verið er að nefna dæmi um háa reikninga úti á landsbyggðinni, enda er það athygli vert að slíkur samanburður heyrist varla á sumrin.

Hv. fyrirspyrjandi gat um dæmi frá Hellissandi ef ég man rétt og sagði að það kostaði 92 þús. kr. á ári að hita 500 m3 íbúð. Ég hef hér fyrir framan mig tölur frá Rafmagnsveitum ríkisins sem eru meðaltalstölur. Þar kemur í ljós að meðalupphitunarkostnaður hjá RARIK á 150 m2 íbúð sem er 400 m3 er 5 þús. kr. á mánuði eða 60 þús. kr. á ári. Þannig að þetta dæmi er sjálfsagt fyrir ofan meðaltal, en húsið er þar að auki nokkuð stórt.

Þegar fjárlög voru lögð fyrir þingið var lögð áhersla á að þau yrðu hallalaus. Reynt var að draga úr útgjöldum ríkisins svo sem kostur var. Einn liðurinn í því var að draga úr niðurgreiðslum á rafmagni til húshitunar og var upphæð sem til þess var ætluð lækkuð úr 230 millj. eins og hún var 1987 í 200 millj. kr. í ár. Man ég ekki að komið hafi tillögur um breytingar á því frá þm. Alþfl., hvorki frá hv. fyrirspyrjanda né öðrum. Þvert á móti greiddu þeir atkvæði gegn tillögum um hækkun niðurgreiðslna sem og aðrir hv. þm. stjórnarflokkanna, en slíkar tillögur komu að sjálfsögðu fram. Ég bendi á í þessu sambandi að hæstv. fjmrh. og hv. formaður fjvn. eru einmitt úr þeim þingflokki sem hv. fyrirspyrjandi stýrir.

Í þessu sambandi má rifja upp, og ég nefni þetta vegna þess að þetta mál var til umræðu í fjvn. og tek það fram að iðnrn. hafði ekki á móti því að auka niðurgreiðslur vegna rafhitunar, ummæli hæstv. fjmrh. þegar hann mælti fyrir fjárlagafrv. Þar gerir hann yfirtöku ríkissjóðs á skuldum vegna orkumannvirkja að umtalsefni og segir m.a. að ríkissjóður hafi yfirtekið 8,4 milljarða kr. vegna þessara framkvæmda. Þetta er miðað við verðlag í september á sl. ári. Síðan segir hæstv. fjmrh., með leyfi forseta: „Með yfirtöku ríkissjóðs á þessum skuldum er í raun verið að færa greiðslubyrðina af mannvirkjum frá orkunotendum til skattgreiðenda.“ — Og fjmrh. kemst að þeirri niðurstöðu sem ekki skal vefengd, með leyfi forseta: „Ef orkugeiranum hefði verið afhent skuldasúpan eða öllu heldur hann haldið henni, 8,4 milljörðum kr., frá næstu áramótum og miðað við að vextir væru 6,5% og lánstími 20 ár, sem má ætla að sé um það bil meðallíftími mannvirkja, þyrfti að hækka gjaldskrá almennrar raforkunotkunar um fimmtung til að bera uppi þessi lán.“ Hér lýkur þessari tilvitnun. En fjmrh. heldur áfram og segir síðar:

„Allar þessar yfirtökur ríkissjóðs af orkugeiranum fela í sér að raforkuverð í landinu endurspeglar ekki þann kostnað sem liggur að baki þess. M.ö.o.: raforkuverð í landinu er falsað og þykir þó mörgum nóg um hversu hátt það er.“ Hér lýkur tilvitnuninni í orð hæstv. fjmrh. sem hann viðhafði í fjárlagaræðu sinni.

Þegar gerðar voru athugasemdir við ræðu hæstv. fjmrh. svaraði hann því til að ríkissjóður þurfi að greiða 1900 millj. kr. í vexti og afborganir vegna yfirtöku ríkissjóðs af skuldum orkugeirans. Og síðan segir hæstv. fjmrh.:

„Niðurstaða mín var í grófum dráttum sú að ef skuldasúpan væri flutt yfir til orkugeirans þyrfti að hækka almennt raforkuverð í landinu um fimmtung og mætti þá lækka tekjuskatta einstaklinga um rúm 20%.“

Herra forseti. Mér hefur gengið svo illa að lesa svarið að ég á eftir nokkurn hluta svarsins og kannski það sem skiptir máli vegna fsp. Ég mun freista þess að halda áfram þangað til aftur verður hringt bjöllu eða þá fá að koma aftur í ræðustól og flytja síðari hluta svarsins. (Forseti: Hv. ræðumaður er kominn fram úr sínum tíma, en hann hefur um það að velja að halda núna áfram í þessum ræðutíma eða síðari. Það sem hann fer fram úr núna verður dregið frá síðari.) Ég þakka hæstv. forseta þennan salómonsdóm og held ég þá áfram.

Eins og fram hefur komið hér á Alþingi hefur hv. alþm. Kjartan Jóhannsson tekið saman grg. um rekstrarhorfur RARIK og kemst hann að þeirri niðurstöðu að skuldir RARIK muni aukast um 200 millj. kr. á þessu ári að öllu óbreyttu og verði skuldir fyrirtækisins þá orðnar um 1200 millj. kr. í árslok. Það er því útlit fyrir að ríkið þurfi að yfirtaka meiri skuldir orkugeirans.

Orkubú Vestfjarða á nú við svipaðan fjárhagsvanda að etja. Vandi þessara fyrirtækja nú á aðallega rætur að rekja til þess að verðjöfnunargjald af raforku, sem þessi tvö fyrirtæki nutu góðs af, var afnumið án þess að þau væru jafnsett eftir og áður. Viðræður standa nú yfir milli iðnrn. og fjmrn. um hvort ríkið eigi að yfirtaka þeirra skuldir að öllu eða hluta þannig að þær fari ekki út í orkuverðið, en slíkt mundi leiða til u.þ.b. 15% hækkunar á rafhitunarkostnaði og reyndar öllu rafmagnsverði.

Í fskj. með till. til þál. um stefnumörkun í raforkumálum, sem flutt var af þm. Alþb., kemur fram að miðað við byggingarvísitölu er áætlað meðalverð í ár um 84% af því sem það var 1980 og er þá miðað við vísitölu byggingarkostnaðar. Það er að vísu nokkuð hærra en þrjú undanfarin ár, fór niður í tæp 77% árið 1986. Rafmagnsverð til heimilisnota hefur hins vegar aldrei verið lægra en nú ef skoðaður er tíminn frá 1980. Ef miðað er við verðlag í janúar ár hvert er það nú um 95% af því sem það var í janúar 1980 miðað við byggingarvísitölu. Ef rafhitunarkostnaður er hins vegar borinn saman við þróun launa á sama tímabili og miðað við verð í janúar ár hvert er rafhitunarkostnaður nú um 83% af því sem hann var íjanúar 1980 og hefur aðeins einu sinni verið lægri á þessu tímabili, en það var í janúar 1987, en á árinu 1987 var orkuverð lækkað í kjölfar kjarasamninga og var verð á raforku til húshitunar því lægra í krónum talið í janúar 1987 en var árinu áður.

Hv. fyrirspyrjandi ber síðan rafhitunarreikninga saman við gasolíureikninga og þá vil ég taka þetta fram: Gasolía hefur snarlækkað og miðað við byggingarvísitölu er verð á gasolíu nú 43% af því sem það var 1980 og 37% af verðinu 1980 ef miðað er við þróun launa á sama tímabili og aðeins þriðjungur af verðinu 1984. Þetta gerir að verkum að samanburður við olíuhitun er nú óhagstæður. Ég vil geta þess að Hitaveita Reykjavíkur hefur hækkað sína taxta frá 1980 um 53% þannig að þar er langmesta hækkunin.

Eins og hér hefur verið sýnt fram á hefur rafhitunarkostnaður hækkað minna á undanförnum árum en annað verðlag. Rafmagnsveitur ríkisins og Orkubú Vestfjarða hafa safnað skuldum sem leiða til hærra orkuverðs á næstunni ef ríkið hleypur ekki undir bagga. Með þessu er ekki verið að halda því fram að rafhitunarkostnaður sé ekki tilfinnanlegur. Til þess að lækka hann þarf meira fé til niðurgreiðslna. Það er mál sem ekki á síður erindi til hæstv. fjmrh. og hv. formanns fjvn. en til annarra ráðherra og stjórnarþm. Ég er að sjálfsögðu tilbúinn að ræða það mál ef einhver þingflokkur stjórnarflokkanna hefur áhuga á og tel það skyldu mína og ríkisstjórnarinnar. Mestu máli skiptir þó að raforkuverð þurfi ekki að hækka til viðbótar vegna mikilla skulda RARlK og Orkubús Vestfjarða.